Magnús Þór skorar á Sigurð Kára að vera næstur á bekkinn
18.9.2008 | 18:25
Þátttöku í skoðanakönnun um val á nafni þáttarins er lokið. Mikill meirihluti var á því að þátturinn ætti að heita það sem hann var skírður í upphafi eða
Í nærveru sálar.
Á mánudaginn næstkomandi verður sendur út þátturinn með Magnúsi Þór Hafsteinssyni.
Í viðtalinu leyfir hann okkur að kynnast sér nánar með því að veita innsýn í hugarheim sinn, sálarlíf og daglega tilveru.
Hverjir styrkleikar, veikleikar, stóráföll, mistök og stórsigrar Magnúsar eru, kemur í ljós á mánudaginn.
Í lok þáttarins skoraði Magnús á Sigurð Kára Kristjánsson að koma næstur á bekkinn.
Magnús Þór Hafsteinsson á bekknum í settinu hjá ÍNN
17.9.2008 | 07:58
Magnús Þór Hafsteinsson ætlar að koma til mín í dag í viðtal í þættinum Í Nærveru sálar sem við köllum líka stundum einfaldlega Sálartetrið. Í þættinum pælum við í sál, fjöllum sem sagt um innri mál og atferli.
En eins og sést hér til hliðar í skoðanakönnuninni eru vangaveltur um nafnið á þættinum. Af þeim niðurstöðum sem komnar eru virðist sem Í nærveru sálar sé vinsælast. Ég þakka þeim sem þegar hafa gefið sér tíma til að taka þátt í könnuninni.
ÍNN er hægt að ná núna víðast hvar og er rás 20.
Í viðtalinu ætlar Magnús að leyfa okkur að skyggnast inn í hugarheim sinn, sálarlífið og daglega tilveru. Hann deilir með okkur lífsskoðunum sínum og gildismati.
Hverjir eru styrkleikar hans, veikleikar, helstu mistök og stærstu sigrar?
Hvernig skyldi Magnús Þór höndla mótlæti og hvað hefði hann viljað gera öðruvísi?
Hvernig sýnir hann gleði, reiði og vonbrigði?
Hver eru markmið hans og hver er stóri draumurinn?
Við fáum vonandi í þessu viðtali tækifæri til að kynnast Magnúsi sem persónu. Eins og margir vita þá þekkjum oft ekki stjórnmálamennina okkar vel sem persónur og þess vegna verður gaman að fá tækifæri til að kynnast Magnúsi nánar.
Magnús mun síðan hugsanlega í lok þáttarins skora á einhvern annan stjórnmálamann að vera næstur á bekkinn.
Breiðhyltingar bregða á leik
15.9.2008 | 08:44
Breiðholtshátíðin sem er menningar- og fjölskylduhátíð Breiðholts hefst í dag mánudaginn 15. september með metnaðarfullri dagskrá víðs vegar í Breiðholtinu. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands heiðrar Breiðhyltinga með nærveru sinni fyrsta dag hátíðarinnar.
Forsetinn setur hátíðina með formlegum hætti á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ, Félagsmiðstöðinni Árskógum 4 kl. 14:00. Við setninguna verður opnuð málverkasýning heyrnarlausra myndlistarmanna. Sögurútan fer um hverfið kl. 17:00.
Hátíðin nær hápunkti sínum á hátíðarsamkomu sem haldin verður í Íþróttahúsinu Austurbergi á sjálfan Breiðholtsdaginn 20. september þar sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri mun ávarpa samkomuna og afhenda heiðursviðurkenningarskjöl.
Breiðholtið hefur á að skipa gríðarlega margbrotnu mannlífi. Margbreytileikinn sést m.a. á því hversu margar fjölskyldur af ólíkum uppruna búa í Breiðholti. Kjarni hátíðarinnar er að íbúar hverfisins fái tækifæri til að kynnast nágrönnum sínum og að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í Breiðholti eigi þess kost að kynna íbúum starfssemi sína. Boðið verður upp á fjölbreytta viðburði fyrir öll aldurskeið. Lögð er áhersla á að sem flestir taki þátt og að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.
Breiðhyltingar bjóða Alþjóðahús velkomið í hverfið sem opnar með viðhöfn þriðjudaginn 16. september kl. 17. Með tilkomu Alþjóðahúss í Breiðholtið skapast tækifæri til að auka enn frekar fjölmenningarleg samskipti í Breiðholti. Fyrr um daginn verður opnuð sýning á myndum ljósmyndasamkeppni sem haldin var í Breiðholti í sumar. Myndefnið var mannlíf og umhverfi í Breiðholti.
Leikskólabörn munu heimsækja Árbæjarsafn og eldri borgarar í Breiðholti fara í vinabæjarheimsókn til eldri borgara í Reykjanesbæ. Í göngugötunni í Mjódd verður haldin kynning á Námsflokkunum og einnig verður kökubasar og kynning á Kvenfélaginu Fjallkonunum í Hólagarði.
Í Breiðholti er fjölskyldan í fyrirrúmi. Málþing um málefni fjölskyldunnar verður haldið í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi á fimmtudeginum eftir hádegi. Fulltrúar frá öllum helstu stofnunum sem koma að málefnum fjölskyldunnar munu halda fyrirlestra.
Eldri borgarar og grunnskólabörn eru með ýmis dans,- og söngatriði á takteinum að ónefndu pottakaffi í Breiðholtslaug alla morgna vikunnar. Foreldrar í Breiðholti munu treysta böndin á foreldramorgni í Breiðholtskirkju á föstudeginum og ekki má gleyma að minna á prjónakaffið með góðum gesti hjá Félagsstarfi Gerðubergs einnig á föstudeginum.
Skipulagðar göngur eru fyrirhugaðar; Seljaganga með Guðrúnu Jónsdóttur, arkitekt og bókmenntaganga Borgarbókasafnsins. Kaffihúsið í Miðbergi býður göngugörpum í kaffi að lokinni göngu.
Kórar, söng,- og danshópar láta til sín taka í hátíðarvikunni. Vinabandið lætur sig ekki vanta og mun m.a. spila og syngja í Fríðuhúsi.
Á hátíðarsamkomunni munu unglingar úr Breiðholtsskóla sýna atriði úr Grease og ÍR danshópurinn taka sporið.Fjölmargar samveru,- og kyrrðarstundir sem og guðþjónustur og fyrirbænastundir verða haldnar í kirkjum Breiðholts þessa viku. Samkomuhald verður t.d. í Seljaskóla í umsjón barnastarfs Miðbergs. Messa verður í Maríukirkjunni við Raufarsel alla virka daga og ensk messa verður haldin í Maríukirkjunni á laugardeginum.
Íþróttafélag Reykjavíkur (ÍR) mun ekki láta sitt eftir liggja. Á laugardeginum munu deildir ÍR kynna starfsemi sína. Hoppukastali verður á staðnum, boðið verður til grillveislu og unglingaráð knattspyrnudeildarinnar blæs til uppskerufagnaðar svo fátt eitt sé nefnt.
Hér er einungis birt brot af þeirri viðamiklu dagskrá sem sett hefur verið saman í tilefni Breiðholtsdaga 2008. Breiðhyltingar eru hvattir til að fjölmenna á sem flesta viðburði og samverustundir sem haldnar eru víðs vegar í Breiðholti þessa viku. Samhugur og samvera íbúanna er merki um hversu stoltir Breiðhyltingar eru af hverfinu sínu og hversu umhugað þeim er að gæða í það enn fjölbreyttara lífi og hlúa að ímynd þess og íbúum.
Bregðum á leik í Breiðholti vikuna 15-20 september 2008.
Aukin áhersla á góðu gildin er kjarni hugmyndafræði Jákvæðrar sálfræði.
11.9.2008 | 18:03
Jákvæð sálfræði er nú að ryðja sér til rúms á Íslandi. Þetta er ekki ný hugmyndafræði heldur hefur þessi nálgun lifað með manneskjunni í gegnum ár og aldir.
Núna, hins vegar, er hugmyndafræðin orðin viðurkennd, a.m.k. viðurkenndari. Hamingjubækurnar sem streymdu inn á markaðinn á sjötta og áttunda áratugnum þurfa ekki lengur að vera ofan í náttborðsskúffunni heldu mega liggja ofan á náttborðinu. Oft voru þessar bækur best-sellers þrátt fyrir að fagaðilar væru ekkert að setja á þær fagstimpilinn, en meira um þetta á vef Lýðheilsustöðvar í tengslum við málþing um Jákvæð sálfræði.
Staðreyndin er að með því að skerpa á þeim þáttum sem skapa vellíðan í lífi okkar er hægt að draga úr og milda vanlíðan af ýmsum toga. Ferlið á sér stað í okkar eigin huga og gott er að geta orðað þessa hluti við einhvern sem maður treystir hvort heldur einhvern í fjölskyldunni, vini eða fagaðila.
Meginmarkmiðið að draga fram á sjónarsviðið styrkleika viðkomandi, (allir hafa einhverja þótt þeim finnist þeir kannski ekki blasa við) og síðan að virkja þessa styrkleika enn frekar. Vægið flyst frá áherslunni á veikleikana/vandamálunum yfir til jákvæðu þáttanna í lífi manneskjunnar. Með því að skýra og draga fram í dagsljósið það sem er í gott og það sem gengur vel, upplifir viðkomandi jákvæðu þættina áhrifameiri í lífi sínu og er líklegri til að hugsa meira um þá og jafnvel virkja þá enn meira.
Allt of lengi hefur megináhersla sálfræðinnar verið á vandamálin, oft verið nefnt tímabil sjúkdómavæðingar. Innihald greiningar og meðferðar hefur jafnvel einskorðast við VANDAMÁLIÐ, orsakir þess og vissulega lausnir. Vandinn hefur verið upphafspunkturinn í stað þess að hefja vinnuna á því að skoða styrkleikana og byggja síðan framhaldið á þeim.
Þetta þýðir ekki að allur vandi, vanlíðan og sjúkdómar hverfi bara si svona með upptöku Jákvæðrar sálfræðinálgunar. Það sem gerist mikið frekar er að hugsunin kanna að taka breytingum, hugsanir verða jákvæðari sem leiðir til betri líðan sem síðan hvetur til jákvæðra atferlis. Þetta ferli er síðan líklegra til að framkalla jákvæðari viðbrögð frá umhverfinu. Af stað fer jákvæður hringur sem leysir e.t.v. vítahringinn af hólmi.
Eins mikið eins og líðan okkar getur verið í okkar höndum er um að gera að freista þess að hafa á þetta áhrif. Þó má varast að vera ekki með of mikla einföldun í þessu fremur en öðru er snýr að mannlegu eðli. Sumir eru einfaldlega það mikið veikir að þeim finnst erfitt að sjá eitthvað jákvætt í lífi sínu. Fólk sem t.d. er með mikla verki og kennir til meira og minna allan sólarhringinn finnst eðlilega erfitt að upplifa einhverja jákvæðni. Það er ekki erfitt að skilja.
En endilega prófa að renna yfir þennan tékklista og svara honum með sjálfum okkur til að sjá hversu langt við komumst:
Hvað er það sem ég er ánægð(ur) með?
Hvað er það sem ég kann vel við í fari mínu?
Hvert af mínu atferli/hegðun er ég sátt(ur) við?
Hvað er það sem ég kann vel við og þykir vænt um í fari fjölskyldu minnar?
Hvað er það sem gengur vel hjá mér (í starfi og á heimilinu)?
Og aðeins meiri fókus:
Hvar og hvernig vil ég vera eftir fimm ár?
Hver eru mín markmið: skammtíma,- og langtímamarkmið?
Hvað er ég að gera núna sem leiðir mig að þessum markmiðum?
Frönsku ungarnir erfiðir. Mamman, sálfræðingurinn er no good
8.9.2008 | 20:17
Átti samtal við dótturina Hörpu sem er au-pair í París og gætir þar tveggja barna sem henni finnst vera afar óþekk. Við mæðgur erum að reyna að leggja á ráðin í gegnum Skypið hvernig hún getur beislað litlu Frakkana.
Sálfræðingshjarta móðurinnar slær auðvitað nótt sem dag og hef ég spurt hana hvort hún sé búin að reyna að syngja fyrir þau (Harpa hefur nefnilega einstaklega fallega söngrödd), hvort hún hafi prófað að spila við þau eða lesa fyrir þau Dimmalim á frönsku, bók sem hún tók með sér.
Hún kveðst búin að prófa þetta allt en samt sé erfitt að tjónka við börnin.
Áðan spurði ég hana hvort hún hafi prófað að knúsa þau, taka hinn bálóþekka strák í fangið og segja honum hvað hann sé mikil snilld. Nei sagði hún, gekk ekki með drenginn en tókst með stúlkuna. Söngaðferðin gekk heldur ekki sem skyldi. Þegar hún söng, gólaði bara stráksi .
Þá spurði ég hvort hún hafi prófað að hunsa neikvæða hegðun þeirra. Já, hún hafði reynt það en var ekki viss um árangur þeirrar aðferðar, alla vega enn sem komið er. Tungumálið er sannarlega ekki til að hjálpa. Sundum skilur hún ekkert sem börnin segja og þau ekki hana.
Ég hef alltaf verið svo góð með börn, sagði Harpa, þess vegna skil ég þetta ekki.
Ég sagði; Harpa, þetta er áskorun, verkefni sem þú munt sigrast á. Við vinnum þetta saman í gegnum Skypið.
Æi, hvað það er annars erfitt að vera svona fjarri og geta ekki komið að meira gagni.
Ég er tóm sem stendur, veit ekki hverju ég á að stinga upp á næst.
Samt á ég víst að þekkja allar aðferðirnar
Ekkert lát á skemmdarverkum
8.9.2008 | 10:48
Ein er sú starfsstétt sem klárlega fer vaxandi næstu misseri. Það er starfsstétt öryggisvarða og vaktmanna. Nú er svo komið í okkar þjóðfélagi að fátt fær að vera í friði. Skemmdarverk eru unnin í skjóli nætur á flestu því sem hægt er að skemma og skemmdarvargar hafa mögulegan aðgang að.
Helst allt þarf að vakta ef það á ekki að vera eyðilagt og dugar ekki til samanber skemmdaverk sem unnin voru á Þristinum þrátt fyrir öfluga öryggisgæslu á svæðinu.
Þetta er sorglegt og margir spyrja sig hverju þetta sætir. Skemmdarrvargar sem oft eru enn á barnsaldri, þ.e. undir 18 ára, eru ekki í leit að fé heldur einungis að fá útrás fyrir reiði, gremju, hatur og vonbrigði. Sumir þessara aðila eru ofur áhrifagjarnir og hlaupa upp til handa og fóta þegar félagar þeirra hvetja þá til afbrota. Um mögulegar orsakir og ástæður er hægt að skrifa langan pistil.
Margir skemmdarvargar komast upp með þetta. Eftir að hafa skemmt fyrir tugi ef ekki milljónir króna tölta þeir heim að sofa. Hvort þeir sofi svefni hinna réttlátu skal ekkert um sagt.
Fjölmargir komast hjá því að sæta nokkurri ábyrgð nokkurn tímann einfaldlega vegna þess að þeir nást ekki. Foreldrar barna sem næst að góma þurfa að axla ábyrgð og oft á tíðum greiða stórar fjárhæðir vegna skemmdaverka barnanna. Hvort og þá með hvaða hætti þessir foreldrar vinna úr málinu með börnum sínum er málefni sérhverrar fjölskyldu. Sumar fjölskyldur taka á þessu af krafti en aðrar finna e.t.v. einungis til vonleysis og vanmáttar.
Þessari umræðu þarf að halda vakandi. Því fyrr sem hægt er að byrja að kenna börnum að bera virðingu fyrir eigum annarra og hjálpa þeim að skilja verðmætagildi hluta því betra. Skemmdarverk eru afbrot. Hvert tilfelli þarf að ræða, kryfja og vinna úr svo auka megi líkur þess að það verði ekki endurtekið.
Almenn umræða um alvarleika málsins er alla vega byrjun hvernig svo sem gengur síðan að auka skilning og innsæi ungmennanna.
Finnum sem flestar og fjölbreyttar leiðir til að ná til þessara barna, hjálpa þeim og hjálpa foreldrunum að hjálpa þeim. Séu engir eftirmálar, engar afleiðingar, má reikna með að það virki sem hvatning fyrir skemmdarvargana að skemma meira.
Erfitt að hunsa orð Jónasar H. Haralz
7.9.2008 | 19:32
Jónas segir það nauðsynlegt að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið með það að markmiði að fá skýr svör um hvað það hefði í för með sér. Það sé eina leiðin til að hætta þessu pexi. Með viðræðum kæmi það fljótt í ljós hvort aðild henti okkur eður ei.
Ríkisstjórnin hefur margsagt að slíkar viðræður verða ekki á þessu kjörtímabili.
Það er erfitt að hunsa algerlega orð þessa aldraða og reynda efnahagsráðgjafa sem velkst hefur um í heimi peningamála meira en hálfa öld. Hann er svo sem bara að leggja það til að við öflum upplýsinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:24 | Slóð | Facebook
Skortur á líffærum lengir biðina
6.9.2008 | 18:18
Magnús Þór Þórisson beið í tvö ár eftir að fá nýja lifur. Vart er hægt að ímynda sér þá streitu og angist sem hlýtur að fylgja því að bíða eftir líffæri. Nagandi óvissa um hvenær það verður og hvort það verði e.t.v of seint.
Stjórnvöld ætla samkvæmt nýjustu fréttum að endurskoða samning við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn um líffæraflutninga. Það er sannarlega fagnaðarefni.
Grundvöllur þess að hægt sé að stytta biðina eftir líffærum er sú að fleiri gefi líffæri. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað felst í svona samningi milli þjóða um líffæraflutninga, hvort um sé að ræða kaup á líffærum eða líffæraskipti. Þó skyldi maður halda að bið sérhvers einstaklings kynni að styttast ef um væri að ræða skipti þ.e. að íslendingar leggi til líffæri á móti því að fá líffæri.
Eitt er víst að það sárvantar líffæri.
Ég hef áður skrifað um hina svokölluðu Lífsskrá Landlæknisembættisins. Um er að ræða yfirlýsingu vegna meðferðar við lífslok. Í Lífsskránni er einnig yfirlýsing um líffæragjöf þ.e. hvort viðkomandi vilji gefa líffæri ef hægt er að nýta þau til að bjarga lífi annarra eða bæta það.
Því fleiri líffæragjafar því styttri verður bið líffæraþega. Það er e.t.v. stór hópur manna og kvenna sem myndi gjarnan vilja gefa líffæri sín eftir andlát ef hægt er að nýta þau til að bjarga öðrum. Hins vegar hefur þetta fólk kannski ekki leitt hugann að þessu upp að því marki að ganga frá því að fylla út Lífsskráreyðublaðið og koma því Landlæknisembættisins. Hvort það sé nauðsynlegt til að hægt sé að nota líffæri viðkomandi eftir andlát veit ég ekki. Það kann að vera að það nægi að nánustu ástvinir tilkynni að þeim hafi verið kunnugt um þessa ósk hins látna.
Gott er að minnast þess þegar hugsað er um þetta viðkvæma mál að engin veit hvort hann eigi eftir að fylla hóp líffæraþega síðar á ævinni.
Heilsa og heilbrigði | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook
Engin stétt, hvorki stétt þingmanna né önnur, er yfir það hafin að fylgja skráðum siðareglum
2.9.2008 | 15:09
Það færist í fang að stéttir setji sér siðareglur. Flest allar stéttir heilbrigðisgeirans hafa fylgt siðareglum áratugum saman. Nú þegar hafa fjölmargar aðrar stéttir sett sér ákveðnar siðareglur t.d. þær stéttir sem starfa innan fjármálageirans.
Við gerð siðareglna hafa íslenskar starfsstéttir gjarnan litið til nágrannalandanna. Norðurlandaþjóðirnar eru sennilega komnar lengra á veg með þróun siðareglna og vafalaust eru fleiri starfsstéttir þar sem lúta skráðum siðareglum en hér á landi.
Alhliða og almennar siðareglur eru nauðsynlegar bæði fyrir þá sem tilheyra viðkomandi stétt og þá sem stéttin þjónustar eða á í samskiptum/ tengslum við. Um er að ræða ákveðinn ramma eða vísir að leiðbeiningum hvað varðar almenn málefni sem þó stundum geta virst vera álitamál eða virkað sem væru á gráu svæði. Þetta eru leiðbeiningar um hvar hin almennu samskiptamörk liggja í málum sem virka einföld en geta síðan þegar á reynir verið flókin. Siðareglur eru til þess fallnar að skerpa á hlutverkum og hjálpa þeim sem eftir þeim starfa að skilgreina sjálfa sig í starfinu svo ekki komi til hagsmunaárekstra eða annarra óheppilegrar skörunar.
Góðar siðareglur eru gulls ígildi. Ég fagna mjög þeirri umræðu og vinnu sem komin er af stað við samningu siðareglna þingmanna því engin stétt er yfir það hafin að fylgja skráðum siðareglum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook
Guðjón er ljúfmenni, Matthías sleppur vel
31.8.2008 | 19:43
Nú hefur það verið staðfest að skrif Matthíasar um Guðjón Friðriksson er lygi.
Matthías hefur beðið Guðjón afsökunar samkvæmt fréttum dagsins.
EKKERT af því sem Matthías skrifar um Guðjón er rétt. Sá síðarnefndi hafði hvorki verið nálægur þeim vinnustað eða fólki sem um ræðir í dagbókarskrifum Matthíasar. Það er ekki einu sinni hægt að setja þetta á reikning misskilnings. Skrifin um Guðjón eru því slúður sem hefur skotið rótum í minni Matthíasar eða að Matthías hefur farið illilega mannavillt.
Guðjón Friðriksson er fórnarlamb.
Er hann ekki þolandi óvandaðra vinnubragða? Hann á sér einskis ills von frá fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins en hefur nú mátt eyða tíma og þreki í að verjast og hreinsa mannorð sitt.
Ef frásögnin um Guðjón er hrein lygaþvæla hvað á maður að halda um annað efni dagbókaskrifanna?
Hvert er gildi skrifa Matthíasar nú í hugum lesenda?
Guðjón er ljúfmenni, sáttfús friðarsinni. Hann lætur sér nægja afsökunarbeiðni og sættir sig við að lygin um hann verði ekki fjarlægð úr dagbókaskrifunum heldur er sett inn tilvísun í útskýringar þar sem fram kemur að þessi frásögn á ekki við rök að styðjast.
Lítil en samt stór. Litla Ísland vann stórt!
27.8.2008 | 20:58
Þetta er mikill gleðidagur fyrir okkur Íslendinga og yndisleg stund á Bessastöðum þegar strákarnir tóku við Fálkaorðunni.
Viðtalið við forseta okkar Hr. Ólaf Ragnar Grímsson áðan í sjónvarpinu var einnig skemmtilegt. Þar lýsti hann því á einlægan hátt hvernig tilfinning það var að vera áhorfandi þegar íslenska handboltaliðið frá smáríkinu Íslandi átti stórsigur á Ólympíuleikunum.
Hr. Ólafur sýndi einlæga aðdáun og gleði yfir þessum áfanga liðsins og gaman fannst mér að sjá og heyra hversu ánægður og stoltur hann er af forsetafrúnni Dorrit sem sannarlega hefur á sinn persónulega hátt lagt sitt af mörkum til að styðja og fagna. Reyndar saknaði ég þess að sjá hana ekki við veitingu Fálkaorðunnar. Það hefði sæmt henni vel að næla Fálkaorðunni í strákanna.
Tilfinningalegar upplifanir, tjáning á gleði og stolti yfir sigri þessa frábæra liði og þjálfara þeirra hefur verið samnefnari Íslendinga í dag og undanfarna daga.
Sorry about the handball sagði Frakkinn
24.8.2008 | 19:45
Sorry about the handball.
Og hún sagði: OOO it´s OK and congradulations to you...
Þetta var svo krúttlegt fannst mér og ég hugsaði að þessi úrslitaleikur hefur á vissan hátt tengt þessar þjóðir saman án þess að geta skýrt það eitthvað nánar.
Sigurgleðin yfirskyggir öll vonbrigði
24.8.2008 | 13:28
Enda þótt stolt okkar yfir silfrinu sé gríðarlegt og almenn ánægja óendanleg er því ekki að neita að tilhugsunin um gullið kitlaði. Smá glýja var komin í augun...
Einhverjir voru vonsviknir en kannski ekki mjög lengi og sannarlega ekki þegar okkar lið stóð á verðlaunapallinum og tók við silfrinu.
En skoðum þessa tilfinningu sem við köllum vonbrigði aðeins nánar og hvað það er sem hjálpar til að vinna á henni bug.
Að yfirstíga vonbrigði (svona almennt séð)
Það er mjög misjafnt hvernig fólk finnur sig út úr vonbrigðum en fyrir vonbrigðum verða allir einhvern tímann á lífsleiðinni.
Þættir sem hafa áhrif eru m.a.:
*Persónugerð þess sem verður fyrir vonbrigðum
*Stuðningshópur
*Er einhver umbun eða bara skömm (eða skammir)?
*Hvort hægt sé að endurtaka það sem olli vonbrigðunum og þá hvenær?
*Hvort einhverjar afleiðingar séu og þá eru þær léttvægar eða alvarlegar?
Hvorki má gleyma né vanmeta einn aðal áhrifaþáttinn sem allir njóta góðs af og það er auðvitað tíminn. Tíminn græðir, mildar og stundum læknar alveg sársauka og vonbrigði.
Persónugerð
Of langt mál yrði að útlista hér alla þá fjölmörgu persónuþætti sem hafa áhrif. Þó skal nefna að þeir sem eru með þokkalega heilsteypta sjálfsmynd og ágætlega öryggir með sig varðandi það sem vonbrigðin snúa að eru mun fljótari að vinna úr þeim en þeir sem eru með brotna sjálfsmynd, eru neikvæðir og svartsýnir.
Stuðningshópur
Þetta atriði skiptir miklu máli, þ.e. hver og hverjir standa að baki til að hvetja og hrósa. Að finna fyrir baklandinu sem fagnar með á sigurstundum en sem einnig grípur á fallstundum getur skipt sköpum þegar vinna þarf úr vonbrigðum.
Er einhver umbun, eitthvað jákvætt.... ?
Það sem getur ráðið úrslitum hvort tekst á örskömmum tíma að ýta frá sér vonbrigðunum er hvort einhver umbun eða ljósir punktar eru inn í myndinni. Dæmi um slíkt gæti verið hrós fyrir þann árangur sem þó náðist eða einhverjir sýnilegir, ljósir punktar þrátt fyrir vonbrigðin, svona lán í óláni eins og sagt er sem hefur þá mildandi áhrif á vonbrigðin og flýtir fyrir að þeim léttir.
Er hægt að endurtaka það sem fór úrskeiðis og hvenær?
Það að eiga þess kost að endurtaka og reyna þá að gera betur skiptir gríðarlegu máli. Því fyrr sem það getur orðið því betra. Þá hugsar sá sem er fullur vonbrigða að innan tíðar muni hann fá tækifæri til að ná betri árangri. Sé ekki um neina endurtekningu að ræða blasir við sú staðreynd að þetta er búið spil og viðkomandi á ekki annan kost en að þvinga sjálfan sig til að líta fram á við enda verður fortíðinni ekki breytt.
Léttvægar eða alvarlegar afleiðingar
Það þarf líklega ekki að segja neinum að þessi þáttur getur vegið hvað þyngst. Vonbrigði sem koma í kjölfar atferlis sem hefur haft skaðlegar eða óbætanlegar afleiðingar eru mikil og geta varað árum saman. Sé enginn sérstakur eftirmáli er mikið auðveldara að ýta frá sér vonbrigðunum og horfa fram á veginn
Ef við tengjum þessar litlu vangaveltur við vonbrigðin sem settust að í hjörtum strákanna og landsmanna í morgun þá lítur þetta svona út:
Hver og einn vinnur úr sínum vonbrigðum eins og persónuleiki hans bíður upp á. Strákarnir eru ólíkir og sumir þeirra munu eflaust dvelja lengur en aðrir við tilfinninguna um vonbrigði vegna þess að ekki náðist í gullið.
Stuðningshópurinn var stór, nær og fjær. Strákarnir vissu að þjóðfélagið var á hvolfi vegna þeirra, landinn að rifna af stolti og spenningi og um fátt annað talað. Þeir vissu að hlýhugur var skilyrðislaus og að stolt þjóðarinnar væri tryggt hvort heldur þeir ynnu gull, silfur eða brons ef því var að skipta.
Hvað varðar umbunarþáttinn þá lá fyrir að silfrið var í höfn. Það má álykta sem svo að vegna þess hafi gengið bæði betur og hraðar að ýta frá sér vonbrigðum og finna til sannrar gleði á ný enda enginn smá áfangi að ná.
Enn annar plús í þessu ákveðna tilviki er sá að Ólympíuleikarnir verða haldnir aftur, reyndar ekki fyrr en eftir fjögur ár. Fyrir suma í liðinu er það e.t.v. svolítið langur tími til að hægt sé að nota það sem einhverja sérstaka huggun.
Afleiðingaþátturinn hefur minnsta vægi hér. Sem betur fer eru ekki nein alvarleg meiðsl og enginn hefur skaddast svo vitað sé.
Niðurstaðan er þessi: Sigurgleðin nær að yfirskyggja vonbrigðin og það bæði hratt og vel. Stórkostleg tímamót
Gott að íslensk stjórnvöld ákváðu að sniðganga ekki Ólympíuleikana
22.8.2008 | 20:25

Ákveðinn hópur hér á landi hvatti íslensk stjórnvöld til að sniðganga Ólympíuleikana í mótmælaskyni við stjórnarhætti og mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda gagnvart þegnum sínum.
Ég tel að það hafi aldrei komið til álita hjá íslenskum stjórnvöldum að hundsa Ólympíuleikana í mótmælaskyni. Það þýðir ekki að flest okkar erum sammála um að ótal margt þarf að breytast í Kína til að hægt sé að líta til Kínverja sem þjóð sem virðir grundvallar mannréttindi og hefur hagsmuni þegna sinna að leiðarljósi.
En sem betur fer kom það aldrei til álita að hundsa Leikana enda hefði sú staða verið afar sorgleg ekki hvað síst í dag þegar handboltaliðið íslenska vann sigur á Spánverjum og tryggði þjóðinni Ólympíusilfrið. Svo ekki sé minnst á úrslitaleikinn á sunnudaginn, hvernig svo sem hann fer.
Þetta er einnig í fyrsta sinn sem ég veit til þess að forseti Íslands er staddur á Ólympíuleikunum. Nærvera fulltrúa íslenskra stjórnvalda og forsetans þjappar þjóðinni enn frekar saman og virkar sem hvatning til að standa að baki stórkostlegu handboltaliði okkar.
Sigurinn í dag er einn af þessum atburðum þar sem við öll sem hér búum, eða tilheyrum þessari þjóð, fögnum. Gleðitárin streymdu niður kinnar karla, kvenna og barna. Ekki varð betur séð en að sigurgleðin væri hafin yfir persónueinkenni, stöðu, stétt og allar mögulegar mannlegar aðstæður.
Á svona stundu græða allir

Það kom mér á óvart að kostnaður við framboð Íslands til Öryggisráðs SÞ er ekki áætlaður meiri en um 400 milljónir. Kannski er það mjög vanáætlað en það kemur vissulega ekki í ljós fyrr en ferlinu er lokið.
Til að gera sér grein fyrir stærðargráðu þessarar upphæðar þá er þetta lægri upphæð en borgin greiddi fyrir tvö hús við Laugarveg fyrr á árinu. En fyrir þau voru greidd ríflega 500 milljónir ef ég man rétt. Mörgum kann eflaust að finnast það erfitt og jafnvel ómögulegt að bera saman kostnað við framboð til Öryggisráðsins og tvö gömul hús við Laugaveginn.
Upphæðina sem slíka er þó engin vandi að skynja. Kaupin á húsunum tveimur eru umdeild og einhverjir hafa líka sett sig upp á móti framboðinu til Öryggisráðsins.
Ég persónulega er sátt við að verja þessu fé til framboðsins en fannst erfitt að kyngja húsakaupunum. Ég tel að Ísland og við íslendingar eigum erindi í Öryggisráðið. Hvernig svo sem kosningarnar fara fylgir framboðinu kynning á landi og þjóð og myndun nýrra vina og menningartengsla.
Með setu Íslands í Öryggisráðinu gefst tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum í málefnum sem varða alþjóðleg öryggismál. Nái Ísland kjöri mun seta Íslands án efa einnig hafa ýmis konar óbein áhrif okkur í hag. Alþjóðlegt samstarf er þjóðinni mikilvægt, bæði svæðisbundið samstarf og Evrópusamstarf.
Upplýsinga-kraðak um lausnir í efnahagsmálum
19.8.2008 | 14:13
Fjölmargir pistlar og greinar hafa verið skrifaðar um efnahagsmálin: peningastefnuna og framtíðarhorfur. Ekki er betur séð en að hagfræðingar og viðskiptafræðingar séu sammála um ákveðin grundvallaratriði svo sem að:
1. Bíða eigi með erlenda lántöku sem áætluð er til að styrkja gjaldeyrisforðann vegna þess hversu gríðarlegur vaxtakostnaðar yrði nú af slíku láni.
2. Óumflýjanlegt er að halda stýrivöxtum háum á meðan ekki hefur tekist að kýla verðbólguna nægjanlega niður.
Þeir sem tjá sig hvað mest um efnahagsmálin eru fyrst og fremst hagfræðingar og aðrir sérfræðingar í peningamálum en einnig stjórnmálamenn og aðrir lykilaðilar svo sem framkvæmdarstjórar og formenn hagsmunasamtaka.
Í síðarnefnda hópnum finnast þeir sem telja að horfa eigi sem fyrst til þess að lækka stýrivexti og jafnvel að það ferli hefði átt að vera hafið. Sannarlega er það afdrifaríkt að hafa svo háa vexti yfir langan tíma en ef ekki verður byrjað á réttum enda við að leysa þennan hnút verður það enn
afdrifaríkara og ekki bara fyrir suma heldur alla.
Hagfræðingar virðast einhuga um það að verði stýrivextir lækkaðir í efnahagsumhverfinu sem nú er, muni það auka líkur á enn hærri verðbólgu. Rétti endinn til að byrja á sé að, draga saman seglin, draga úr eyðslu og þar með þenslu og það muni síðan hafa hjaðnandi áhrif á verðbólguna.
Þegar þær aðstæður skapast er fyrst hægt að fara að huga að lækkun vaxta.
Það hlýtur að vera þrautinni þyngri fyrir Jón og Gunnu sem langar til að setja sig inn í þessi mál að reyna að fóta sig i þessu kraðaki misvísandi upplýsinga.
Ég legg því til að leitast verði við að hlusta á þá sem hafa sérmenntað sig á þessu sviði og starfa við það að greina og leysa efnahagsvandann en tekið verði síður mark á öðrum.
Grundvallarskilaboðin eru þessi:
Það hafa ekki enn skapast þær aðstæður þar sem talið er óhætt að lækka vexti og það er ekki talið hagstætt að taka erlent lán akkúrat núna til að styðja við gjaldeyrisforðann.
Það eru hagsmunir sem best henta heildinni sem hljóta að verða að gilda.
Peningamál | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook
Sjálfsvorkunn er flestum kunn
17.8.2008 | 18:32
Vítahringurinn
Sjálfsvorkunn er eins konar regnhlífarhugtak yfir flokk neikvæðra hugsana sem varða mann sjálfan. Sjálfsvorkunnarhugsanir leiða til vondrar líðan
-sem síðan leiða til neikvæðrar/óæskilegrar hegðunar eða aðgerðarleysis
-sem áfram leiða til enn verri líðan og hringurinn lokast síðan með enn neikvæðari hugsunum um hversu erfitt lífið er.
Hugræn atferlismeðferð
Þeir sem hafa kynnt sér eða undirgengist hugræna atferlismeðferð þekkja þennan hring vel. Nálgunin beinist einmitt að því að hjálpa fólki til að rjúfa þennan vítahring og setja í stað neikvæðra hugsana aðrar uppbyggjandi og jákvæðar um sjálfan sig og umhverfi sitt.
Stundum fórnarlamb og stundum dómari
Vissulega kemur það fyrir að manni finnst fólk barlóma sér langt umfram efni og ástæður og það gera flestir einhvern tímann á ævinni. Þetta á t.d. við ef maður vorkennir sér lifandi ósköp vegna þess að hafa orðið fyrir, ja kannski smávægilegum skakkaföllum eða mótlæti (stórum í augum þess sem vorkennir sér), sumt jafnvel sem hægt er að bæta með auðveldum hætti.
Allir hafa örugglega á einhverjum tímapunkti upplifað pirring og hneykslun gagnvart einstaklingi sem virðist ekki ætla að læra af mistökum, sem meðtekur ekki ráðleggingar og fellur alltaf í sama pyttinn.
Í þessum tilfellum má maður samt ekki gleyma að einhver ástæða er að baki sem hefur áhrif á að viðkomandi tekur ítrekað rangar ákvarðanir.
Sama lögmálið fyrir alla
Líklega fer enginn í gegnum lífið án þess að verða fyrir einhverju mótlæti. Hvernig við meðhöndlum mótlætið, upplifum það og vinnum úr því er síðan afar einstaklingsbundið.
Öll vonumst við til að komast í gegnum lífið án þess að verða fyrir missi barna okkar og/eða maka. Eðlilegt er að sjá á eftir foreldrum sínum en í þá viljum við líka halda sem allra lengst. Þeir sem verða fyrir sárasta missi sem hægt er að hugsa sér eru að mínu mati þeir sem missa barnið sitt og einnig þeir sem verða fyrir alvarlegri örkumlun vegna slysa. Þetta fólk á óskerta samúð flestra.
Samskipti foreldra og barna
Mér finnst mikilvægt að foreldrar hugi snemma að því að leggja grunn að sterkri sjálfsmynd barna sinna því hún er besta forvörnin gegn mörgum ef ekki flestum vágestum.
Ef við skoðuð þessa hugmynd í tengslum við sjálfsvorkunn vil ég benda foreldrum á að verði barn þeirra fyrir mótlæti skal varast að ýta undir eða dvelja um og of með því í sjálfsvorkunn.
Ef barninu okkar líður illa tökum við utan um það, kyssum á sárið, verum með því í sársaukanum, hvort heldur hann er líkamlegur eða andlegur en jafnframt minnum á að oftast nær tekur vanlíðanin enda. Þá getur barnið vonandi tekið upp þráðinn að nýju og gert þá hluti sem það er vant að gera í sínu daglega lífi. Foreldrar mega ekki vera of fljótir að samþykkja uppgjöf hjá barni sínu af því að þeim finnst að það eigi svo erfitt.
OG SVARAÐU NÚ!
15.8.2008 | 09:30
Við tiltekt fann ég tvær áhugaverðar bækur, önnur heitir OG SVARAÐU NÚ Spurningar og þrautir við allra hæfi og hin ÁSTARDRYKKIR OG ÖNNUR HJÁTRÚ UM SAMSKIPTI KYNJANNA.
Útgefandi Vaka-Helgafell 2001.
Hér koma nokkrar gátur.
1. Fyrir hverjum þurfa allir að taka ofan hattinn, jafnvel forsetar og kóngar?
2. Hvaða fyrirbæri er það sem hefur rót sem vex upp á við?
3. Hvað er það sem skýlir manni fyrir norðangarranum en getur jafnframt rifið kjaft, spilað fótbolta og drukkið rauðvín?
Hjátrú um samskipti kynjanna.
1. Vilji fólk eignast barn þykir happadrýgst að hafa samfarir á sunnudegi, undir fullu tungli og í aðfalli sjávar.
2. Hársárir menn sem einnig kitla í iljarnar verða hræddir um konur sínar.
3. Fyrir hjón sem rífast er ráð að sofa á reyniviði.
Þá vitum við það.
Góðar stundir.
Spaugilegt | Slóð | Facebook
Gleðigangan, gleðin skipti öllu máli en ekki glingrið!
12.8.2008 | 20:27
Ásgeir Ingvarsson lýsir vonbrigðum sínum yfir Gleðigöngu Hinsegin daga í pistli í Morgunblaðinu í dag og segir m.a. að hún hafi ekki staðið undir væntingum hvað varðar fyndni, listrænt gildi, skörpustu ádeiluna og að hana hafi skort meiri samkeppni. Þetta gera þeir í Ríó, segir hann, og virðist það heldur betur virka.
Gleðigangan þarf ekki að standast neina samkeppni. Þetta er ekki Karnival eins og skrautgangan í Ríó þar sem keppst er um viðurkenningar og verðlaun.
Þeir sem hafa komið að skipulagningu Hinsegin daga hafa valið að kalla þessa göngu gleðigöngu en ekki kröfugöngu jafnvel þótt hún sé í eðli sínu kröfuganga. Verið er að vekja athygli á ákveðnum hópi einstaklinga í samfélaginu og er hún því ekki svo frábrugðin 1. maí göngunni eða 19. júní göngunni nema e.t.v. að því leytinu til að ívafið er gleði, friður og ósk um að fá að lifa saman í sátt og samlyndi.
Þeir sem hafa farið í hefðbundnar kröfugöngur vita að í þeim er sjaldnast að finna mikla gleði eða mikinn fögnuð.
Þessi ganga er öllum opin sem vilja taka þátt hvort heldur sem þeir skilgreina sig sem hluti af hópi samkynhneigðra eða hópi annarra samfélagsþegna. Markmiði er að vera með og njóta þess að eiga góðan dag með glöðu fólki.
Hvernig svo sem atriðin voru og hvernig svo sem þau voru upplifuð af öllum þeim þúsundum sem fylgdust með stóð Gangan fyrir sínu einfaldlega vegna þess að hún var skipulögð og sett í framkvæmd af hópi sem vildi vekja athygli á stöðu sinni í samfélaginu. Þess vegna er ekki viðeigandi að bera hana saman við einhverjar skrauthátíðir út í heimi sem aðrir en íbúar viðkomandi lands þurfa að greiða mikið fé ætli þeir að komast á staðinn til að fylgjast með.
Gleðigangan er fyrst og síðast ganga í þágu mannréttinda en ekki ganga glingurs eða hégóma.
Það skiptir því litlu máli HVAR hinn vinsæli Páll Óskar var staðsettur í Göngunni eins og Ásgeir vill meina. Hann er sama stuðrúsínan hvort heldur hann leiðir gönguna, er í miðjunni eða rekur lestina.