Ólík sjónarmið álitsgjafa Kastljóss í gærkvöldi

Það voru sannarlega ólík sjónarmið álitsgjafa Kastljóss í gærkvöldi en þeir voru spurðir um skoðanir og viðhorf sín er varðar eitt og annað sem lýtur að efnahagsviðburðum ársins.

Sitt sýnist hverjum þegar kemur að því að benda á eins og helstu ummæli ársins, helsta hneykslið og annað  sem þessum aðilum fannst standa upp úr.

Ómar Valdimarsson fannst mér vera sá sem virtist vera nálægt raunveruleikanum, alla vega eins og ég sé hann og sama má segja um fleiri sem spurðir voru.  Ég var reyndar ekki sátt við það sem einn álitsgjafinn sagði um Dorrit forsetafrú.

Þeir sem vilja gera svokallaða útrásarvíkinga að helstu ábyrgðarmönnum alls þessa stóra vandamáls tel ég að séu ekki alveg að sjá heildarmyndina. En það er vissulega bara mín skoðun.

Álitsgjafarnir sem töluðu um viðvörunarbjöllurnar sem löngu voru farnar að hringja og spurðu af hverju ekki var brugðist við, fannst mér vera með fingurinn á púlsinum.

Mikið vildi maður að hlustað hefði verið á þessar bjöllur og á þeim tekið fullt mark.
En svo er alltaf hægt að segja svona eftir á og spurningin er hvort aðrir stjórnmálamenn/stjórnmálaflokkar hefðu verið frekar vakandi?

Það mun náttúrulega aldrei fást staðfest.


Vill Sigmundur Davíð í formannsslaginn?

mynd
Af hverju finnst mér eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sé ekki heill í þessari ákvörðun sinni með að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins?
Nógu margir eru svo sem um hitunina.
 
Hann hefur nú loks tilkynnt þessa ákvörðun sína og ætlar að taka slaginn.
 
Annað hvort hefur hann viljað láta ganga á eftir sér eða að hann hefur einfaldlega ekki verið viss um að hann vildi þetta.
 
Þetta með að vera að íhuga og íhuga virkar fremur neikvætt (alla vega á mig). Annað hvort vill hann þetta eða ekki.
 
Sumir í þessum kringumstæðum segja síðan...
það hafa margir skorað á mig....osfrv og þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér.
 
En hvað vitum við um hvort margir hafa skorað á hann eða einhvern annan sem þetta fullyrðir, ef því er að skipta?
 
Annars er Sigmundur Davíð hinn efnilegasti frambjóðandi, það er ekki málið. Og sjálfsagt hefur hann verið framsóknarmaður í húð og hár alla tíð enda sonur Gunnlaugs Sigmundssonar, fyrrverandi þingmanns Framsóknarflokksins.

 


Leið mistök í bókinni um Sigurbjörn biskup

sigurb20081116020741980.jpgÞað hafa orðið mistök á bls. 346 í bókinni um Sigurbjörn biskup en þar er sálmur 391 sagður vera eftir Sigurbjörn Einarsson en hið rétta er að hann er eftir afa minn Sigurð Einarsson.

Sálmur 391
Það húmar, nóttin hljóð og köld
í hjarta þínu tekur völd,
þar fölnar allt við frostið kalt,
- en mest er miskunn Guðs.

Er frostið býður faðminn sinn,
þér finnst þú stundum, vinur minn,
sem veikur reyr, er megni' ei meir,
- en mest er miskunn Guðs.

En vit þú það, sem þreyttur er,
og þú, sem djúpur harmur sker,
þótt hrynji tár og svíði sár,
að mest er miskunn Guðs.

Og syng þú hverja sorgarstund
þann söng um ást, þótt blæði und,
og allt sé misst, þá áttu Krist.
Því mest er miskunn Guðs.


Hin ljúfa hlið Kristins H. á ÍNN í kvöld kl. 9

krisitnnmbl0054134.jpgPersóna Kristins H. Gunnarssonar kortlögð í kvöld kl. 9 á ÍNN
Í nærveru sálar.

Kristinn sýnir ljúfa og einlæga hlið.
Eitt og annað úr stjórnmálaferlinum er dregið fram til að varpa enn skýrara ljósi á manngerð hans.

Hver verður sá sem hann leggur síðan til að verði næsti gestur?
Leitar hann langt um skammt?


Fréttablaðið hefur staðið vaktina. Íslenska krónan - in memoriam, grein sem er þess virði að lesa

Fréttablaðið hefur staðið vaktina síðustu tvo daga.  Í blaðinu í dag er grein eftir Benedikt Jóhannesson, framkvæmdarstjóra ráðgjafarfyrirtækisins Talnakönnunar og Útgáfufélagsins Heims.
Greinin ber heitið Íslenska krónan - in memoriam.

Eins og menn vita eflaust þá er Benedikt tengdur Sjálfstæðisflokknum og hefur verið lengi.
En fyrst og fremst er hann hugsandi maður sem auk þess, vegna sérfræðiþekkingar sinnar á þessu sviði, er vert að hlusta á.
Hér er um að ræða minningargrein um krónuna þar sem viðfangsefnið er enn á líknardeild eins og Benedikt orðar það sjálfur.


Ár Óvissunnar rennur brátt upp

Maður heyrir gjarnan þessa dagana fólk ræða um hvað framundan kann að vera og hvað næsta ár beri í skauti sér.

Í umræðu af þessum toga má heyra að í hugum fólks er framundan mikil óvissa.

Dæmi um spurningar sem heyrast eru:
Hvernig verður þetta allt? Ætli þetta verði mjög erfitt?  Munu mörg fyrirtæki verða gjaldþrota? Mun atvinnuleysi aukast? Heldur ríkisstjórnin velli? Verður ákveðið að fara í ESB aðildarviðræður? Hvernig mun krónunni reiða af?

Þetta er aðeins brotabrot af þeim vangaveltum og spurningum sem bærast meðal manna nú þegar stutt er þangað til árið 2009 gengur i garð.  Svo mikil óvissa ríkir um svo margt og á svo mörgum sviðum að maður man ekki annað eins.

Það hlýtur þó að vera eitthvað sem hægt er að vera viss um,  kannski ekki alveg fullviss um en samt nokkuð viss.


Gleðileg jól bloggarar og aðrir innlitsgestir.

jolmbl0045346.jpgÉg vil óska ykkur öllum nær og fjær gleðilegra jóla.
Ég óska þess jafnframt að þið eigið framundan rólega og ánægjulega jóladaga með ykkar nánustu svo þið getið hvílst og safnað þreki til að takast á við öll þau mörgu verkefni sem kunna að bíða ykkar á komandi ári.

Með jólakveðju,
Kolbrún Baldursdóttir


Birna skammar Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Mogganum í dag

Í Morgunblaðinu í dag lætur Birna Þórðardóttir vaða og ljóst er af efni greinar hennar
Af oflæti Morgunblaðspistlahöfundar að ákveðin pistlaskrif Kolbrúnar Bergþórsdóttur hafa farið fyrir brjóstið á henni. Birnu finnst Kolbrún skrifa af hroka um mótmælendur og mótmælin.

Ég hef stundum lesið pistla nöfnu minnar en las ekki þennan sem hér um ræðir.
Pistlar blaðamanna eru afar misjafnir og sýnist sjálfsagt sitt hverjum um efnisval og efnistök hverju sinni.

Fastráðnir pistlahöfundar fá laun fyrir að skrifa um skoðanir sínar og viðhorf á ýmsum málum.  Ef þeir koma engu á blað fá þeir ekki greitt.
Skyldi hvatinn sem liggur að baki skrifunum ekki skipta einhverju máli?

Ég er hins vegar sammála Birnu í þessari grein hennar í Mogganum í dag þar sem hún segir að góður blaðamaður á að kynna sér mál enda hlýtur það að vera meginhlutverk blaðamannsins, að kynna sér mál frá ólíkum sjónarhornum og koma upplýsingunum á sem óbrenglaðastan hátt til lesenda.

 

 


Jólasiðir Ásatrúarmanna og tónsmíðin á ÍNN í kvöld.

hilmar.jpgHilmar Örn er gestur Í nærveru sálar í kvöld á ÍNN.
Hilmar er alsherjargoði og tónskáld.

Ásatrúarfélagið hefur verið við lýði í ein 35 ár hér á landi og hefur það að markmiði að hefja til vegs forna siði og menningarverðmæti.

Hilmar segir frá jólasiðum Ásatrúarmanna, fjölskyldu sinni, áhugamálum og tónsmíðinni.


Börnin sem kvíða jólunum, prófum að setja okkur í þeirra spor

Margir fullorðnir muna vel eftir þeirri notalegu tilfinningu þegar þeir voru börn að hlakka til jólana.

Ákveðinn hópur barna hlakkar hins vegar ekki til jólanna heldur kvíðir þeim.  Jólin eru samt sem áður fyrst og fremst þeirra hátíð. 

Þau sem kvíða jólunum  eru börn þeirra foreldra sem eiga við alvarleg vandamál að stríða.

Vandamálin geta verið af ýmsum toga og langar mig sérstaklega að tala hér um börn foreldra sem hafa litla eða enga stjórn á áfengisneyslu sinni.

Um jól drekka þeir foreldrar sem hafa misst tök á drykkju sinni jafnvel meira en ella þar sem ýmsar uppákomur tengdar áfengi eru tíðari.

Sjúkdómurinn alkóhólismi í sinni verstu mynd spyr ekki hvaða dagur er, hvort það eru jól eða páskar.  

Ástand foreldris sem á við drykkjuvanda að stríða og aðstæður sem það skapar veldur því að dýrðarljómi hátíðarinnar fær á sig gráan blæ og tilhlökkunin verður kvíðablandin.

Börnin sem kvíða nú jólunum vegna drykkjuvanda foreldris eru farin að hugsa um hvernig ástandið verði heima um þessi jól. Sum þeirra hafa lifað mörg jól þar sem drykkja foreldris hefur sett svartan blett á hátíðina og nú óttast þau að ástandið verði eins um þessi  jól.

Þau biðja og vona innra með sér að allt verði í lagi enda þótt reynslan hafi e.t.v. kennt þeim að varast ber að hafa nokkrar væntingar þegar áfengi er annars vegar.

Þau velta einnig vöngum yfir því hvort það sé eitthvað sem þau geti gert til að mamma eða pabbi drekki ekki ótæpilega á aðfangadagskvöld eða á öðrum dögum jólahátíðarinnar.

 


Tímabært að draga úr jólakortasendingum frá opinberum aðilum, ráðuneytum og ríkisfyrirtækjum

Á hverju ári senda opinberir aðilar sem dæmi ráðuneytin jólakort til tugi ef ekki hundruða aðila þar á meðal flokksfélaga ráherranna og fyrirtækja sem ráðuneytin hafa átt viðskipti við á árinu.

Það þarf ekki ríkt ímyndunarafl til að gera sér grein fyrir þeim óhemju kostnaði sem þessu fylgir, kostnaður sem kemur að sjálfsögðu beint úr vasa skattgreiðenda.

Vissulega fylgir þessum jólakortasendingum frá ráðamönnum hlýhugur og fallegar óskir. En nú þegar efnahagur þjóðarinnar er í molum er tilvalið að hreinlega leggja þessar jólakortasendingar af og nýta peningana sem þetta kostar í eitthvað þarflegra.

 


rettlaeti.is

Réttlæti er hreyfing fólks sem vill virkja samtakamátt sinn til að endurheimta tap sem hlaust af uppgjöri peningamarkaðssjóðs Landsbanka eftir bankahrunið í október síðastliðnum, segir á vef hreyfingarinnar.

Þetta er fjölmennur hópur sem nú hefur tekið sig saman og myndað hreyfingu. Hópurinn gerir þá kröfu að eigendur í peningamarkaðssjóðnum sitji við sama borð og aðrir sparifjáreigendur í landinu.

Fjölmargar lýsingar eru til frá fólki sem fullyrðir að bankarnir hafi ítrekað sannfært það um að fé þeirra væri öruggt á þessum reikningum.

Það reyndist alls ekki svo vera eins og nú er vitað.

 


Hinar mörgu myndir mótmæla á ÍNN 15. des. kl. 9

motmaeli22nov001.jpgHinar mörgu myndir mótmæla verður umræðuefnið
Í nærveru sálar,
mánudaginn 15. desember.
Gunnar Sigurðsson, leikstjóri og forsvarsmaður borgarafundanna verður gestur þáttarins.
Að mótmæla eru sjálfsögð réttindi í lýðræðisríki.
Þetta er ein öflugasta aðferðin fyrir þá sem upplifa sig hafa engin völd og sem raunverulega hafa engin völd til að láta óánægju sína í ljós hvort heldur með aðgerðir/ákvarðanir, aðgerðar,- og/eða andvaraleysi ráðamanna allt eftir því hvaða skoðanir og viðhorf hver og einn hefur.

Þegar margir koma saman sem finna til reiði og vonbrigða er alltaf einhver hætta á að það brjótist út ofbeldi.

Um þetta og fleira þessu tengt verður fjallað á ÍNN, mánudaginn 15. des. kl. 9.

motmaeligetfile_php.jpgMyndirnar hér á síðunni eru fengnar úr myndasafni Morgunblaðsins. 


Ofurlaunum forstjóra lífeyrissjóðanna fylgir engin persónuleg ábyrgð

Það svíður að lesa um laun lífeyrissjóðaforstjóranna og vita að enginn þeirra hefur nokkurn tíman þurft að axla persónulega ábyrgð á þeim ákvörðunum sem þeir hafa tekið á ferli sínum sem forstjórar.

Tap sjóðanna nemur tugum milljóna og sjóðirnir þurfa að skerða réttindi félaga sinna á næstu ári.

Það er auðvitað stór spurning hvort allir þeir sem þiggja slík laun ættu ekki að axla einhverja ábyrgð?

Kannski verður það eitt af þeim breytingum sem út úr þessu öllu kemur að tenging verði á milli launaupphæðar og ábyrgðar í starfi eins og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar.

En lífeyrissjóðir eru nú að lækka laun stjórnenda og stjórnarmanna sbr. fréttir dagsins.

Launin hans Þorgeirs Eyjólfssonar mættu lækka verulega og hinna lífeyrissjóðaforstjóranna líka sem allir hafa haft um og yfir 20 milljónir í árslaun.


Flatkökur úr byggi

Hér kemur uppskrift af flatkökum með byggi.

Malað bygg ca. 60 prósent
Haframjöl ca. 30 prósent
Hveiti ca. 10 prósent 
Salt

Út í þetta er hrært sjóandi vatni og öllu blandað saman, flatt út með hveiti við hönd.
Bygg er sennilega hægt að fá í öllum heilsubúðum t.d. er ein slík á Skólavörustíg.

 

 


Nýtt upphaf hjá Bjarna Harðarsyni? Á ÍNN í kvöld.

naerverusalarbjarnikolbrun_08des08.jpgFyrrverandi alþingismaðurinn, hinn hvatvísi og litríki orkubolti er mættur í stólinn.

Hvað er Bjarni að bralla þessa dagana?

Allt um það Í nærveru sálar á ÍNN mánudaginn
8. desember  kl. 9.

Ókeypis ráðgjöf vegna efnahagsástandsins

Hvöt, félag sjálfstæðiskvenna í Reykjavík stendur fyrir ókeypis ráðgjafarstofu á morgun, laugardag, að Skúlagötu 51.

Félagið hefur safnað saman fagaðilum og sérfræðingum úr sínum röðum sem eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að leiðbeina fólki vegna ástandsins sem skapast hefur. Sérfræðingar á sviði, velferðamála, almannatrygginga, skattamála, fjármála heimila og félagsmála verða á staðnum og taka á móti fólki sem vill nýta sér þessa þjónustu.

Pólskumælandi og enskumælandi einstaklingar verða á svæðinu. Aðgengi fyrir fatlaða.

Ráðgjafastofan verður opin frá kl. 10-17 að Skúlagötu 51 föstudaginn laugardaginn 6. desember og eru allir velkomnir.

Það er mikil þörf fyrir ráðgjöf sem þessa og sem dæmi er bið fram í janúar hjá Ráðgjafarstofu heimilanna.


Spilling eða hyglanir

Eitt af því góða sem gæti mögulega komið út úr þessu fjármálahruni er ef tækist að draga úr spillingu eða hyglunum eins og Bragi Kristjónsson kýs að kalla það.

Flestir eru sammála um að finna megi spillingu víða hér á landi. Í þessu sambandi má nefna allt frá óeðlilegum viðskiptaháttum stjórnenda, ráðandi hluthafa sem greiða sér of há laun og alls kyns viðskipti tengdra aðila.

Á pólitíska sviðinu má nefna fyrirgreiðslupólitík eða þegar ráðamenn ráða vini og/eða ættingja eða vini og ættingja vina sinna í valdamikil embætti.

Nú eða þegar einstaklingar geta stöðu sinnar vegna beitt áhrifum til að koma vinum/vandamönnum ofarlega á lista stjórnmálaflokkanna án þess að þeir hafi tekið þátt í því ferli sem til þess hefur verið mótað.


Orri og Alkasamfélagið á ÍNN í kvöld

alkasam159_740976.jpgÍ nærveru sálar á ÍNN  kl. 9 í kvöld.

Orri Harðarson ræðir um skoðun sína á hugmyndafræði AA samtakana.
Hann lýsir reynslu sinni af ótal áfengismeðferðum hjá SÁÁ og af hverju þær skiluðu ekki þeim árangri sem hann vænti.

Við ræðum um mikilvægi þess að hafa val.
Að samfélagið bjóði upp á fjölbreytt úrræði fyrir þá sem eiga við áfengisvandamál að stríða og vilja ná bata.

Hjá útgáfufyrirtækinu Skruddu er þetta sagt um bókina:

Haustið 1994 var Orri Harðarson staddur í sinni fyrstu áfengismeðferð hjá SÁÁ, þá handhafi Íslensku tónlistarverðlaunanna sem bjartasta vonin. Framtíðin virtist þó ekki björt og næstu þrettán árin háði Orri langa og stranga baráttu við Bakkus, þar sem ótal áfengismeðferðir og bindindistilraunir innan AA-samtakanna virtust engan endi ætla að taka.

Hinn trúlausi existensíalisti fann til vaxandi andúðar í garð meintrar mannræktarstefnu AA-samtakanna, sem reyndist við nánari skoðun vera taumlaus trúarinnræting. Í stað þess að hlýða „tillögum“ í boðhætti um að krjúpa á kné og gefast upp fyrir Guði, kaus Orri að nýta gagnrýna hugsun sína og sjálfsþekkingu til að byggja upp nýtt líf án áfengis. Alkasamfélagið er opinská og afhjúpandi frásögn af þeim samfélagskima sem blasir við íslenskum alkóhólista sem vill hætta neyslu sinni.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband