Hvers á Úlfarsárdalur að gjalda?

Úlfarsárdalur er tiltölulega nýtt hverfi. Fjöldi ábendinga hafa borist vegna safnhauga byggingarefnis þar og skort á götumerkingum til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur brugðist við þessu og lagt fram fyrirspurnir um eftirlit með umhirðu og tillögu um borgarmeirihlutinn geri átak í að betrumbæta merkingar til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á gönguþverunum og gangbrautum í Úlfarsárdal.

Víða í Úlfarsárdal eru gangbrautir ekki merktar eins og á að gera (sebrabrautir). Einnig vantar aðrar merkingar svo sem gangbrautarmerki sem nota skal við gagnbraut og vera beggja megin akbrautar.  Ef eyja er á akbraut á merkið einnig vera þar. Það vantar einnig víða viðvörunarmerki sem á að vera áður en komið er að gangbraut. Gangbrautarmerkið ætti ekki að vera lengra en 0,5 m frá gangbraut.

Þetta er sérkennilegt því meirihlutinn í borginni hefur svo oft talað um að réttindi gangandi og hjólandi í umferðinni skuli koma fyrst. Allar gangbrautir eiga að vera merktar eins og eins og lög og reglugerðir kveða á um. Segir í þeim að „gangbrautir verði merktar með sebrabrautum og skiltum til að auka umferðaröryggi. Í reglugerð 289/1995 er kveðið á um að gangbraut skuli merkt með umferðarmerki báðum megin akbrautar sem og á miðeyju þar sem hún er. Þá skal merkja gangbraut með yfirborðsmerkingum, hvítum línum þversum yfir akbraut (sebrabrautir)“.

Tillögunni var vísað til skipulags- og samgönguráðs

Haugar af tæki, tólum og öðru byggingardrasli

Ábendingar hafa borist um mikla óhirðu í kringum byggingarsvæði í Úlfarsárdal. Um þessi mál lagði Flokkur fólksins fyrirspurn þess efnis hvernig eftirliti og eftirfylgd er háttað með umhirðu verktaka Reykjavíkurborgar á vinnustað og hver viðurlögin eru séu reglur brotnar.

Í stöðluðum útboðsákvæðum borgarinnar segir að verktaki skuli ávallt sjá um að allir efnisafgangar séu fjarlægðir jafnóðum. Verktaki skal sjá svo um að umhirða á vinnustað, vinnuskúrum og á lóðum sé ávallt góð og skal verktaki fara eftir fyrirmælum eftirlitsmanns þar að lútandi. Verktaki skal enn fremur gæta ýtrustu varúðar og öryggis við framkvæmd verksins.

Á þessu er heldur betur misbrestur í Úlfarsárdal. Þar er umhirðu verulega ábótavant og líkur á að slysahætta skapist. Sums staðar ægir öllu saman, tæki, tólum og drasli. Sjá má moldar- og vatnspytti á byggingastöðum, hauga af byggingarefni og annarri óreiðu jafnvel á götum sem tengjast ekki byggingarsvæðinu sjálfu. Sagt er að lóðarhafar til margra ára safna byggingaefni á lóðir án þess að hefja framkvæmdir. Sumum finnst þetta ekki vinnustaðir heldur safnhaugar. R19090303

Fyrirspurnum var vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsviðs.

 


Fátt um svör því lítið er enn vitað

Það er eitt sem er alvega víst í sambandi við borgarlínu og það er að bíleigendur verða skattlagðir enn frekar með svokölluðum flýti- eða tafagjöldum. Í Samkomulagi ríkis og 6 sveitarfélaga um borgarlínu eru flýti- og umferðargjöld nefnd oft á blaðsíðu.
 
 
Sífellt er verið að sýna tölvuteiknaðar myndir af glæsileika borgarlínu, breiðar götur, engir bílar.. allt eitthvað sem á að heilla fólk og sannfæra það um að borgarlína leysi allan vanda. Nú er borgarstjóri í Kastljósinu og mun fegra þetta enn frekar.
 
Í borgarráði fyrr árinu óskaði ég eftir að fá svör við eftirfarandi spurningum:
1. Hvar á götunni á borgarlínan/vagnarnir að aka? Á miðri götu eða hægra megin?
2. Hvers lags farartæki er hér um að ræða? Sporvagn, hraðvagnar á gúmmíhjólum, annað? 3.Hversu margir km. verður línan?
4. Hvað þarf marga vagna í hana?
5. Á hvaða orku verður hún keyrð?
6. Hver á að reka hana? Strætó? Ríkið? Sveitarfélög? Allir saman? Aðrir?
7. Hvar er hægt að sjá rekstrar- og tekjuáætlun borgarinnar fyrir borgarlínu?
8. Hvað myndi kannski kosta að reka 400 til 500 vagna?
9. Hvað þýðir þetta í skattaálögum á almenning?
 
 

Frístundakortið hirt upp í skuld

Til þess að gera öllum börnum kleift að stunda tómstundastarf gefur Reykjavíkurborg út frístundakort. Þessi kort má nota til að niðurgreiða kostnað vegna tómstundastarfs og er 50.000 krónur. Þannig er frístundakortinu ætlað að tryggja börnum efnaminni fjölskyldna aðgang að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Upphæðin er reyndar of lág til að dekka að fullu námskeið allt að 10 vikum en sú tímalengd er eitt af skilyrðum fyrir notkun kortsins.  Foreldrar greiða mismuninn þ.e. þeir foreldrar sem það geta. Börn foreldra sem ekki geta greitt mismuninn geta ekki sótt svo dýr og löng námskeið.

Hugsunin með frístundarkortinu var engu að síðu sú að jafna stöðu barna og gefa þeim tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar óháð efnahag foreldra.

Í framkvæmd er þó raunin önnur. Árið 2009 var tillaga VG  samþykkt að unnt yrði að greiða fyrir frístundaheimili með frístundakorti jafnvel þótt það samræmdist ekki tilgangi kortsins.  Reykjavík veitir fátækum foreldrum fjárhagsaðstoð til þess að greiða niður ýmsan kostnað skv. reglum um fjárhagsaðstoð.  Til að eiga rétt á fjárhagsaðstoð setur borgin það sem skilyrði að réttur til frístundarkortsins sé fyrst nýttur til að greiða gjaldið eða skuldina ef því er að skipta.  Þar með er tekið af barninu tækifærið að nota kortið í tómstundastarf. Þessi tilhögun bitnar mest á efnaminni fjölskyldum sem eiga í erfiðleikum með að greiða fyrir dvöl barns síns á frístundaheimili og eru því tilneydd að grípa til frístundarkortsins í þeim tilgangi.

Það á ekki að girða fyrir tómstundaiðkun barna af fjárhagslegum ástæðum. Flokkur fólksins leggur til að fjárhagsaðstoð verði veitt óháð því hvort frístundakort barns er nýtt og að kortið sé einungis nýtt í þeim tilgangi sem því var ætlað. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð og fjölbreytni í tómstundastarfi. Að spyrða rétt barns til frístundarkorts við umsókn foreldra um fjárhagsaðstoð og skuldaskjól eða nota það sem gjaldmiðil upp í greiðslu vegna nauðsynlegrar dvalar barns á frístundaheimili er brot á rétti barnsins.

 

 


Langaði að blóta hressilega

Ég er oftast róleg og yfirveguð. En þegar ég hafði setið föst í hálftíma frá Nordica Hilton hóteli að Glæsibæ á Suðurlandsbraut eftir heilan dag á Fjármálaráðstefnu Samband Íslenskra sveitarfélaga var ég orðin foxill og hugsaði borgarstjóra og hans fólki í núverandi og síðasta meirihluta þegjandi þörfina. Í alvöru, þarf þetta að vera svona? Nei. Það hafa verið bornar á borð ýmsar lausnir en ekkert slær í gegn. Bara sagt BORGARLÍNA!! HÚN REDDAR ÞESSU ÖLLU!!
Trúir því einhver? Segi bara aftur eins á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn á sama tíma og ég flissaði og var skömmuð í kjölfarið "Í alvöru?"

bílaumferð


Gullnáma fyrir njósnara og aðra óprútna aðila

Það er mjög kostnaðarsamt að stilla upp myndavélum um allan bæ til að innheimta veggjöld. Þetta er sennilega dýrasta aðferð sem hægt er að nota. Eigi að innheimta t.d. 20 milljónir þá trúi ég að innheimtubúnaðurinn og allt í kringum hann og annað utanumhald kosti sennilega annað eins. Þetta fer allt í sjálfa sig.
 
Stríðir gegn persónuverndarlögum
 
Dagur og meirihlutinn eiga frumkvæði af veggjöldum. Það hefur komið fram að veggaldarhugmyndin er ekki komin frá Sigurði Inga eða Framsókn Veggjöld verða innheimt með því að greina bílnúmer bifreiða því ekki er hægt að hafa greiðsluhlið. Það myndi tefja umferðina mikið.  Þannig verða allar okkar ferðir raktar. Aldrei mun ég vilja samþykkja þetta. Ef einhver óprúttinn aðili kæmist í þessi gögn er hægt að vita hvar hver er á hvaða tíma. Mjög óaðlaðandi og vanhugsað dæmi allt saman tel ég. Þetta er gullnáma fyrir njósnara.
 
Finna verður aðrar leiðir til að fjármagna borgarlínu það sem upp á vantar, t.d. selja byggingar, selja land, hætta við skrautframkvæmdir og byrja bara að spara. Þingmenn og miðlæg stjórnsýsla borgarinnar geta t.d. dregið verulega úr ferðum til útlanda, nota í fjarfundabúnað meira og fundarstreymi, leggja niður dagpeningakerfið og taka upp viðskiptakort í staðinn og áfram mætti telja?

Setja sjoppuna í sorpið

Hugmynd um að varðveita gamla sjoppu við Langholtsveg er með ólíkindum ekki nema einhver auðkýfingurinn vildi fjármagna það og gefa borginni. Ég ætla rétt að vona að borgarmeirihlutinn fari ekki að taka upp á þeirri vitleysu að setja 50 milljónir í að endurbyggja ónýtt biðskýli. Í ljósi sögunnar kæmi það ekki endilega á óvart að skipulagsyfirvöld í borginni teldu að þetta væri merkilegt til varðveislu og verðugt verkefni að setja í nokkra tugi milljóna.
Nota má 50 milljónir til margra annarra hluta en að endurbyggja þetta hús ef hús skyldi kalla jafnvel þótt það sé hannað af einhverjum frægum arkitekt.
Fólkið fyrst!

sjoppan (2)


Ég er himinlifandi

Ég er himinlifandi, trúi þessu varla. Þetta er sko ekki á hverjum degi, Tillaga Flokks fólksins um lækkun hámarkshraða á Laugarásvegi hefur verið samþykkt í skipulags- og samgönguráði.
Sjá má í fundargerð:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um lækkun hámarkshraða á Laugarásvegi.

Tillagan:

Vísað er til skipulags- og samgönguráðs frá Borgarráði dags. 5. september 2019 þar sem borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að hámarkshraði á Laugarásvegi verði lækkaður úr 50 km/klst. í 30 km/klst. Nauðsynlegt er að lækka hámarkshraða á Laugarásvegi úr 50 km/klst. í 30 km/klst. í samræmi við aðrar götur í hverfinu þar sem íbúðarhúsnæði er þétt. Ökumenn aka jafnan vel yfir 50 km/klst. á Laugarásvegi sem skapar mikla hættu en mikið af börnum búa í götunni og leika sér fyrir framan húsin. Gatan er löng og þ.a.l. eiga ökumenn það til að auka hraðann verulega. Íbúar við Laugarásveg eru uggandi um börn sín og telja að það auki öryggi þeirra til muna verði hámarkshraði lækkaður í 30 km/klst.

Samþykkt
Vísað til Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar til endanlegrar útfærslu. Athygli er vakin á því að endanlegt samþykki er háð samþykki Lögreglustjóra.

 
 
 

 


Almennir verslunareigendur í miðbænum eiga alla mína samúð

Það vita það allir sem hafa fylgst með þessari umræðu um lokanir í miðbænum að þegar formaður skipulags- og samgönguráðs segir að göngugötur efla samskipti og auka lífsgæði borgarbúa þá er það fátt nema síendurtekin klisja enda verið að framkvæma þetta allt í óþökk fjölda manns. Þrír minnihlutaflokkar í borgarráði hafa ekki atkvæðarétt þar. Borgarmeirihlutinn samþykkir sín eigin mál oftast með eins manns meirihluta. Svo er send út fréttatilkynning frá upplýsingafulltrúa meirihlutans sem segir „borgarráð samþykkti“. En það er nú aldeilis ekki. Standa ætti frekar „hinn eins manns meirihluti sem er með minna atkvæðamagn að baki sér en minnihlutinn samþykkti sína eigin tillögu um að loka miðbænum fyrir bílaumferð“.En reynt er að slá ryki í augun á fólki í þessu máli, reynt að plata borgarbúa. Enn fleiri verslanir eiga nú eftir að hörfa þar sem viðskipti hafa hrunið samhliða þessum aðgerðum. Eftir standa lundabúðir og veitingastaðir sem gefa ferðamönnum að borða og jú vissulega er skemmtanalíf í bænum sem alltaf einhverjir munu sækja. Þetta allt væri ekki svona ömurlegt nema vegna þess að hinn eins manns meirihluti sagðist ætla að hafa samráð, brandarasamráð.  


Af hverju er Reykjavík svona oft eftirbátur smærri sveitarfélaga?

 
14. febrúar 2019 lagði ég til að Reykjavíkurborg innleiddi Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með formlegum hætti og hugað yrði sérstaklega að innleiðingu þeirra í leik- og grunnskólum. Þessi tillaga var felld. Nú hefur Kópavogur samþykkt að innleiða Heimsmarkmiðin og verður fyrsta sveitarfélag á Íslandi til þess að að gera það formlegum hætti.
 
Af hverju er Reykjavík svona oft eftirbátur smærri sveitarfélaga?
Maður hefði haldið að stærsta sveitarfélagið ætti að vera fyrirmynd og í krafti fjöldans vera í forystu með fjölda mála. En það er nú eitthvað annað. Í það minnsta fór þessi tillaga mín í tunnuna en hefði hún verið samþykkt hefði Reykjavík verið fyrsta sveitarfélagið til að innleiða Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun með formlegum hætti.
 
Tillagan um innleiðingu Heimsmarkmiðana með formlegum hætti
Lagt er til að borgaryfirvöld samþykki að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem snúa að borgum og með formlegum hætti. Sérstaklega skal hugað að innleiðingu heimsmarkmiðana í allt leik- og grunnskólastarf borgarinnar. Heimsmarkmiðin eiga erindi til nemenda á öllum skólastigum og ekki síst til leikskólabarna. Mikilvægt er að borgaryfirvöld samþykki að hefja markvissa vinnu að uppfærða börnin um Heimsmarkmiðin strax í leikskóla. Allt efni er hægt að fá að kostnaðarlausu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna og á netinu. Grunnskólar eru hvattir til að nýta sér þetta og að leggja áherslu á Heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Nú þegar ættu að vera komin veggspjöld með Heimsmarkmiðunum í alla skóla landsins, á öllum skólastigum. Hægt er að nýta veggspjöld til að gera markmiðin sýnilegri og þannig verði þau nýtt í auknum mæli til að leggja áherslu á mikilvægi hvers einasta heimsmarkmiðs enda eiga þau erindi inn í alla okkar tilveru. Það er von Flokks fólksins að skólar finni fyrir hvata úr öllum áttum til að innleiða Heimsmarkmiðin og að sá hvati komi þá allra helst frá Reykjavíkurborg.
 
Greinargerð
 
Í þessari tillögu er lagt til að borgarstjórn samþykki að stefna borgarinnar samanstandi af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að setja starfseminni yfirmarkið og hvetja alla skóla borgarinnar til að innleiða þau í kennslu, starf og leiki með formlegum hætti. Eins og kveðið er á um í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á að vera skýrt í stefnu borgarinnar að hlutverk hennar sé að tryggja lífsgæði íbúanna með góðri og fjölbreyttri þjónustu. Grunnreglur eiga að miða að því að allir hafi tækifæri til áhrifa. Leggja skal áherslu á gott mannlíf, skilvirkan og ábyrgan rekstur ásamt öflugu atvinnulífi. Í framtíðarsýn felst að veita skal framúrskarandi þjónustu þar sem hugsað er vel um líðan, heilsu og velferð íbúa á öllum aldri.
 
Í Heimsmarkmiðunum er áhersla á að ákvarðanir skulu vera lýðræðislegar. Tryggja þarf að borgarbúar hafi fullt tækifæri til að hafa áhrif á eigin mál og eigið líf. Gildi og siðferði skal í öndvegi. Til að þessi hugmyndafræði skili sér sem best er mikilvægt að hefja innleiðingu strax í leikskóla. Með þeim hætti geta börnin byrja að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska. Þau eru framtíðin og koma til með að halda áfram þeim verkefnum sem hafin eru nú.

Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.
 heimsmarkmiðin

Skólahljómsveitir í öll hverfi borgarinnar

Það eru aðeins 4 skólahljómsveitir í Reykjavík sem tilheyra 5 hverfum. Hverfi borgarinnar eru hins vegar 10 í allt. Í borgarráði hef ég lagt fram tillögu um að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum hverfum borgarinnar. 

Á sjöunda hundrað nemendur stunda nám í fjórum skólahljómsveitum. Nemendur í grunnskólum borgarinnar eru tæp 15 þúsund. Vel má því gera því skóna að mun fleiri nemendur hefðu áhuga á að sækja um aðild að skólahljómsveit. Eins og staðan er í dag er ekki boðið upp á tónlistarkennslu í öllum grunnskólum. Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt og ekki á færi allra foreldra að greiða fyrir tónlistarmenntun barna sinna. Tónlistarskólinn á  Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg.

Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á tónlistarnám og á meðan það er ekki á allra að stunda slíkt nám vegna mikils kostnaðar gæti þátttaka í skólahljómsveit verið góður valmöguleiki. Með því að hafa skólahljómsveit í öllum hverfum er tækifæri til tónlistarnáms flutt í nærumhverfi barnanna. Reykjavíkurborg tryggir með þessu að börnum sé ekki mismunað á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að stunda tónlistarnám.


Hafa hvorki til hnífs né skeiðar

Á fundi borgarstjórnar í gær óskaði ég eftir umræðu um ábyrgð borgarinnar á þeim sem þiggja mataraðstoð frá frjálsum félagasamtökum, Í sumar myndaðist neyðarástand þegar 3600 manns sem ekki áttu peninga til að kaupa mat fékk ekki að borða vegna þess að frjáls félagasamtök sem eru með matargjafir lokuðu.

Með umræðunni vildi ég kalla eftir ábyrgð borgarinnar á fólki sem vegna fjárhagserfiðleika hefur orðið að setja allt sitt traust á félagasamtök. Á sama tíma og staða hagkerfisins er góð og borgin státar af hagnaði er engu að síður á fjórða þúsund manns sem ekki fær grunnþörfum sínum mætt eins og að fá að borða og þarf að treysta á matargjafir

Eftirfarandi var bókað:

Meirihlutinn í borgarstjórn setti á dagskrá lið um fjölmenningu, svona sjálfshrós fyrir að virða frelsi og fjölmenningu sjá. 1. lið á dagskrá fundar borgarstjórnar. Vissulega á að hrósa fyrir góða hluti en ég vildi minna á að í sumar stóðu 3600 manns fyrir framan lokaðar dyr frjálsra félagasamtaka þar sem þeir treystu á að fá mat.

Meirihlutinn í borginni virðist ekki hafa vitað af lokununum og ekki vitað um stöðu þessa stóra hóps fátæks fólks sem átti ekki til hnífs og skeiðar þegar félagasamtökin gátu ekki lengur veitt matargjafir.

Flokkur fólksins minnir á lögin að: „Sveitarfélag skal sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf“.

Af hverju virðir meirihlutinn í borgarstjórn ekki þessi lög? Hér er kallað eftir ábyrgð borgarmeirihlutans og að borgin sinni lögbundnum skyldum sínum. Ekki liggur fyrir hvort velferðarkerfið hafi athugað með þennan stóra hóp nú þegar vetur gengur í garð. Enginn á að þurfa að eiga lífsviðurværi sitt undir frjálsum félagasamtökum. Hér þarf greinilega að endurreikna fjárhagsaðstoð, í það minnsta þannig að hún dugi fólki fyrir mat.

Smá viðbót frá persónulegri hlið en ég þekki það alveg að það var ekki alltaf til matur heima hjá mér. Móðir mín, fjögurra barna einstæð kona sem vann í tvöfaldri vinnu til að ala önn fyrir fimm manns gat ekki alltaf séð til þess að matur væri á borðum.

Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga skrifaði ég grein Tómatsósa og smjörlíki sem byggð er á minningum um skort á mat. Í þá daga voru ekki frjáls félagasamtök þar sem hægt var að fá matargjafir eftir því sem ég man. Það voru frekar nágrannar og ömmur og afar sem reyndu að redda málum.

Tómatsósa og smjörlíki

Borgarstj. 17 nr 1


Reykjavík segir já en Seltjarnarnes segir nei

Bæjarráð Seltjarnarness neitaði að gangast í ábyrgð fyrir láni til Sorpu vegna 1,6 milljarða króna framúrkeyrslu. Öðru máli gegnir um borgarstjórann í Reykjavík sem hefur lagt fram tillögu um viðauka við fjárhagsáætlun vegna Sorpu fyrir árið 2019. Tillögunni er vísað áfram til borgarstjórnar. Á þeim vettvangi mun Flokkur Fólksins harðlega mótmæla að borgin gangi í ábyrgð fyrir mistök við fjárfestingaráætlun Sorpu.

Það er með ólíkindum að meirihlutinn í borgarstjórn skuli samþykkja þetta án þess að blikna. Finnst þeim það ekkert tiltökumál að borgarbúar greiði á annað milljarð vegna stjórnunarklúðurs sem sagt er vera mistök?

Byggðasamlög er fyrirkomulag sem hentar Reykjavík illa. Lýðræðishalli er mikill. Reykjavík greiðir mest en getur ekki í krafti atkvæða sinna tekið ákvarðanir nema njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga.

Á næsta borgarstjórnarfundi mun Flokkur fólksins leggja fram tillögu um að borgarstjórn samþykki að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu reykvíkinga að þeim.

Þótt Sorpa sé í eigu allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins þarf Reykjavík að bera þungann af fjármögnun hennar vegna íbúafjölda. Ef fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga á að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá auknu ábyrgð.

Seltjarnarnes neitar að gangast í ábyrgð


Hraða þarf uppsetningu hleðslustöðva

Það er aldrei lognmolla á fundum borgarráðs enda væri það bara leiðinlegt ef svo væri. Nokkrar tillögur og enn fleiri fyrirspurnir voru inn í morgun frá Flokki fólksins. Hér er ein tillaga þess efnis að drifið verði í að koma upp hleðslustöðum svo fólk geti farið að fá sér rafbíla þ.e. þeir sem kjósa það.
 
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að uppsetningu hleðslustöðva verði hraðað.
 
Lagt er til að sá tími sem áætlaður er í að setja upp 90 viðbótar hleðslustöðvar verði styttur um helming og verði þær komnar upp innan eins og hálfs árs í stað þriggja ára.
 
Komnar eru hlöður á nokkra staði í Reykjavík en betur má ef duga skal. Ljóst er að ef fólk getur ekki hlaðið rafbíla sína heima hjá sér og þarf að setja í samband við almenningshleðslur fælir það fólk frá að kaupa rafbíl en það mun tefja orkuskiptin. Það vantar hlöður í efri byggðir, t.d. Grafarvog og Breiðholt og reyndar miklu víðar. Þótt það séu hleðslustöðvar í hverfinu dugar það ekki ef aðeins er hægt að hlaða einn eða tvo rafbíla í einu.

Allar skuldir beint til lögfræðinga í innheimtu

Ný regla hjá Félagsbústöðum er að allar skuldir eru sendar beint í innheimtu hjá lögfræðingum. Þetta kom fram í kynningu á fundi velferðarráðs í vikunni. Mér, borgarfulltrúa Flokks fólksins, hugnast ekki þessi breyting, finnst hún ekki manneskjuleg.
Ég lét bóka eftirfarandi:

Borgarfulltrúi þakkar kynninguna. Það sem vekur áhyggjur er að Félagsbústaðir hafa fallið frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins. Ef fólk fer í skuld, stóra eða smáa er skuldin send kerfisbundið til lögfræðinga í innheimtu. Félagsbústaðir er fyrirtæki í eigu borgarinnar, sett á laggirnar til að halda utan um okkar verst settu borgarbúa. Enginn leikur sér að því að borga ekki. Margir hafa kvartað og stendur ógn af því Félagsbústaðir skuli siga á þá lögfræðingum eins og fólk orðar það sjálf. Oft er um að ræða fólk sem hefur staðið í skilum en eitthvað komið upp á. Dæmi er um að eins mánaða skuld er send umsvifalaust til t.d. Mótus. Það er umhugsunarefni að Félagsbústaðir skuli velja að beina skjólstæðingum í þessa átt í stað þess að gefa þeim tækifæri til að dreifa skuld sinni hjá Félagsbústöðum. Skjólstæðingar Félagsbústaða hafa lítið milli handanna og eru í viðkvæmri stöðu. Okkur í velferðarráði ber að hafa gagnrýna hugsun og taka allar ábendingar til greina og skoða með hvaða hætti hægt er að bæta starfsemina og gera enn betur í þágu notenda þjónustunnar. Reglur eru vissulega nauðsynlegar en þær þurfa að vera manneskjulegar, sanngjarnar og taka mið af aðstæðum hvers og eins.
 
Í kjölfarið kom ég með nýja tillögu:
Tillaga Flokks fólksins að fyrirtækið Félagsbústaðir haldi sjálft utan um greiðsludreifingu leiguskulda hjá leigjendum sínum og hætti alfarið að senda skuldir í innheimtu hjá lögfræðingum
Eins og fram kemur í kynningu hefur verið fallið frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir hætti við að falla frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins heldur semji sjálft við leigjendur sem komnir er í skuld. Félagsbústaðir eiga að hugsa um skjólstæðinga sína fyrst og fremst en ekki styrkja lögfræðinga.
 

Nauthólsvegur 100 ekki gleymdur

Á fundi borgarráðs var lagt fram yfirlit yfir ábendingar og niðurstöður í skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100.
Það er gott að vita til þess að ekki sé búið að gleyma braggamálinu og öðru þar sem farið var á svig við sveitarstjórnarlög s.s. ekki gerðir samningar og ekki farið í útboð svo fátt sé nefnt. Skýrslan um braggann er ein sú svartasta sem sést hefur og áfellisdómur á borgarkerfið. Fleiri slíkar skýrslu fylgdu í kjölfarið. Í skýrslunni rakti innri endurskoðandi fjölda atriða sem brást, þætti sem ekki er hægt að setja á reikning mistaka. Margstaðfest hefur verið að ábendingar hafa verið hunsaðar árum saman og hafa eftirlitsaðilar ítrekað bent á það í opinberum gögnum.

Hvað þessu yfirliti líður og að fara eigi í að laga hluti þá er engu að síður langt í land með að byggja upp traust í garð borgarkerfisins.
En vonandi liggur núna einhver alvara hér að baki!

 


Mistök Sorpu kosta borgina 1.6 milljarð

Það er þungt í mér vegna bakreiknings Sorpu upp á 1.6 milljarð sem borgarbúar eiga að greiða. Þessi byggðasamlög eru tómt rugl, þau koma alla vega illa út fyrir borgina sem er meirihlutaeigandi en ræður engu í þessum stjórnum. Formaðurinn í Sorpu er Kópavogsmaður. Hér er bókun Flokks fólksins í málinu sem rætt var í borgarráði í morgun:
 
Kostnaður við framkvæmdir Sorpu er vanáætlaður um 1.6 milljarð. Reikningurinn er sendur til eigendanna. Ætlar borgarmeirihlutinn að sætta sig við þetta? Stjórn Sorpu ber ábyrgð en stjórnkerfi Sorpu er ekki í lagi, frekar en hjá öðrum byggðasamlögum. Byggðasamlög, eru ekki góð tilhögun þar sem ábyrgð og ákvarðanataka fara ekki saman. Í þessu tilfelli er Reykjavík með einn fulltrúa í stjórn af 6 (17 % vægi), en á rúm 66 % í byggðasamlaginu. Ábyrgð fulltrúa Reykjavíkur er um 20 sinnum meiri er stjórnarmanns frá fámennasta sveitarfélaginu. Formaður Sorpu ætti því að koma frá Reykjavík. Sorpa ætlar að fresta framkvæmdum. Frestun er tap á umhverfisgæðum og fjármunum. Fresta á kaupum á tækjabúnað til að losa matvöru úr pakkningum. Ótal margt þarf að skoða annað t.d. er Sorpa ekki að flokka nægjanlega mikið á söfnunarstað. Flokkun er forsenda fyrir því að nýta úrganginn. Verðmæti eru í úrgangi sem verða að engu þegar mismunandi vöruflokkum er blandað saman. Hér er tekið undir orð formanns borgarráðs í fjölmiðlum að svona eigi ekki að geta gerst. Borgarfulltrúi er á móti því að veðsetja útsvarstekjur borgarinnar vegna vanáætlunar Sorpu sem sögð er vera vegna mistaka. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð.

Tillagan um að táknmálstúlka borgarstjórnarfundi vísað áfram

Tillaga Flokks fólksins að táknmálstúlka borgarstjórnarfundi var vísað til forsætisnefndar. Mér fannst viðtökurnar engu að síður frekar neikvæðar sem sést í þessari bókun:

Hér er um mannréttinda- og réttlætismál að ræða og á meirihlutinn ekki að sjá eftir fé sem fer í að túlka borgarstjórnarfundi. Íslenska og táknmál eru samkvæmt lögum jafn rétthá. Borgarfulltrúa þykir miður að hlusta á viðbrögð meirihlutans en borgarfulltrúi Samfylkingar í ræðu sinni talaði strax tillöguna niður og vildi meina að túlkun eins og þessi kostaði mikið álag, mikið fé og að ekki hefðu heyrst háværar raddir eftir þessari þjónustu o.s.frv. 

Það er ekki borgarfulltrúa að meta hvort táknmálstúlkun er erfið eða flókin eða kalli á mikinn undirbúning heldur þeirra sem ráðnir yrðu til að túlka. Að öðru leyti fagnar borgarfulltrúi Flokks fólksins að tillögunni var alla vega vísað áfram en hvorki felld né vísað frá á þessu stigi.


Sameining eða lokanir skóla oftast í óþökk foreldra

Í morgun var lagt fram 6 mánaða uppgjör borgarinnar. Yfir þessum tölum hvíldi mikil leynd þar til Kauphöllin opnaði. Nú hefur allri leynd verið aflétt. Það sem kemur mest á óvart er staða Skóla- og frístundarráðs. 49% af nettó útgjöldum í hlutfalli af skatttekjum borgarinnar fer til Skóla- og frístundarsviðs. Sviðið er með 1 m.kr umfram fjárheimildir. Engu að síður er vandi víða í skólamálunum. Öll vitum við orðið um ástand skólahúsnæðis víða vegna viðhaldsleysis sl. 10 ára með tilheyrandi afleiðingum, raka og leka (myglu). Nú liggur fyrir skýrsla innri endurskoðanda sem staðfestir þetta og fleiri vandamál. Í skýrslunni segir að mismunandi skilningur er á milli skólastjórnenda og fjárveitingarvaldsins hjá Reykjavíkurborg um hversu mikið fjármagn þarf til að reka grunnskóla í borginni. Lítið svigrúm er til hagræðingar innan skólanna og gripið er til sameiningar og lokana oftast í óþökk foreldra og jafnvel skólastjórnenda. Í sérkennslu fara um 5 milljarðar en sérkennslan er ekki árangursmæld og því óljóst hvort hún sé að skila sér sem skyldi til barna sem hennar njóta.

Það er erfitt að átta sig á hvert borgarmeirihlutinn er að fara í skólamálum borgarinnar. Kapp er lagt á að allt lítið vel út á yfirborðinu, skóli án aðgreiningar og allt það. Af þessu að dæma má e.t.v. hlýtur það að liggja í augum uppi að fé sem veitt er í skólakerfið sé einhvern veginn ekki að nýtast.


Enga forræðishyggju og engar öfgar í skólamötuneytum

Svakalegt að hlusta á Kastljós. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 13. september að borgin skilgreini þjónustusamninga mötuneyta borgarinnar og bjóði rekstur þeirra út. Í greinargerð með tillögunni segir að markmiðið er að skilgreina gæði mötuneytisfæðis betur og auka gæðin. Auk þess eru vísbendingar um að þetta fyrirkomulag er hagstæðara en það sem nú ríkir sbr. niðurstöður útboða í nágrannasveitarfélögunum, Hafnarfirði, Garðabæ og fleiri. Í þessu þarf að horfa til hráefnis, launa og rekstrarkostnaðar.
Tillagan var felld.

Til að hægt sé að hafa þetta almennilegt verður að vera aðstaða í öllum skólum, ekki bara sumum. Að draga úr dýraafurðum eins og Líf Magneudóttir boðar eru miklir öfgar. Vissulega á að draga úr unnum kjötvörum ef það hefur þá ekki þegar verið gert. Þeim má skipta út fyrir hreina vöðva eða lítið unna og grófhakkaða kjötrétti, með fáum innihaldsefnum. Kannski er þetta dýrara en þá komum við að fyrirkomulaginu í borginni varðandi skólamötuneytin. Fyrirkomulagið sem nú ríkir í mörgum skólum bíður ekki upp á hagkvæmni.
 
Enga forræðishyggju og engar öfgar í skólamötuneytum
 
Í skólamatnum á að vera val, bjóða ætti upp á tvo rétti, aðalrétt sem er hefðbundin matur skv. ráðleggingum Landlæknisembættisins um mat í mötuneytum grunnskóla, en samhliða því er boðið upp á annan rétt, svokallaðan „hliðarrétt“, sem er „vegan“ matur, þ.e. matur án dýraafurða. Það er sennilega rúmlega 10% nemenda og starfsfólks sem nýta sér síðari kostinn. Með þessu er hægt að koma til móts við þarfir „grænkera“ en einnig að kynna þennan valkost fyrir öllum. Varðandi kolefnisfótspor grænkerafæðis þá þarf að gera sérstaka úttekt á því áður en ályktað er um það, eða vitna í rannsókn. Mjög gott væri ef hægt er að bjóða upp á „meðlætisbar“ þ.e. salatbar með ávöxtum og tegundum af grænmeti, alla daga. Þetta má bjóða fram á aðlaðandi hátt til að auka neyslu á ávöxtum og grænmetis meðal nemenda. Hollur og ferskur matur er aðalatriðið fyrir börnin og að hann sé sem mest eldaður frá grunni í eldhúsum skólanna. Ég kalla hér með eftir fleiri skólamötuneytum sem elda matinn sem mest frá grunni! Undirbúa má margt í miðlægu eldhúsum en elda á aðalréttinn í skólaeldhúsinu sjálfu.
 
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband