...erilsamt var hjá lögreglu...

Útihátíðarhelgin mikla er nú að baki og gekk að mestu vel eftir því sem næst verður komist. Allavega liggur enginn í valnum hvorki eftir umferðarslys né líkamsárásir og fyrir það erum við þakklát.

Í fréttum af helginni segir gjarnan erilsamt var hjá lögreglu, hvað svo sem þetta erilsamt þýðir nákvæmlega. Stundum fylgir fréttinni um eril lögreglunnar að 2 hafi setið fangageymslur og stundum 20. Hvort heldur tveir eða tuttugu er lýsingin sú sama: erilsamt var hjá lögreglu.

Í huga mínum lítur þetta þannig út að býsna vel hafi gengið á Akureyri svo ekki sé minnst UMFÍ mótið í Þorlákshöfn og á mörgum öðrum smærri útihátíðum um land allt.
Þjóðhátíð í Eyjum var e.t.v. helst til of skrautleg eða hvað?

Þessi árvissi atburður að menn kveiki í tjöldum í hátíðarlok er sérkennilegur og örugglega ekki í þökk allra þeirra sem tapa dýrum útilegubúnaði. Þjóðhátíðin var afar fjölmenn og hefði orðið enn fjölmennari ef veður hefði ekki hindrað brottför þeirra sem ætluðu út í Eyjar á sunnudeginum. Lýsingar á hvernig Dalurinn er útleikinn eftir hátíðina eru svakalegar og ærið verkefni framundan að hreinsa svæðið og koma öllu í viðunandi horf aftur. 
En ef Eyjamenn eru ánægðir, gestir þeirra og aðstandendur sömuleiðis þá getum við hin einnig glaðst.


Ímynd stjórnmálaflokkanna, sjá skoðanakönnun hér til hægri

Ég var á afar áhugaverðum fyrirlestri í dag í Odda en þar fjallaði Þórhallur Guðlaugsson dósent við viðskiptafræðideild HÍ um markaðsfræði í tengslum við stjórnmálaflokka landsins.

Í fyrirlestrinum fór Þórhallur yfir nýlega grein sína sem ber heitið
Markaðsfræðilegt sjónarhorn á stöðu stjórnmálaflokka fyrir Alþingiskosningarnar 2007,
sem birt er í 1. tbl. 4. árg. 2008 í Stjórnmál og stjórnsýsla, veftímarit.

Skoðunarkönnun sú sem ég hef sett af stað á bloggsíðunni tengist efni þessa fyrirlesturs Þórhalls. Hann birtir í greininni niðurstöður sínar á könnun sem hann gerði á hvernig ungt fólk skynjaði stöðu stjórnmálaflokkanna. Leitað var svara með hvaða hætti viðfangið tengdi stjórnmálaflokkanna við þætti eins og:

Spilling
Ásókn í völd
Atvinnulífið
Umhverfismál
Þjóðerniskennd
Velferðarmál
Samstaða
Traust.

Ég vil hvetja fólk sem hefur áhuga á þessum niðurstöðum að kynna sér þær hjá Þórhalli. 


Bílakirkjugarður við Suðurlandsveg

Þegar ekinn er Suðurlandsvegur í átt til Reykjavíkur má sjá þegar komið er rétt austan við Rauðavatn að víða við þjóðveginn er búið að leggja merktum bílum með máluðum auglýsingaskiltum á hliðum.  Þessum bílum hefur verið lagt óskipulega og minnir einna helst á bílakirkjugarð þar sem mest hefur verið lagt af þeim. 

Þetta er ekki bara sjónmengun heldur draga auglýsingabílarnir athyglina frá akstrinum.
Hvet fólk til að skoða þetta.

Þarf ekki löggjafinn að taka á þessu?


Kínverjar í góðum félagsskap

Það að stærsti íþróttaviðburður heims sé haldinn í Kína getur haft góð áhrif á kínverska alþýðu og samfélagið allt.  Aukin tengsl er einmitt eitt grundvallaratriði þess að hægt sé að koma áleiðis jákvæðum skilaboðum sem e.t.v. kunna að festa sig í sessi. Með því að rjúfa einangrun eins og hægt er, ná jákvæðar fyrirmyndir að hafa áhrif og hver veit nema það leiði til þess að lagður verði grunnur að breytingum til góðs.

Af því sem maður les um undirbúning Leikanna í Peking leggja Kínverjar mikla áherslu á að vera góðir gestgjafar. Þeir vilja að Leikarnir gangi snurðulaust fyrir sig svo vænta megi hróss frá öðrum þjóðum. 

Kínverjar eru að mínu viti gríðarlega duglegt fólk. Þeir sem hafa kynnst Kínverjum ber flestum saman um að þeir séu gott fólk, greiðviknir og ljúfir í framkomu. Lífsbarátta margra  hefur verið hörð og menningin bíður ekki upp á neitt kvart og kvein. Þjóðin hefur lengi liðið fyrir ömurlega stjórnarhætti sem fela í sér harðneskju og mannréttindabrot.

Nú fóstra Kínverjar Ólympíuleikana og hver veit nema eitthvað gott komi út úr því fyrir kínversku þjóðina.

 

 


Eru breytingar á rekstrarumhverfi landbúnaðarins í sjónmáli?

Ég við taka undir með þeim fjölmörgu sem lýstu vonbrigðum sínum að Doha viðræðurnar fóru út um þúfur.  Þeirra á meðal voru Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi, Erlendur Hjaltason, formaður Viðskiptaráðs Íslands og margir fleiri,  stjórnmálamenn sem aðrir.

Líklegt er talið að ekki muni líða eins langur tími milli viðræðna og raun hefur borið vitni undanfarin ár enda málið knýjandi. Þrátt fyrir að slitnaði upp úr WTO viðræðunum er það fagnaðarefni að heyra að hér á landi muni hefjast undirbúningur fyrir breytingar í takt við þann veruleika sem viðræðurnar fólu í sér og fjölluðu um.

Þótt viðræðurnar hafi farið út um þúfur í þessari lotu óttast margir bændur um sinn hag og finnst nú að óvissuástand ríki í landbúnaðarmálum. Flestir vita að þótt slitnað hafi upp úr Doha viðræðunum þýðir það ekki endilega að allt muni haldast óbreytt í landbúnaðarmálum hér á landi. Nú hlýtur að verða að fara ofan í saumana á rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar. Óumflýjanlegt er t.a.m. að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins sem bent hefur verið á að sé ekki í neinu samræmi við alþjóðasamninga. Það er einnig allt of rígbundin við gömlu búgreinarnar og hefur því hindrandi áhrif á að eðlilegt umhverfi geti myndast í landbúnaðarframleiðslu. Fjölbreytni og samkeppni þurfa nauðsynlega að komast inn í þennan geira. Eins og einnig hefur verið bent á eru landbúnaðarstyrkir hér á landi með þeim hæstu sem fyrirfinnast í OECD löndunum.

Nú bíður að leita leiða til að skellur þeirra breytinga sem koma skulu bugi ekki bændastéttina.

Vonbrigði með viðræðuslitin eru þó sannarlega ekki bundin við íslenskan veruleika heldur einnig að þjóðir heims misstu þar með af góðu tækifæri til að opna réttlátari viðskiptaleiðir sem gagnast gætu ekki hvað síst þróunarríkjunum.


Á leiðinni á slysstað

Sjúkraflutningsmenn, lögregla og aðrir sem koma fyrstir á slysavettvang velta því sennilega fyrir sér á leiðinni hvað kunni að bíða þeirra á slysstaðnum, hvort fólk hafi sloppið með skrámur, hvort einhverjir séu stórslasaðir eða hvort orðið hafi jafnvel banaslys?

Allir geta ímyndað sér hvernig aðkoman getur verið þegar alvarlegt umferðarslys hefur orðið. Við blasir slasað fólk, skelfingu lostið og hrætt; fólk sem hefur misst meðvituð; fólk sem er fast í bílflakinu eða fólk sem flogið hefur út úr bílnum við slysið vegna þess að það var ekki í bílbelti. Þessi lýsing er bara brot af þeim aðstæðum sem hægt er að ímynda sér að séu á vettvangi alvarlegs umferðarslyss.
Skyldi nokkurn tímann vera hægt að venjast þessu?

Þeir sem starfa við sjúkraflutninga, lögreglan og aðrir sem koma að hinum slasaða hljóta að kenna oft streitu og mikils álags í starfi.  Þetta fólk á sínar fjölskyldur sem það kemur heim til að lokinni vakt, eftir að hafa e.t.v. verið að klippa einhvern út úr bílflaki, reyna að lina þjáningar stórslasaðra einstaklinga eða reynt að blása lífi í einhvern sem þá þegar kann að vera látinn.

Í álagsstarfi sem þessu er auðvelt að brenna út . Vissulega hjálpar að hafa fengið góðan undirbúning og þjálfun. Svona starf er heldur ekki fyrir hvern sem er. Sumir segja að með reynslunni verði maður ónæmari og taki síður svona lagað inn á sig. Aðrir vilja meina að því lengur sem maður gegnir starfi sem þessu og því meira sem maður upplifir af hörmungum aukist kulnunin. Vissulega hlýtur þetta að vera mjög einstaklingsbundið. 

Þeir sem gegna þessum störfum þarfnast þess að hlúð sé að andlegri líðan þeirra í kjölfar erfiðrar reynslu í vinnunni, hvort heldur í formi handleiðslu, frítíma eða annarrar umbunar.
Þannig getum við sýnt þeim að við virðum störf þeirra og að okkur standi ekki á sama um sálarlíf þeirra. 

 


Ekki liggja allir við sama borð

Líkhúsgjald er innheimt í sumum sveitarfélögum en öðrum ekki, (sjá fyrri færslu og umfjöllun í 24 stundum í dag).

Málið var til meðhöndlunar hjá Umboðsmanni Alþingis árið 2005. Mál nr. 4417/2005.
Niðurstaðan var sú að ekki væri heimild í lögum fyrir Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma til að innheimta líkhúsgjald fyrir geymslu á líkum í líkhúsi kirkjugarðanna í Fossvogi.

Eins og staðan er í dag er ekki innheimt líkhúsgjald hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur. Þetta gjald er hins vegar innheimt í einstaka sveitarfélögum m.a. þar sem útfaraþjónusta er einkarekin. 

Samræmingar er þörf enda er eðlilegt að allir landsmenn sitji við sama borð hvort heldur sem þessi eða hin útfaraþjónustuna annist útförina.

Vænta má að þetta mál skýrist á næstu misserum þar sem fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingar á lögum um kirkjugarða og greftrun. Málið er jafnframt áfram til athugunar hjá Umboðsmanni Alþingis.


Ásakaður um valdníðslu og hroka

Endrum og sinnum heyrist í fréttum, (sbr. í fréttum í gærkvöldi) að einhver sé ásakaður um valdníðslu og hroka.

Þegar hlustað er á helstu orsakir ásakanna sem þessara hafa þær stundum að gera með að viðkomandi hefur ekki brugðist við, hvort heldur fyrirspurn sem beint er til hans, ósk um upplýsingar eða beiðni um álit í einhverju tilteknu máli svo eitthvað sé nefnt. Oft hefur þetta að gera með að bréfum eða tölvuskeytum hefur ekki verið svarað eða ekki hefur náðst í þennan aðila þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Það er í raun ekki erfitt að skilja þann pirring sem fólk upplifir fái það engin viðbrögð sem dæmi frá þeim sem það hefur sent skeyti/bréf í einhverjum ákveðnum tilgangi og væntir þess að fá svar.  Sendandinn veltir eðlilega vöngum yfir af hverju móttakandinn lætur ekkert frá sér heyra jafnvel þótt margar vikur séu liðnar frá því skeytið var sent eða skilaboðin skilin eftir. Í þessum aðstæðum er ekki óeðlilegt að sendandinn upplifi höfnun og finnist sem sá sem svaraði ekki hafi sýnt sér eða málefninu sem um ræddi ákveðna lítilsvirðingu.

Vilji einstaklingar forðast að vera ásakaðir um valdníðslu og hroka er lausnin einfaldlega sú að gera sér sér far um að bregðast við með einum eða öðrum hætti svo sem:

a.  Svara spurningu(m) sem til þeirra er beint
b.  Ef engin svör liggja fyrir, þá staðfesta móttöku skeytisins og þakka fyrir það
c.  Með því að segja t.d. að málið sé í athugun (sé það í athugun)
d.  Að haft verði samband síðar
e.  Að vísa málinu annað (ef úrlausn á betur heima annars staðar)

Ef ekkert af þessu ofangreinda á við þá eru það a.m.k. góðir samskiptahættir að þakka fyrir skeytið og þakka jafnframt sendandanum fyrir að hafa viljað deila sínum skoðunum með öðrum.

Margir myndu nú segja við þessu, að ekki sé raunhæft að ætla að svara öllum þeim sem senda manni póst.  Vissulega tekur það tíma sértaklega ef mikill póstur berst daglega og kannski er það ekki vinnandi vegur að ætla að hægt sé að svara öllum. En sendi maður skeyti sem maður væntir svars sem síðan aldrei berst þá segir það væntanlega eitthvað um móttakandann, alla vega í huga sendandans.


Eyðilegging til lífsstíðar

Skaðsemi langvinns eineltis getur varað alla ævi. Þessi umræða hefur sérstaklega verið í deiglunni nú í kjölfar þess að móðir ungs drengs sem nýlega tók líf sitt sagði frá því að sonur hannar hafi sætt gengdarlausu einelti í grunnskóla í þrjú ár. Góð vísa er aldrei of oft kveðin og þrátt fyrir að nú sé sumar og sól og skólastarf liggi niðri er málefnið engu að síður brýnt.

Sjálfsmat barns sem hefur orðið fyrir ítrekuðum árásum eða hunsun og fyrirlitningu annarra barna í langan tíma verður fljótt eins og rjúkandi rúst.  Þeir sem þetta hafa mátt þola án þess að tekist hafi að grípa inn í og stöðva, leggja iðulega af stað út í lífið með skaddaða sjálfsvirðingu. Tilfinningar eins og reiði, vanmáttur og höfnun fylgir þessum einstaklingum stundum ævilangt og kvíði og þunglyndi er ekki óalgengir kvillar sem þeir stríða við.

Þrátt fyrir að foreldrar og skólayfirvöld hafa tekið höndum saman og reynt ýmsar leiðir til að uppræta einelti skila aðgerðir ekki alltaf  tilætluðum árangri. Stundum breytist hið neikvæða atferli geranda/gerenda þannig að árásirnar fara að verða leyndari og minna sýnilegri þannig að erfiðara reynist að festa á þeim hönd og skilgreina.

Því fyrr sem skólayfirvöld og foreldrar byrja að ræða þessi mál við börn sín, helst strax við upphaf grunnskólagöngu og jafnvel fyrr,  má leiða að því líkum að tíðni eineltistilvika fækki eitthvað. Umræðan þarf fyrst og fremst að snúast um að börnin sýni hvert öðru gagnkvæma virðingu og að engan megi skilja út undan.  Einnig að börnin læri almennar samskiptareglur bæði á heimilinu og í skólanum og mikilvægi þess að þau láti viti ef þeim,  af einhverjum orsökum, líður illa.

Sumir skólar leggja mikla áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir t.d. með því að tvinna saman umræðu um t.d. jákvæð samskipti og fræðslu um skaðsemi stríðni við hið daglega skólastarf. Börn fara mjög ung að skilja merkingu þessara hugtaka og með því að tala um þetta við þau eykst hæfni þeirra að setja sig í spor annarra og upplifa tilfinningu á borð við umburðarlyndi, tillitssemi og samkennd með þeim sem eiga um sárt að binda.

 

 


Landsbankinn gráðugastur allra banka

Landsbankinn er gráðugastur allra banka eins og kemur fram í könnun sem birt er í Fréttablaðinu. Glitnir tekur o kr. fyrir að millifæra á meðan Landsbankinn tekur 240 kr.

Ég hef verið viðskiptavinur Landsbankans í fjölmörg ár.  Sem dæmi ef farið er í útibúið í Smáralind eftir kl. 4 til að greiða reikning þá er tekið fyrir það gjald. Samkvæmt þessari litlu könnun er Kaupþing banki litlu skárri.

Hvernig væri að þessir bankar tækju Glitnir sér til fyrirmyndar?  Ég held ég væri löngu búin að skipta um viðskiptabanka ef það væri bara ekki svo mikið vesen.

Líkhús eins og 3* hótel

Það eru fjölmargar nýjar upplýsingar sem koma til vitundar manns þegar leita þarf eftir þjónustu sem að öllu jöfnu ekki er sóst eftir.

Vegna andláts í fjölskyldunni varð ég þess vísari að sérstaklega þarf að greiða fyrir geymslu á látinni manneskju í líkhúsi, í það minnsta í sumum líkhúsum öðrum en þeim sem tilheyra Reykjavík.  Einn sólarhringur í líkhúsinu samsvaraði einnar nætur gistingu á ágætis hóteli. Fólk er eðlilega lítið að huga að einstaka kostnaðarliðum á sama tíma og það er að syrgja og mitt í erfiðu ferli sem undirbúningur útfarar ástvina krefst.

Mér var alla vega ekki kunnugt um það áður að það kostaði ákveðna upphæð á sólarhring að geyma lík í líkhúsi og þess vegna varð ég svolítið undrandi.

Flest öll þjónusta kostar og kannski megum við bara vera þakklát fyrir að þurfa ekki að greiða fyrir hverja nótt sem við liggjum í gröfinni.

En þetta er nú svona smá kaldhæðni af minni hálfu. Auðvitað er það okkar landsmanna ákvörðun þ.e. samfélagsins, hvað það er sem við viljum að einstaklingurinn greiði sjálfur fyrir og hvað við viljum að flokkist undir samtrygginguna. Eins er spurning hvort allir landsmenn sitji við sama borð hvað þetta varðar t.d. hvort flest líkhús (sveitarfélög) krefjast líkgeymslugjalds eða bara sum.

Ástæðan fyrir að ég ákvað að skrifa um þetta er að mér finnst að uppýsa eigi fólkið í landinu sérstaklega vel um allt sem viðkemur útför og hvaða valmöguleika þeir hafa í þessu sambandi. Reyndar hafa útfararstofnanir og prestar verið duglegir að veita þessar upplýsingar en þó er eitt og annað sem fólk gerir sér e.t.v. ekki grein fyrir.

Því minna sem er um óvænta liði eða uppákomur í sorgaraðstæðum því betra. Góðar upplýsingar einfalda ferlið og minnka líkurnar á að eitthvað komi syrgjendum síðar á óvart. Ekki má gleyma því að fyrir þá sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum er hér um stóra kostnaðarliði að ræða. Það er hópur fólks í okkar samfélagi sem er það illa statt fjárhagslega að það neyðist til að horfa í aurinn eins ógeðfellt eins og það er að þurfa að gera það við þessar aðstæður.


Smá sekur eða svo að segja saklaus?

Í viðtali við Árna Johnsen í Kastljósinu í gær var rætt um eitt og annað í sambandi við dóma, réttarkerfið, einstaka mál eins Baugsmálið og síðan mál Árna sjálfs.

Árni sagðist þó tregur að ræða sitt eigið mál, en hafði þó einstakar setningar um það m.a. hans reynslu af réttarkerfinu þegar hann sat hinum megin við borðið eins og hann orðaði það.

Ég man þetta viðtal nú ekki orðrétt en fékk það á tilfinninguna að Árni sé ekki alveg að taka ábyrgð á því broti (brotum) sem hann var dæmdur fyrir hér um árið.  Það er allt eins að heyra á máli hans að hann telji að á sér hafi verið brotið með því að dæma hann til fangelsisvistar, í það minnsta má merkja að honum hafi fundist málsmeðferð sín í réttarkerfinu og niðurstaða hennar ósanngjörn.

Annars á Árni skilið hrós fyrir margt. Hann er eljusamur og trúr sínu sveitarfélagi.  Einnig það að hann tók prófkjörsslaginn aftur og komst á ný inn á þing þrátt fyrir allt sem á undan var gengið í lífi hans er mjög athyglisvert. Það sýnir mikla þrautseigju og uppgjöf er Árna greinilega ekki í blóð borin.


Að gráta undir stýri getur verið banvænt

Andlegt uppnám ökumanns svo sem sorg eða reiði getur dregið verulega úr hæfni hans að einbeita sér sem skildi að akstrinum og akstursumhverfinu öllu. 

Flestir þeir sem hafa haft ökuskírteini um einhvern tíma kannast örugglega við þá upplifun að hafi þeir verið annars hugar undir stýri þá muna þeir varla eftir akstrinum á áfangastað. Það er næstum eins og sjálfvirkt kerfi fari í gang og allt í einu þegar maður er komin þangað sem ferðinni var heitið vaknar maður til vitundar.

Þegar þetta hefur komið fyrir mig hef ég hugsað hversu heppin ég var að ekkert óvænt kom upp á leiðinni sem kallað hefði á viðbragðsflýti. Þar sem maður er víðsfjarri, sokkin á kaf í eigin hugsanir er viðbragðsflýtirinn varla upp á marga fiska.

Það segir sig því sjálft að sá sem er í verulegu andlegu uppnámi undir stýri,  jafnvel blindaður af eigin tárum er stórhættulegur sjálfum sér og öðrum.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðaslysa komu deilur, rifrildi og annað andlegt uppnám við sögu sem undanfari fjögurra af 15 banaslysum í umferðinni árið 2007.

 


Menn eru teknir af lífi segir knattspyrnudómari

Garðar Örn Hinriksson, dómari óttast um öryggi sitt og teystir sér ekki lengur til að ganga um götur miðbæjarins af ótta við að verða fyrir áreiti.

Ekki renndi mig í grun að menn gengju svo langt sem lýst er.  Ef dómari hyggst hætta, leggja flautuna á hilluna sökum ofbeldis sem hann upplifir í starfi sínu sem knattspyrnudómari, hljóta þeir sem viðhafa slíka hegðun að hafa illilega misst stjórn á sjálfum sér í hita leiksins.
Slíkur er æsingurinn, orðbragð og dónaleg framkoma að talað er  um að "menn séu teknir af lífi".

Enginn, hvorki dómari né nokkur annar á að þurfa að sætta sig við slíka framkomu í sinn garð. Vissulega þarf að veita ákveðið svigrúm til að fólk geti tjáð óánægju, pirring og mótmæli sín sérstaklega þar sem tilfinningarlegar upplifanir og álitamál eru upp á borðum. Vettvangur þar sem menn tjá sig oft af hörku, deila, þrasa og takast á bæði um menn og málefni er víða. Það eru t.d. dómsalir, íþróttavellir þar sem keppni fer fram, Alþingi og hjá Ríkissáttasemjara svo fá dæmi séu nefnd.

En leyfir fólk sér að kasta skít, hóta og úthúða hver öðrum þannig að sá sem fyrir því verður finnur til ótta um eigið líf í slíkum mæli að hann finnst hann ekki geta farið ferða sinna óhultur? Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir hversu langt menn leyfa sér að ganga í að ausa hvern annan aur og hóta?
´
Á þetta kannski bara við um knattspyrnudómara?  Ég hef ekki heyrt alþingismenn, héraðs,- eða Hæstaréttardómara kvarta yfir því að þurfa að óttast um öryggi sitt.

Ég fagna því að Garðar skuli ræða þetta svo opinskátt sem hann gerir. Mér finnst að við eigum að styðja við bakið á honum og öllum öðrum sem þola ofbeldi af hvaða tagi sem er, hvort sem í starfi eða einkalífi. Að finnast hann þurfa að flýja starf sitt og að hann óttist um öryggi sitt á götum Reykjavíkur vegna neikvæðrar framkomu, áreitis eða hótana er óásættanlegt og eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við að viðgangist í okkar samfélagi.


Margrét og Ómar koma e.t.v. aftur í spjall eftir Verslunarmannahelgi til að fara yfir hvernig helgin gekk fyrir sig

Súr sætar hliðar útihátíða

Er aldurstakmark inn á tjaldstæðið á Akureyri um Verslunarmannahelgina?

Margrét Blöndal framkvæmdarstjóri Verslunarmannahelgarinnar á Akureyri gefur tóninn um hvernig málum verður háttað hjá þeim á Akureyri um Verslunarmannahelgina í þættinum
Í nærveru sálar á ÍNN

Ómar Bragi Stefánsson starfsmaður UMFÍ lýsir útihátíðum á þeirra vegum en um næstu Verslunarmannahelgi verður landsmótið haldið í Þorlákshöfn.

Við ræðum málefni útihátíða, hvað hefur gengið vel, hvað betur mætti fara og hvernig mun undirbúningnum verða háttað í ár.

Útihátíðir um Verslunarmannahelgina


Það sem kostar lítið eða ekki neitt

Nú þegar harðnar á dalnum og hart er í ári þarf þjóðin öll að draga saman segl sín og sníða sér stakk eftir vexti.
Í sumarfríinu og allt árið um kring ef því er að skipta, er hægt að gera ótal marga skemmtilega hluti sem kosta lítið eða ekki neitt.
Ekkert kostar að draga andann sem betur fer en án hans gerir maður hvort eð er ekki mikið.

Ókeypis er að:
-fara út að ganga, hlaupa, hjóla (flestir eiga hjól nú til dags, einnig hægt að fá lánað)
-tala, tala saman, hlægja, segja brandara
-fara í lautarferð (taka með sér nesti sem kostar jú eitthvað).

Lítið kostar að:
-fara í sund, taka sér ferð með strætó, fá bók að láni á bókasafni
-að rækta grænmeti (gefið að fólk hafi til umráða smá skika)

Eflaust er mikið meira sem týna mætti til þannig að það er full ástæða til að vera bjartsýnn þrátt fyrir slæma tíð.

Víðfeðm velmegun að baki,
vesaldar vænta má.
Óttinn slíkur að tárum taki.
Skuldugir biðja um að fá,
sambærilegu að sá
og fólk sem græddi á fingri og tá
(KB)


Að ráða til sín iðnaðarmenn. Reynslusögur

Þegar maður sjálfur er nýbúin að reyna svipaða hluti og lýst er á forsíðu og bls. 2 í DV 26. júní sl. undir fyrirsögninni Verktakar stefna Dögg finnst manni orðið knýjandi að skoðað verði gaumgæfilega eitt og annað sem lítur að iðnaðarmönnum/iðnaðarfyrirtækjum sem taka að sér verk í verktöku.

Allt of margar sögur hafa heyrst í gegnum tíðina þar sem fólk lýsir neikvæðum viðskiptum og samskiptum sínum við iðnaðarmenn. Ef til vill eru fáir sem eru að eyðileggja mikið fyrir stéttinni allri.

Mín reynsla:
Eftir að hafa greitt hálfa milljón fyrir skoðun/rannsókn á vandamáli húss, var afhent svokölluð ástandsskýrsla upp á ca. 5 línur, loðin og ruglingsleg, og þó ekki fyrr en Meistarafélag Iðnaðarmanna í Hafnarfirði hafði hlutast til um málið, að minni beiðni, en hjá því félagi var umrætt Húsaklæðningarfyrirtæki aðili að.

Útilokað reyndist að fá sundurliðað verktilboð frá umræddu fyrirtæki þar sem fram komu dagssetningar um hvenær verk skyldi hefjast, sundurliðun verks, hvenær áætlað væri að verkinu myndi ljúka og hvers væri að vænta tækist iðnaðarfyrirtækinu ekki að halda þeirri áætlun sem skráð væri í verktilboðinu. Engu breytti þótt það hafði verið bókað á fundinum hjá Meistarafélaginu að gríðarlega mikilvægt væri að verkkaupi fengi slíkt plagg í hendurnar og  að brýnt væri að það yrði sem ítarlegast.

Forstjóri verktakafyrirtækisins og verkfræðingur á hans vegum sögðust skyldu skila slíkum pappír inn og bókað var á fundinum að fullburða verktilboð myndi berast verkkaupa innan viku. Það kom hins vegar aldrei.
Nú er setið uppi með ónýta ástandsskýrslu og hefja þarf leikinn að nýju. Hálf milljón og rúmlega það var sem sagt greidd fyrir ekki neitt.

Hverju sætir það að svo erfitt virðist vera að fá sundurliðað, skriflegt verktilboð hjá a.m.k. sumum iðnaðarverktökum?
Vilja þeir hafa aðgang að opinni peningahít hjá verkkaupa?

Ég vil forðast að yfirfæra aðferðafræði e.t.v. fárra iðnaðarfyrirtækja yfir á heildina. 
En vá, hvað maður er brunnin eftir svona reynslu.

Ég hvet Neytendasamtökin, Neytendastofu og alla þá sem ætlað er að gæta hagsmuna neytenda að skoða þessi mál ofan í kjölinn. Útköll iðnaðarmanna og verðlagning þeirra er eitt af því sem vel mætti t.d. fara ofan í saumana á og margt, margt fleira í þessu sambandi.


Útihátíðir. Margrét Blöndal, framkvæmdarstjóri Verslunarmannahelgarinnar á Akureyri og Ómar Bragi UMFÍ á ÍNN

Margrét Blöndal, nýráðin framkvæmdarstjóri hátíðarhalda Verslunarmannahelgarinnar á Akureyri og Ómar Bragi Stefánsson starfsmaður Ungmennafélags Íslands eru viðmælendur í þættinum
Í Nærveru Sálar

Þátturinn er á dagskrá 26. júní á ÍNN
Umræðuefni:
ÚTIHÁTÍÐIR /VERSLUNARMANNAHELGIN 
Súr-sætar hliðar útihátíða.

Við skoðum málið út frá sjónarhorni:

- unglinganna (allir vinir mínir mega fara, ég vil líka fara?).

- foreldranna (ég treysti barninu mínu, en treysti ég aðstæðum?).

- gestgjafanna (verður mikil ölvun, ofbeldi og svæðið skilið  eftir í rúst?).


Aldurstakmök, hvernig verður þeim málum háttað í sumar t.d. á tjaldstæðinu á Akureyri?

 


Stjarnfræðilega dýrt að planta trjám í Reykjavík

Ef rétt reynist það sem fram kemur í DV í dag er borgin að greiða Skógræktarfélagi Reykjavíkur 60 milljónir fyrir gróðursetningu 460 þúsund trjáa á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta er allt of dýrt, hugsanlega fimm sinnum dýrara en það þyrfti að vera.

Ef um er að ræða bakkaplöntur má áætla að þetta sé eitthvað um 2 ársverk. Fyrir það er borgin að greiða 60 milljónir/30 milljónir ársverkið!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband