Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Hvar er nú best að geyma sparnaðinn?

Dagurinn í dag var engum líkur og mun eflaust verða í minnum hafður.

Á Hrafnaþingi milli 8 og 10 í kvöld á ÍNN voru atburðir dagsins ræddir. Gestir úr fjármálaheiminum mættu til Ingva Hrafns og voru m.a. spurðir hvar fólk ætti nú helst að geyma sparnaðinn sinn þ.e. sé eitthvað enn eftir af honum.

Einhver nefndi við mig í dag að kannski væri bara best að sækja krónurnar og stinga þeim til geymslu í skóskápinn sinn. 

Vonandi er þetta nú ekki alveg svo slæmt.  Þó er líklegast rétt að yfirgefa alla áhættu og leita í öruggari sjóð. Hægt er að kaupa ríkisbréf bæði óverðtryggð og verðtryggð. Það þykir nokkuð öruggur geymslustaður fyrir fé næstu misserin.

Þeir sem enn eiga eitthvað eftir í hlutabréfum velta því fyrir sér hvort þeir eigi að selja það sem eftir er áður en allt er horfið eða bíða aðeins og sjá hvort ástandið á mörkuðum skáni eitthvað smá.
Fáir þora að ráðleggja nokkuð í þessum efnum, ekki einu sinni færustu fjármálaspekúlantar. Blush

 

 


Sjósund er shockmeðferð

Það nýjasta nýtt er að skella sér í sjósund.  Hópur fólks stundar það nú að fara í ískaldan sjóinn og synda. Viðbrögð líkamans við skyndilegum kulda hlýtur að vera shock?

Er þetta heilsusamlegt?
Já, kannski fyrir þá sem eru stálhraustir.
En hvað með þá sem hafa einhverja heilsufarslega veikleika t.d. veikt hjarta eða aðra sjúkdóma?
Þeirri spurningu verða aðrir en ég að svara.

Líkamshitinn er venjulega um 37 gráður en sjórinn t.d. í Nauthólsvík hlýtur að vera 10 gráður eða kaldari.  Þegar hann er kaldastur fer hann jafnvel niður í (og niður fyrir) frostmark. Ég veit svo sem ekki hvort sjóbaðsunnendur stunda sjósund um hávetur þegar sjórinn er svo kaldur.

Við það að skella sér til sunds í svo köldum sjó má gera ráð fyrir að heilinn taki viðbragð og sendi út skilaboð um að varðveita skuli líkamshitann eins og hægt er. Húðin lokast, vöðvar dragast saman og einhvers konar shockástand myndast.  Halda þarf brjóstinu heitu umfram allt sem og öðrum mikilvægum líffærum. 

Sjósund kann að hafa sína kosti. Kannski styrkir svona shockmeðferð líkamann, gefið að hann sé heilbrigður. Með styrkingunni eykst þol og þá stenst líkaminn jafnvel enn betur áreiti og álag (sjúkdóma og streitu)?

Vitað er, að það er flestum hollt að reyna eitthvað á sig, púla og svitna.  Rannsóknir hafa sýnt að það er gott fyrir líkamskerfið að koma púlsinum upp og leyfa allri vélinni að vinna.
Að henda sér til sunds í ískaldan sjó kann að gera sama gagn?

Sálrænu áhrifin við sjósund er ekki erfitt að skilja. Að synda í hinu víðáttumikla hafi, öldurótinu og briminu er án efa magnað. Upplifunin leysir úr læðingi orku og afl og eins og einhver sagði, tíminn annað hvort stöðvast að er einfaldlega ekki til.
Hvað sem þessum vangaveltum líður, óska ég sjósundfólki góðrar skemmtunar í sjónum. 

 


Þegar barn eignast barn

Þegar unglingstúlka eignast barn er ekki skrýtið að hún velti því fyrir sér hvort hún sé með forræðið þar sem hún er ekki einu sinni með forræðið yfir sjálfri sér.

Unglingsstúlka sem uppgötvar það að hún eigi von á barni er í erfiðum sporum.  Hún er ekki fullveðja og því algerlega háð forráðamönnum sínum sem bera á henni ábyrgð til 18 ára aldurs. Þann stuðning sem hún þarfnast til að eignast og ala upp barn þarf hún að sækja til sinna nánustu.

Þá er spurningin hvort hennar nánustu séu í stakk búnir til að veita henni slíkan stuðning. Það er ekki sjálfgefið að allar fjölskyldur sem finna sig í þessum sporum hafi burði til að hjálpa barninu sínu enda um að ræða mikinn stuðning til langs tíma. Ástæða þess að fjölskyldur eiga e.t.v. erfitt með að taka á sig þetta hlutverk geta verið af ýmsum toga og margþættar.

 


Smá slys, saltaði pönnkökurnar í stað þess að sykra.

Það voru einhver áhöld um það hvort það var ég eða móðir mín sem ætti 84 ára afmæli í dag þegar í ljós kom að ég hafði saltað pönnukökurnar í stað þess að sykra þær.

Í tilefni afmælisdags hennar bauð ég sem sagt upp á saltaðar, upprúllaðar pönnukökur. Shocking

Þetta er víst ekki fyrsti skandallinn í eldhúsinu sem ég verð uppvís að. Enn er í minnum haft þegar ég, fyrir 27 árum bakaði svona ægilega fínar hálfmánakökur með málshætti inn í.  Í lok kaffiboðsins mundi ég allt í einu eftir að ég hafði gleymt að segja fólkinu að vara sig á að borða ekki málsháttinn.

Það var um seinan, gestirnir höfðu bara gleypt pappírinn með kökunni.

Meiri græðgin í þessu fólki. Halo
Mér voru alla vega ekki vandaðar kveðjurnar þann daginn og hef ekki bakað hálfmánakökur síðan.

Krafin um að borga meðlagsskuld foreldris eftir andlát þess

.Það virkar sérkennilegt að lenda í þeirri stöðu að verða að greiða meðlagsskuld foreldris síns vegna sjálfs síns eftir að það foreldri er fallið frá.
Sú staða gæti auðveldlega komið upp að einstaklingur verði krafinn um að greiða meðlagsskuld foreldris eftir andlát þess foreldris.
Innheimtustofnun Sveitarfélaga vill eðli málsins samkvæmt fá skuldina greidda hvort sem skuldarinn er lífs eða liðinn. 

Tilbúið dæmi sem þó gæti verið raunverulegt:

Pabbi (mamma) greiddi ekki meðlag með mér í mörg ár. Við andlátið sat eftir útistandandi meðlagsskuld ásamt uppsöfnuðum dráttavöxtum hjá Innheimtustofnun Sveitarfélaga. Innheimtustofnunin gerði kröfu í dánarbúið og niðurstaðan varð sú að ég varð að greiða skuldina.

Hér sést að afkomandinn sem meðlagið snerist um verður greiðandi. Sé engin innistæða í dánarbúinu fyrir meðlagsskuldinni getur afkomandinn beðið um opinber skipti og er þá laus allra mála. Séu einhverjar eignir í búinu gerir Innheimtustofnun sveitarfélaga kröfu í búið um að þær verði teknar upp í meðlagsskuldina. Sá hluti eignarinnar gengur þar að leiðandi ekki til erfingjans. Erfinginn er barnið sem þetta sama foreldrið greiddi ekki meðlagið með þegar það var undir 18 ára aldri.

Eftir að hafa velt þessu fyrir sér spyr maður sig hvort skynsamlegt sé að forðast Innheimtustofnun Sveitarfélaga sem millilið, þegar meðlag er annars vegar.
Ef skuldin hrannast upp vegna vanskila foreldris kemur hún bara í hausinn á barninu, sem þá er orðinn fullorðinn einstaklingur, þegar skuldarinn (foreldrið) fellur frá.

Mænan ráðgáta þegar kemur að mænuskaða

Í dag hefst söfnunarátak á Stöð 2 til styrktar Mænuskaðastofnun Íslands. Hún er stofnuð af mæðgunum Auði Guðjónsdóttur og Hrafnhildi G. Thoroddsen en Hrafnhildur hlaut mænuskaða þegar hún slasaðist í bílslysi fyrir mörgum árum.

Mænan er það líffæri sem leiðir flest taugaboð líkamans.  Hún hefur verið rannsökuð talsvert en þegar kemur að mænuskaða er hún ráðgáta.

Hérlendis búa um 100 manns við mænuskaða og tæplega 50% er tilkominn af völdum umferðarslysa.
Mæðgurnar Auður og Hrafnhildur hafa barist fyrir málefnum mænuskaðaðra af ólýsanlegri þrautseigju og elju.

Leggjum þessu málefni lið, það er í þágu okkar allra.


Magnús Þór skorar á Sigurð Kára að vera næstur á bekkinn

Þátttöku í skoðanakönnun um val á nafni þáttarins er lokið. Mikill meirihluti var á því að þátturinn ætti að heita það sem hann var skírður í upphafi eða
Í nærveru sálar.

Á mánudaginn næstkomandi verður sendur út þátturinn með Magnúsi Þór Hafsteinssyni.
Í viðtalinu leyfir hann okkur að kynnast sér nánar með því að veita innsýn í hugarheim sinn, sálarlíf og daglega tilveru.
Hverjir styrkleikar, veikleikar, stóráföll, mistök og stórsigrar Magnúsar eru, kemur í ljós á mánudaginn.

Í lok þáttarins skoraði Magnús á Sigurð Kára Kristjánsson að koma næstur á bekkinn.


Magnús Þór Hafsteinsson á bekknum í settinu hjá ÍNN

Magnús Þór Hafsteinsson ætlar að koma til mín í dag í viðtal í þættinum Í Nærveru sálar sem við köllum líka stundum einfaldlega Sálartetrið.  Í þættinum pælum við í sál, fjöllum sem sagt um innri mál og atferli.

En eins og sést hér til hliðar í skoðanakönnuninni eru vangaveltur um nafnið á þættinum. Af þeim niðurstöðum sem komnar eru virðist sem Í nærveru sálar sé  vinsælast. Ég þakka þeim sem þegar hafa gefið sér tíma til að taka þátt í könnuninni. 

ÍNN er hægt að ná núna víðast hvar og er rás 20.

Í viðtalinu ætlar Magnús að leyfa okkur að skyggnast inn í hugarheim sinn, sálarlífið og daglega tilveru. Hann deilir með okkur lífsskoðunum sínum og gildismati. 

Hverjir eru styrkleikar hans, veikleikar, helstu mistök og stærstu sigrar?
Hvernig skyldi Magnús Þór höndla mótlæti og hvað hefði hann viljað gera öðruvísi?
Hvernig sýnir hann gleði, reiði og vonbrigði?
Hver eru markmið hans og hver er stóri draumurinn?

Við fáum vonandi í þessu viðtali tækifæri til að kynnast Magnúsi sem persónu. Eins og margir vita þá þekkjum oft ekki stjórnmálamennina okkar vel sem persónur og þess vegna verður gaman að fá tækifæri til að kynnast Magnúsi nánar.

Magnús mun síðan hugsanlega í lok þáttarins skora á einhvern annan stjórnmálamann að vera næstur á bekkinn.

 





Breiðhyltingar bregða á leik

Breiðholtshátíðin sem er menningar- og fjölskylduhátíð Breiðholts hefst í dag mánudaginn 15. september með metnaðarfullri dagskrá víðs vegar í Breiðholtinu. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands heiðrar Breiðhyltinga með nærveru sinni fyrsta dag hátíðarinnar.
Forsetinn setur hátíðina með formlegum hætti á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ, Félagsmiðstöðinni Árskógum 4 kl. 14:00. Við setninguna verður opnuð málverkasýning heyrnarlausra myndlistarmanna. Sögurútan fer um hverfið kl. 17:00.

Hátíðin nær hápunkti sínum á hátíðarsamkomu sem haldin verður í Íþróttahúsinu Austurbergi á sjálfan Breiðholtsdaginn 20. september þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri mun ávarpa samkomuna og afhenda heiðursviðurkenningarskjöl.

Breiðholtið hefur á að skipa gríðarlega margbrotnu mannlífi. Margbreytileikinn sést m.a. á því hversu margar fjölskyldur af ólíkum uppruna búa í Breiðholti.  Kjarni hátíðarinnar er að íbúar hverfisins fái tækifæri til að kynnast nágrönnum sínum og að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í Breiðholti eigi þess kost að kynna íbúum starfssemi sína. Boðið verður upp á fjölbreytta viðburði fyrir öll aldurskeið. Lögð er áhersla á að sem flestir taki þátt og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Breiðhyltingar bjóða Alþjóðahús velkomið í hverfið sem opnar með viðhöfn þriðjudaginn 16. september kl. 17. Með tilkomu Alþjóðahúss í Breiðholtið skapast tækifæri til að auka enn frekar fjölmenningarleg samskipti í Breiðholti. Fyrr um daginn verður opnuð sýning á myndum ljósmyndasamkeppni sem haldin var í Breiðholti í sumar. Myndefnið var mannlíf og umhverfi í Breiðholti.

Leikskólabörn munu heimsækja Árbæjarsafn og eldri borgarar í Breiðholti fara í vinabæjarheimsókn til eldri borgara í Reykjanesbæ. Í göngugötunni í Mjódd verður haldin kynning á Námsflokkunum og einnig verður kökubasar og kynning á Kvenfélaginu Fjallkonunum í Hólagarði.

Í Breiðholti er fjölskyldan í fyrirrúmi. Málþing um málefni fjölskyldunnar verður haldið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi á fimmtudeginum eftir hádegi. Fulltrúar frá öllum helstu stofnunum sem koma að málefnum fjölskyldunnar munu halda fyrirlestra.

Eldri borgarar og grunnskólabörn eru með ýmis dans,- og söngatriði á takteinum að ónefndu pottakaffi í Breiðholtslaug alla morgna vikunnar. Foreldrar í Breiðholti munu treysta böndin á foreldramorgni í Breiðholtskirkju á föstudeginum og ekki má gleyma að minna á prjónakaffið með góðum gesti hjá Félagsstarfi Gerðubergs einnig á föstudeginum.   

Skipulagðar göngur eru fyrirhugaðar; Seljaganga með Guðrúnu Jónsdóttur, arkitekt og bókmenntaganga Borgarbókasafnsins. Kaffihúsið í Miðbergi býður göngugörpum í kaffi að lokinni göngu.

Kórar, söng,- og danshópar láta til sín taka í hátíðarvikunni. Vinabandið lætur sig ekki vanta og mun m.a. spila og syngja í Fríðuhúsi.

Á hátíðarsamkomunni munu unglingar úr Breiðholtsskóla sýna atriði úr Grease og ÍR danshópurinn taka sporið.Fjölmargar samveru,- og kyrrðarstundir sem og guðþjónustur og fyrirbænastundir verða haldnar í kirkjum Breiðholts þessa viku. Samkomuhald verður t.d. í Seljaskóla í umsjón barnastarfs Miðbergs. Messa verður í Maríukirkjunni við Raufarsel alla virka daga og ensk messa verður haldin í Maríukirkjunni á laugardeginum.

Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) mun ekki láta sitt eftir liggja. Á laugardeginum munu deildir ÍR kynna starfsemi sína. Hoppukastali verður á staðnum, boðið verður til grillveislu og unglingaráð knattspyrnudeildarinnar blæs til uppskerufagnaðar svo fátt eitt sé nefnt.

Hér er einungis birt brot af þeirri viðamiklu dagskrá sem sett hefur verið saman í tilefni Breiðholtsdaga 2008. Breiðhyltingar eru hvattir til að fjölmenna á sem flesta viðburði og samverustundir sem haldnar eru víðs vegar í Breiðholti þessa viku.  Samhugur og samvera íbúanna er merki um hversu stoltir Breiðhyltingar eru af hverfinu sínu og hversu umhugað þeim er að gæða í það enn fjölbreyttara lífi og hlúa að ímynd þess og íbúum.

Bregðum á leik í Breiðholti vikuna 15-20 september 2008.

 

 


Aukin áhersla á góðu gildin er kjarni hugmyndafræði Jákvæðrar sálfræði.

Jákvæð sálfræði er nú að ryðja sér til rúms á Íslandi.  Þetta er ekki ný hugmyndafræði heldur hefur þessi nálgun lifað með manneskjunni í gegnum ár og aldir.

Núna, hins vegar, er hugmyndafræðin orðin viðurkennd, a.m.k. viðurkenndari. Hamingjubækurnar sem streymdu inn á markaðinn á sjötta og áttunda áratugnum þurfa ekki lengur að vera ofan í náttborðsskúffunni heldu mega liggja ofan á náttborðinu. Oft voru þessar bækur best-sellers þrátt fyrir að fagaðilar væru ekkert að setja á þær fagstimpilinn, en meira um þetta á vef Lýðheilsustöðvar í tengslum við málþing um Jákvæð sálfræði.

Staðreyndin er að með því að skerpa á þeim þáttum sem skapa vellíðan í lífi okkar er hægt að draga úr og milda vanlíðan af ýmsum toga.  Ferlið á sér stað í okkar eigin huga og gott er að geta orðað þessa hluti við einhvern sem maður treystir hvort heldur einhvern í fjölskyldunni, vini eða fagaðila. 

Meginmarkmiðið að draga fram á sjónarsviðið styrkleika viðkomandi, (allir hafa einhverja þótt þeim finnist þeir kannski ekki blasa við) og síðan að virkja þessa styrkleika enn frekar.  Vægið flyst frá áherslunni á veikleikana/vandamálunum yfir til jákvæðu þáttanna í lífi manneskjunnar. Með því að skýra og draga fram í dagsljósið það sem er í gott og það sem gengur vel, upplifir viðkomandi jákvæðu þættina áhrifameiri í lífi sínu og er líklegri til að hugsa meira um þá og jafnvel virkja þá enn meira.

Allt of lengi hefur megináhersla sálfræðinnar verið á vandamálin, oft verið nefnt tímabil sjúkdómavæðingar.  Innihald greiningar og meðferðar hefur jafnvel einskorðast við VANDAMÁLIÐ, orsakir þess og vissulega lausnir.  Vandinn hefur verið upphafspunkturinn í stað þess að hefja vinnuna á því að skoða styrkleikana og byggja síðan framhaldið á þeim.

Þetta þýðir ekki að allur vandi, vanlíðan og sjúkdómar hverfi bara si svona með upptöku Jákvæðrar sálfræðinálgunar. Það sem gerist mikið frekar er að hugsunin kanna að taka breytingum, hugsanir verða jákvæðari sem leiðir til betri líðan sem síðan hvetur til jákvæðra atferlis.  Þetta ferli er síðan líklegra til að framkalla jákvæðari viðbrögð frá umhverfinu. Af stað fer jákvæður hringur sem leysir e.t.v. vítahringinn af hólmi.

Eins mikið eins og líðan okkar getur verið  í okkar höndum er um að gera að freista þess að hafa á þetta áhrif. Þó má varast að vera ekki með of mikla einföldun í þessu fremur en öðru er snýr að mannlegu eðli. Sumir eru einfaldlega það mikið veikir að þeim finnst erfitt að sjá eitthvað jákvætt í lífi sínu. Fólk sem t.d. er með mikla verki og kennir til meira og minna allan sólarhringinn finnst eðlilega erfitt að upplifa einhverja jákvæðni. Það er ekki erfitt að skilja.

En endilega prófa að renna yfir þennan tékklista og svara honum með sjálfum okkur til að sjá hversu langt við komumst:

Hvað er það sem ég er ánægð(ur) með?
Hvað er það sem ég kann vel við í fari mínu?
Hvert af mínu atferli/hegðun er ég sátt(ur) við?
Hvað er það sem ég kann vel við og þykir vænt um í fari fjölskyldu minnar?
Hvað er það sem gengur vel hjá mér (í starfi og á heimilinu)?


Og aðeins meiri fókus:
Hvar og hvernig vil ég vera eftir fimm ár?
Hver eru mín markmið: skammtíma,- og langtímamarkmið?
Hvað er ég að gera núna sem leiðir mig að þessum markmiðum?



Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband