Flugfreyjan, draumastarf margra

naerverusalarflugf136_skorin_967871.jpg

Svo lengi sem menn muna hefur flugfreyjustarfið verið draumastarf fjölmargra ungra kvenna. Síðasta áratuginn hefur það einnig færst í aukana að piltar/menn sækjast í að starfa sem flugþjónar.

Starfið hefur á sér ákveðinn ævintýrablæ sem felst ekki hvað síst í þeirri staðreynd að þeir sem starfa í háloftunum eru á ferð og flugi út um allan heim. Engu að síður er hér um afar venjulegt þjónustustarf að ræða sem fram fer um borð. Starfið er krefjandi og segja þeir sem því sinna að á meðan á flugi stendur er álag mikið sem felst í að þjóna farþegum, m.a. færa þeim mat og drykk.

Í nærveru sálar á ÍNN 11. mars mun Guðmunda Jónsdóttir sem um þessar mundir á 25 ára starfsafmæli sem flugfreyja leiða áhorfendur inn í allan sannleikan um starfið, kosti þess og ókosti. Meðal þess sem við ræðum um er hvernig gengur að samhæfa vinnu af þessum toga og fjölskyldulíf?
 
Er starfið eins heillandi og margir telja?

Eitt er að heimsækja fjarlægar stórborgir sér til ánægju og yndis en síðan allt annað að staldra rétt sem snöggvast við á flugvöllum og bíða á flughótelum þar til næst vinnutörn hefst.

Farþegar eru eins og gengur eins misjafnir og þeir eru margir. Þeirra þarfir, kröfur og væntingar eru ólíkar og hverjum og einum þarf að sinna af alúð og natni.
Hvernig annast flugfreyjur t.d. um þá farþega sem glíma við alvarlega flughræðslu?

Þetta og margt annað þessu tengt Í nærveru sálar,  mánudaginn 15. mars kl. 21.30.


Ömmurnar orðnar fyrirsætur

naerverusalararf133_966940.jpgFrændfólkið, Kolbrún, Björk og Heiðar skoða arfleifðina. Þátturinn kominn á vef ÍNN.

Hér

Ömmurnar frá Krossum eru nú einnig orðnar fyrirsætur hvernig svo sem þeim líkar það nú_mmurnar_og_urintop.jpg

 


Arfleifðin skoðuð með Heiðari snyrti og Björk borgarfulltrúa.

naerverusalararf133.jpg

Það er sennilega aldrei eins tímabært og nauðsynlegt og nú en að hugsa til baka og rifja upp hvernig forfeður og mæður okkar lifðu. Þrautseigjan, eljan og krafturinn bjó meðal þorra íslendinga því stór hluti þeirra lifði oft við erfiðar aðstæður bæði kulda, vosbúð og fátækt.

Í nærveru sálar 1. mars ræði ég við frændfólk mitt þau  Heiðar Jónsson, snyrti og Björk Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa um arfleifðina en ömmur okkar þær María og Stefanía Ásmundsdætur frá Krossum voru systur.

Hver voru skilaboð þessara kraftmiklu systra til afkomenda sinna og hvernig minnumst við þeirra sem fyrirmynda?  Við ræðum saman um lífið sem þær lifðu á Krossum og tengjum okkur við lífsskoðun þeirra og gildismat. Hvernig getum við mynda brú frá gömlu góðu gildum fortíðarinnar yfir í hina flóknu og ólgumiklu nútíð sem við lifum og hrærumst í?

maria_og_stefania_smundsdaettur.jpgMaría og Stefanía Ásmundsdætur voru dætur Ásmundar Jónssonar og Kristínar Stefánsdóttur frá Krossum. Þær fæddust fyrir aldamótin 1900, bjuggu og ólu börn sín upp á Krossum í Staðarsveit. Stefanía varð snemma ekkja með stóran barnahóp og María var einstæð móðir með tvær dætur. Við frændfólkið rifjum upp minningarnar um ömmur okkar, lærdóminn sem þær miðluðu, umburðarlyndið sem þær kenndu og hvernig þær sýndu kærleikann í verki.


Hvað er eðlilegra fullorðnu fólki en að löngunin til að eignast barn

Þátturinn um ófrjósemi og allar þær flóknu hliðar sem þeim vanda fylgir er kominn á vefinn.

Hér


Að glíma við ófrjósemi

naerverusalar1kr_tilverass30.jpgFátt er eins eðlilegt fullþroska fólki en löngun og þrá til að eignast barn. Barnleysi getur verið sársaukafullt vandamál. Þeir sem glíma við ófrjósemi verja oft mörgum árum af fullorðinslífi sínu í tilraunir til að eignast barn.

Skilgreining á ófrjósemi er þegar par hefur reynt að eignast barn í eitt ár án árangurs. Talið er að 15-20% para á barneignaraldri glími við ófrjósemi einhvern tímann á lífsleiðinni. Ófrjósemi er fyrst og fremst líffræðilegt vandamál enda þótt sálrænir þættir hafi svo sannarlega áhrif.

Tilvera, samtök um ófrjósemi var stofnuð 1989. Hlutverk Tilveru er m.a. að standa við bakið á pörum sem þarfnast tæknifrjóvgunarmeðferðar. Aðeins þeir sem hafa verið og eru í þeirri stöðu að glíma við ófrjósemi og hafa reynt að eignast barn með aðstoð tæknifrjóvgunar vita hversu mikið álag ferlið er og hversu mikil áhrif það hefur á tilfinninga- og líkamlega líðan. Ef meðferðin skilar ekki árangri eykst álagið enn frekar og algengt er að tilfinningar eins og sorg, vonleysi og kvíði komi upp.

Fyrir nokkrum árum var Tæknifrjóvgunardeildinni á LSH lokað og gerður var samningur við ART Medica um að annast þessa þjónustu. Tæknifrjóvgun eins og glasafrjóvgun er kostnaðarsöm meðferð og oft er fleiri en einnar meðferðar þörf.  Kostnaður fer m.a. eftir hversu margar meðferðir parið hefur farið í og einnig hvort parið á eitt eða fleiri börn saman.

Ófrjósemi virðist vera vaxandi vandamál.  Ástæður eru vafalaust hvorki einhlítar né einfaldar.

Í nærveru sálar 22. febrúar verða þessi  mál rædd með þeim Katrínu Björk Baldvinsdóttur og Huldu Hrönn Friðbertsdóttur en þær sitja í stjórn Tilveru. Meðal þess sem verður fjallað um er hversu mikið og margslungið álag það er að vera í þessum sporum.  Það reynir ekki einvörðungu á líkama og sál heldur einnig á samband og samskipti para svo ekki sé minnst á fjárhagsleg útgjöld sem því fylgir að fara í fjölmargar tæknifrjóvgunartilraunir svo sem glasafrjóvganir.

Við ræðum um ófrjósemi og skilgreinum síðbúna ófrjósemi sem oft fær mun minni athygli. Lengi vel hefur ófrjósemi einnig verið feimnismál  í hugum sumra. Það er von flestra að með opinni umræðu um þetta málefni muni það breytast.

Þrái fólk að eignast barn má einnig spyrja hvort við því sé ekki bara ein lausn sem er að parið eignist BARN? Í þessu sambandi ræðum við hvað felst í hugtakinu barnfrelsi.

Síðast en ekki síst er spurningin hvort stjórnvöld geti liðkað enn frekar til fyrir þennan hóp t.d. með breytingum á lögum og reglugerðum þessu tengdu.

Meira um ófrjósemi 22. febrúar Í nærveru sálar á ÍNN kl. 21.30.


Væntingar og vonbrigði nýnema í háskóla

naerverusalar_kr_hi11feb.jpgFyrsta árið í háskóla er ekki alltaf dans á rósum. Nýnema bíða oft alls kyns skakkaföll og hindranir. Þeir leggja af stað í þessa vegferð, flest hver full væntinga en uppgötva síðan stundum all harkalega að leiðin er hvorki bein né greið.  Viðbrigðin að koma í háskóla eru gríðarleg.  Enda þótt nemendur séu að koma úr ágætum menntaskólum og eru margir hverjir tiltölulega vel undirbúnir þá er nám á háskólastigi frábrugðið að mjög mörgu leyti. Í háskóla er samankominn hópur námslega sterkra nemenda. Samkeppni getur því verið mikil. Sá sem hefur verið með þeim hæstu í menntaskóla er e.t.v. kominn í hóp meðaljónanna þegar komið er í háskóla. 

Í háskólanámi er þess krafist að nemendur beri ábyrgð á eigin námi. Það er ekki kennaranna að fylgjast með því hvort nemendur hafi lært heima eða séu að fylgjast með því sem fram fer í tímum. Nemendur verða, ef þeir ætla að ná árangri, að hafa færni og getu til að vinna sjálfstætt. Þeir þurfa að hafa nægjanlegan sjálfsaga til að liggja yfir bókunum án þess að nokkur sé endilega að hvetja þá eða fylgjast með að þeir stundi námið sómasamlega.

Til að ræða þetta og margt fleira í þessu sambandi koma Í nærveru sálar 15. febrúar tveir náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands þær Jónína Ólafsdóttir Kárdal og María Dóra Björnsdóttir.

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa í háskóla er afar víðtækt. Það er ekki lengur einskorðað við að kynna námsleiðir eða hjálpa krökkunum að velja sér brautir heldur einnig að kenna námstækni, hvernig undirbúningi undir próf verður best háttað og hugga og hvetja nemendur sem hafa ekki náð tilskyldum árangri. Við ræðum um klásus, síur og óheyrilegt fall fyrsta árs nemenda svo sem í lögfræði. Hvað er hægt að gera fyrir tugi ef ekki hundruðir nemenda sem t.d. falla í hinni alræmdu Almennu? Eins er forvitnast um hvort námsráðgjafar leiðbeini kennurum í samskiptum þeirra við nemendur og hvernig sértækum hópum er sinnt eins og þeim sem glíma við lesblindu?


Staða ættleiðingarmála á Íslandi í dag

naerverusalar_aettlkk123.pngTilkoma barns á heimili er oftast nær tilefni gleði og eftirvæntingar. Þetta á ekki síður við í þeim tilvikum þegar börn eru ættleidd. Nær undantekningarlaust hafa fjölskyldur sem bíða eftir að fá barn ættleitt gengið í gegnum langan biðtíma sem jafnvel er stundum hlaðinn óvissu. Mörg pör eru þá þegar búin að ganga langa þrautargöngu við að reyna að eignast sitt eigið barn og í því sambandi gengið í gegnum erfiðar aðgerðir og tilraunir á sviði tæknifrjóvgunar.

Í þættinum Í nærveru sálar 8. febrúar verða þessi mál skoðuð nánar. Nýútkomin bók, Óskabörn verður kynnt en segja má að hún sé eins konar biblía í þessum málaflokki. Þetta er fyrsta bókin sem kemur út um ættleiðingar í 45 ár.

Enn er biðlistinn eftir að ættleiða barn gríðarlangur. Yfir 100 fjölskyldur bíða þess að geta sótt barn til eitthvað af þeim löndum sem Ísland hefur ættleiðingarsamband við.

Gestir þáttarins eru þau:
Sigrún María Kristinsdóttir, blaðamaður, doktorsnemi og höfundur bókarinnar Óskabörn og Hörður Svavarsson, formaður félagsins Íslensk ættleiðing.

Í þættinum ræðum við um Haíti og hvort það sé raunverulegur möguleiki að gert verði formlegt ættleiðingarsamband milli Íslands og Haíti. Hvernig geta íslensk stjórnvöld liðkað enn frekar fyrir í þessum málum? UNICEF og önnur alþjóðleg samtök hafa varað þjóðir heims við hættu á því að nokkurs konar gullgrafaraæði brjótist út hjá fólki sem vilja ættleiða börn í kjölfar hörmunganna á Haíti. Hver eru helstu rökin fyrir því að börnin eru oftar en ekki orðin ársgömul og jafnvel eldri þegar foreldrar fá þau í hendurnar?
Hvernig er staðan með ættleiðingar frá Kína um þessar mundir?

Hér eru aðeins nefnd fáein atriði af þeim sem farið verður yfir í Í nærveru sálar næstkomandi mánudag.


Hin árangursríka sálfræðinálgun Hugræn Atferlismeðferð

naerverusalar1hamkrbr26.jpgHelstu sérkenni Hugrænnar atferlismeðferðar. Sálfræðinálgun sem hentar þeim sem glíma við kvíða, streitu og depurð. Oddi Erlingsson og Sóley Davíðsdóttir, sálfræðingar segja frá námskeiði sem þau bjóða upp til að kenna fólki að tileinka sér þessa árangursríku tækni.

Í Nærveru sálar kl. 21.30 1. febrúar á ÍNN.

Námskeið í Hugrænni Atferlismeðferð, sjá meira á vef Kvíðameðferðarstöðvarinnar www.kms.is

Hugræn atferlismeðferð er meðferðarform sem sameinar bæði aðferðir hugrænnar meðferðar (cognitive therapy) og atferlismeðferðar (behavior therapy).  Í hugrænni meðferð fær fólk aðstoð við að breyta neikvæðu hugarfari þannig að líðan þeirra fari batnandi. Í atferlismeðferð er fólk aðstoðað við að breyta atferli sínu, til dæmis takast smátt og smátt á við það sem það kvíðir fyrir að gera. Þannig fer líðan þess smám saman batnandi og fólk öðlast meiri trú á getu sinni.


Kaupgleði er eitt en kaupæði allt annað

Hvar liggja mörkin á milli kaupgleði og kaupæðis?

Mörgum þykir afar gaman að ganga um verslunarmiðstöðvar, skoða gluggaútstillingar en enn fleirum finnst gaman að fara inn í verslanir, skoða hluti, máta föt og kaupa síðan eitthvað sem þeim þykir fallegt.

Kaupgleði er mjög einstaklingsbundin. Á meðan sumir vilja helst eyða mörgum tímum á viku í verslunum eru aðrir sem líkar það illa og fara helst ekki í verslanir nema að þeir neyðist til þess þegar þeim bráðvantar eitthvað. Ástæðan gæti t.d. verið að viðkomandi líður illa innan um margt fólk, í stóru rými og þar sem vöruúrvalið virðist óendanlegt.

Það lætur ekki öllum vel að eiga auðvelt með að taka ákvarðanir um hvað skuli kaupa og hvað ekki. Að velja, vita hvað maður vill getur vafist fyrir sumu fólki á meðan aðrir eru eldsnöggir að finna út hvað hentar þeim. Hversu auðvelt einstaklingurinn á með að taka ákvarðanir hvað hann ætli að kaupa fer eftir mörgu, þó ekki endilega hvort viðkomandi hafi ekki þroskað með sér ákveðinn smekk eða stíl heldur kannski frekar hvort viðkomandi upplifi það sem einhverja sérstaka áhættu að kaupa eitthvað sem honum mun kannski síðan ekki líka. Hugmyndir fólks um hvernig það vill verja peningunum sínum spilar einnig hlutverk í þessu sambandi sem og hvort einstaklingur skilgreinir sig sem vandlátan og jafnvel sérsinna. Sjálfsmat, ánægja með útlit eru þættir sem skipta sköpum þegar kemur að því að ákveða fatakaup.

En eitt er að vera haldin kaupgleði og annað að vera með kaupæði þótt oft megi telja að þarna sé mjótt á mununum. Kaupæði er þegar einstaklingur ver svo miklum tíma í verslunum í að kaupa eitt og annað að það er farið að koma niður á öðrum þáttum í lífi hans. Um er að ræða fíkn þar sem stjórnleysi hefur fest sig í sessi. Oftar en ekki er kaupfíkillinn snöggur að ákveða sig hvað hann ætlar að kaupa enda er þetta frekar spurning um að kaupa mikið og oft frekar en að kaupa fáar, vel ígrundaðar vörur. Sá sem haldin er stjórnleysi vill allt eins kaupa til að gefa öðrum eins og að kaupa eitthvað handa sjálfum sér. Mestu máli skiptir að hann sé að kaupa.

Kaupæði vísar til stjórnlausrar, áráttukenndra kaupa þar sem kaupandi hefur ekki tök á að stöðva atferlið jafnvel þótt öll heimsins skynsemi mæli gegn eyðslunni sem kaupunum fylgir. Sá sem er haldinn kaupfíkn er oft líka með söfnunaráráttu. Honum finnst hann þá þurfi að eiga allt af ákveðinni tegund sem hann er að safna.

Meira um þetta hér


Í DV að morgni, í fréttum RÚV og Stöðvar 2 að kvöldi?

DV fréttamenn virðast vinna fréttir bæði fyrir Stöð 2 og RÚV: útvarp/sjónvarp.

Ég hef ítrekað tekið eftir því að RÚV og Stöð 2 eru með sömu fréttir og lesa má í DV að morgni.

Oftar en ekki eru þetta fréttir um fjármál, meint fjármálasvik og fleira í þeim dúr en einnig um margt annað líka.

Stundum er forsíða DV einfaldlega aðalfréttaefni Stöðvar 2 og ríkisútvarps/sjónvarps.

Hvaða merkingu á að leggja í þetta?

Ein er sú að Stöð 2 og RÚV þykja DV vera áreiðanlegur fjölmiðill fyrst þeir taka svona beint upp eftir blaðamönnum DV.


Börn eru börn til 18 ára aldurs

Börn eru börn til 18 ára. Það er hlutverk foreldra /umönnunaraðila þeirra að gæta að velferð þeirra þar til þau ná þessum aldri. Að gæta að velferð barna sinna getur þýtt margt.  Fyrstu árin reynir mest á að gæta þeirra þannig að þau fari sér ekki að voða.  Að veita þeim ást, umhyggju og örvun eru viðvarandi nauðsynlegir uppeldisþættir ef barn á að eiga þess kost að þroskast eðlilega og geta nýtt styrkleika sína til fulls.

Þegar börnin stálpast og nálgast unglingsárin koma æ sterkar inn uppeldisþættir í formi fræðslu og leiðbeiningar til að unglingarnir læri að vega og meta aðstæður eigi þeir að geta varist ytri vá af hvers kyns tagi. 

Áhrifagirni og  hvatvísi er meðal algengustu einkenna unglingsáranna. Leit að lífstíl og samneyti við vini er það sem skiptir börn á þessum aldri hvað mestu máli. Það er einmitt þess vegna sem foreldrar þurfa að vera sérstaklega meðvituð um leiðbeiningarþátt uppeldisins og að geta sett börnum sínum viðeigandi mörk.

Stundum þurfa foreldrar einfaldlega að segja NEI. Þetta á við sé barnið þeirra að fara fram á að fá að gera hluti sem foreldrar telja annað hvort  óviðeigandi ef tekið er mið af ungum aldri þeirra eða ef þau telja að það sem barnið biður um að gera geti hugsanlega valdið þeim andlegum,- líkamlegum eða félagslegum skaða til lengri eða skemmri tíma. Undir þetta falla þættir eins og að gæta þess að unglingarnir þeirra taki ekki þátt í álagsmiklum félagslegum uppákomum, aðstæðum sem auðveldlega geta orðið óhörðnuðum og óreyndum unglingum ofviða og jafnvel skaðlegar.   

Mörgum foreldrum finnst erfitt að banna barni sínu að gera eitthvað sem þau sækja fast og sérstaklega ef þau fullyrða  að jafnaldrar þeirra hafi fengið leyfi sinna foreldra.  Eins og gengur og gerist hjá kraftmiklum og klárum unglingum neyta þau gjarnan ýmissa bragða til að fá foreldra sína til að gefa eftir.  „Þið eruð leiðinlegustu foreldrar í heimi“ glymur endrum og sinnum á heimili unglings. Það er ekkert notalegt að fá slíka athugasemd frá barni sínu. Sektarkenndin á það til að flæða um og áður en þau átta sig jafnvel,  hafa þau gefið eftir.

Ef foreldrar eru í einhverjum vafa um hvar mörkin liggja milli þess að leyfa, semja við eða hreinlega banna börnum sínum eitthvað,  ættu þeir að leita sér ráðgjafar.  Umfram allt mega foreldrar ekki missa sjónar af þeirri staðreynd að það eru þeir sem ráða þegar upp er staðið og að þeir bera að fullu ábyrgðina á barni sínu þar til það hefur náð sjálfræðisaldri.

 


Þá er að undirbúa sig undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eru Íslendingar í hers höndum?

Uppeldistækni sem virkar

naerverusalarpmtkr119.jpg

PMT stendur fyrir „Parent Management Training“, sem er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. 

Um er að ræða hugmyndakerfi  sem ættað er frá Oregon og sem miðast að því að stuðla að góðri aðlögun barna. Þessi aðferðarfræði hefur nýst sérlega vel ef börn sýna einhver hegðunarfrávik. Meginhöfundurinn er Dr. Gerald Patterson.

PMT felur í sér að foreldrum er kennt að nýta sér styðjandi verkþætti eða verkfæri sem stuðla að jákvæðri hegðun barnsins og draga að sama skapi úr neikvæðri hegðun. Í löngu rannsóknarferli hefur það sýnt sig að viðeigandi beiting hefur verulega bætandi áhrif á atferli og aðlögun barnsins.

Í Í nærveru sálar, mánudagskvöldið 4. janúar kl. 21.30 ætlum við Margrét Sigmarsdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði að skoða ofan í verkfærakassa PMT.

Þar er m.a. að finna hvernig hægt er að gefa fyrirmæli á árangursríkan hátt og hvað það er sem skiptir máli, vilji foreldrar stuðla að jákvæðum samskiptum við barnið. Einnig mikilvægi þess að nota hvatningu og hrós þegar kenna á nýja hegðun. Við skoðum hvaða nálgun virkar þegar setja skal mörk og einnig þegar draga þarf úr óæskilegri hegðun.

Síðast en ekki síst munum við Margrét ræða um mikilvægi þess að grípa inn í snemma og vinna með vandann á fyrstu stigum. Alvarlegir hegðunarerfiðleika sem ná að fylgja barni til unglingsára geta leitt til enn alvarlegri vandamála síðar meir og haft m.a. í för með sér áfengis- og vímuefnanotkun með tilheyrandi fylgikvillum.

Unnið er eftir PMT hugmyndafræðinni víða um land þar á meðal í Hafnarfirði.  

 


Hvorki barn né fullorðinn

naerverusalarrammi_a_vef_946620.jpg

Unglingsárin, helstu einkenni þeirra.

Hverjar eru þarfir unglinganna?

Hver er kjarni góðra samskipta og hverjar er öruggustu forvarnirnar?

Unglingurinn, tölvunotkun og Netið.

Er hægt að ánetjast tölvunni/Netinu?

Þetta er vitað:
Dæmi eru um að aðrir hlutir sem unglingum fannst áhugaverðir og mikilvægir í lífi sínu hafa vikið fyrir tölvunni.

Verði tölvunotkun stjórnlaus er hætta á að aðrir mikilvægir þættir í lífi og tilveru unglingsins þurrkist einfaldlega burt.

Þetta er meðal þess sem fjallað verður um  Í nærveru sálar í kvöld 28. desember kl. 21.30 á ÍNN


Leikföng sem þroska og þjálfa

naerverusalar115leikfkr_944011.jpgHandan við hornið eru jólin og margir nú í óða önn að kaupa jólagjafirnar. Í pakka barnanna leynast oft leikföng. En leikföng eru ekki bara leikföng.

Gríðarlegt úrval er til af allskonar leikföngum. Það er ekki bara dúkka og bíll heldur ótal annað dót sem kallar á mismunandi viðbrögð barnsins bæði á sviði vitsmunar og hreyfifærni.

Við sem erum þessa dagana að velja í pakkana handa börnum og barnabörnum viljum auðvitað gefa spennandi leikföng, helst leikföng sem kalla á áhrif eins og vááá og í augum þeirra má sjá ljóma þegar litlar hendur teygja sig eftir leikfanginu.

En hversu lengi finnst barninu leikfangið spennandi?
Hvaða kosti hefur einmitt þetta leikfang?


Þetta eru e.t.v. spurningar sem mjög mörg okkar leiða ekkert sérstaklega hugann að.
Frekari spurningar gætu verið:

Leiðir þetta leikfang til jákvæðrar upplifunar hjá barninu?
Er þetta leikfang skammtímaafþreying eða mun það hafa einhvern líftíma?

Öll vitum við að örvun og þjálfun er nauðsynlegur þáttur í lífi hvers barns eigi það að ná fullum þroska og geta nýtt til fulls getu sína og færni.

Allir þeir sem að barninu standa bera ábyrgð á því að hjálpa því til þroska og þess vegna skiptir val á leikföngum miklu máli.

Fjölmörg leikföng hafa þann eiginleika, sé leikið með það, að örva fínhreyfingar og hugsun. Það  hefur þann eiginleika að kalla fram nýjar hugmyndir hjá barninu og hvetja til nýsköpunar. Sum leikföng eru þess eðlis að þau kalla á færni í að flokka og skipuleggja eftir stærð, litum, lögun og í að búa til mynstur. Þessir þættir eru ómetanlegur hluti af þroska sérhvers barns.

Hönnun leikfangsins og efnið sem það er búið til úr er ekki síður mikilvægt. Efnið þarf að vera barnvænt og laust við alla mengun. Hönnun þarf að vera þannig að leikfangið geti ekki undir neinum kringumstæðum verið barninu skaðlegt.

Margir spyrja sig einnig hvar leikfangið er framleitt, frá hvernig verksmiðju það kemur og hverju unnu við framleiðslu þess?

Ástæðan fyrir þessari spurningu er sú að við vitum að sumstaðar í heiminum viðgengst barnaþrælkun. Börnum er þrælað út í vinnu meðal annars við að framleiða leikföng.

Í Í nærveru sálar á ÍNN, mánudaginn 21. desember kl. 21.30 verður fjallað um þessi atriði og fjölmörg fleiri þessu tengt. Við skoðum ýmis leikföng sem talin eru heppileg fyrir börn og fjölyrðum m.a. um hvað það þýðir þegar talað er um opið eða lokað leikefni.  

Gestir þáttarins eru þær Sigríður Þormar, hjúkrunarfræðingur og verslunareigandi og Valgerður Anna Þórisdóttir, leikskólastjóri Foldakoti


Tyllir sér á stýrið þar sem fótinn vantar

a_almyndmj_942909.jpgÞátturinn Fötluð gæludýr er kominn á vefinn. Þar er hinn þrífætti Mjallhvítur og sýnir hversu lipur hann er þótt einn fótinn vanti.

Það er gaman að sjá hvernig hann notar stýrið til stuðnings þegar hann tyllir sér. Þá skýtur hann því undir þar sem fótinn vantar.

Umræðan er um að elska og eiga gæludýr, ábyrgðina og væntumþykjuna.


Fötluð gæludýr

mjallhvitur_og_afmaeli_022_942039.jpgÞað fylgir því mikil ábyrgð að eignast gæludýr. Flestir gæludýraeigendur mynda við þau djúp tengsl og komi eitthvað fyrir þau er harmur heimilisfólksins og ekki hvað síst barnanna oft mikill.

Einn mikilvægasti hluti uppeldis er að kenna börnum að vera góð við minnimáttar, þar á meðal dýr. Dýrin treysta á umönnunaraðila sína og öll þeirra tilvera er undir eigendunum komin.

Foreldarnir eru sterkar fyrirmyndir að þessu leyti. Dæmi eru um að börnum sem ekki hafa verð kennt að bera virðingu fyrir dýrum séu þeim vond. Einnig eru dæmi um að fullorðið fólk komi illa fram við gæludýrin sín og líti jafnvel á þau sem skammtíma afþreyingu eða gera sér ekki grein fyrir að dýrin hafa sínar þarfir og þeim þarf að sinna. Sem betur fer eru þetta undantekningar.

Gæludýr, eins og mannfólkið, eiga við sín vandamál að stríða. Þau veikjast, verða fyrir slysum og þarfnast þá sérstakrar aðhlynningar.

naerverusalarmjalllhv_kr110_942044.jpg

Í nærveru sálar hinn 14. desember kl. 21.30 kynnumst við honum Mjallhvíti en á hann vantar einn fót. Fótinn varð að fjarlægja í kjölfar slyss. Eigandi hans Anna Ingólfsdóttir og dýralæknirinn Hanna Arnórsdóttir sem gerði á honum aðgerðina upplýsa okkur um reynslu sína af Mjallhvít. Anna lýsir hvernig það var fyrir fjölskylduna þegar þeim var tjáð að taka þyrfti af honum fótinn. Hanna segir frá því hvernig það er að vera dýralæknir þegar fólk biður, af einhverjum ástæðum, um að láta svæfa dýrin sín.

 mjallhv_st10965_323301695175_108054675175_9778242_7570590_n.jpg

Mjallhvítur er frægur köttur því út er komin bók um hann. Hann lætur ekki fötlun sína stoppa sig og fer um eins og hver annar köttur enda fær hann orku sína aðallega  úr ullarsokkum.


Nýr dagur, nýtt ljós. Til hamingju!

Nýr dagur, nýtt ljós. Til hamingju með Sigur í tapleik, mynd eftir Einar Má Guðmundsson um knattspyrnulið þar sem flestir leikmenn eiga áfengismeðferð að baki.

Tímamóta mynd og lagið er frábært, vel sungið af Helga Björnssyni, lag eftir Gunnar Bjarna Ragnarsson og texti eftir Einar Má.

Lagið virkar þannig að manni langar að hlusta á það aftur og aftur og aftur.Smile


Megastuð í Múlalundi

naerverusalarrammi_a_vef_940391.jpgÍ Múlalundi, vinnustað þeirra sem hafa skerta starfsorku má bæði finna færni og frumkvæði. Þar er að finna hugmyndaríkt fólk sem getur hrundið hugmyndum sínum framkvæmd á vinnustað eins og Múlalundi. Nýsköpun og sveigjanleiki virðist einkenna þennan vinnustað. Við fáum að kynnast Múlalundi ögn nánar í
Í nærveru sálar, ÍNN mánudaginn 7. desember kl. 21.30.

Gestir eru Helgi Kristófersson, framkvæmdarstjóri og Ólafur Sigurðsson, starfsmaður. Meðal þess sem við ræðum um er:

Hvernig er umsóknarferlinu háttað?
Geta allir öryrkja sem þess óskað fengið vinnu?
Hvað er helst framleitt, hver ákveður hvað er framleitt og hvernig er tengslum við atvinnulífið háttað?

Líðan á vinnustaðnum og þýðing Múlalundar í lífi fólksins sem þar starfar.

Ólafur segir okkur frá hvernig dagurinn byrjar á morgnana og hvernig ferlið er þegar nýr starfsmaður kemur til starfa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband