Mótmæli að Innri endurskoðun ráðist í heildarúttekt á braggabullinu
11.10.2018 | 13:28
Því var mótmælt í morgun á fundi borgarráðs að Innri endurskoðun verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér.
Eftirfarandi bókun var gerð af borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Innri endurskoðun hér eftir vísað í sem IE getur varla talist óháð í þetta verkefni vegna ákveðinna tengsla og þeirra upplýsinga sem hún hefur haft allan tímann um framvindu endurbyggingar braggans. Í því ljósi munu niðurstöður heildarúttektar IE, þegar þær liggja fyrir varla álitnar áreiðanlegar. Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að koma með ábendingar í ferlinu jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á svig við vandaða stjórnsýsluhætti. Að IE ætli nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti er þar að leiðandi óraunhæft að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og mun varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna.
Fulltrúi frá Innri endurskoðun var þessu ekki sammála og til að gæta alls réttlætis birtist hér viðbrögð IE:
Hér er enn og aftur misskilningur á hlutverki IE.
Við höfum gjarnan skilgreint innra eftirlit upp í þrjár varnarlínur. Gróflega er það svo að í fyrstu línu eru framkvæmdirnar, annarri línu þeir sem bera ábyrgð á verklaginu og gerð verkferla. Í þriðju línu er Innri endurskoðun sem hefur það hlutverk að meta virkni innra eftirlits á hverjum tíma. Það er það sem Innri endurskoðun hefur haft að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Til þess að halda óhæði okkar er mikilvægt að tryggja að við séum utan við framkvæmd stjórnkerfisins. Við höfum í gegnum tíðina gert úttektir á sviði innkaupa, útboða og stjórnsýslu til að meta og sannreyna virkni innra eftirlits og höfum komið ábendingum á framfæri m.a. við borgarráð. Það er ekki á ábyrgð né hlutverk Innri endurskoðunar að vera þátttakandi í framkvæmdum.
Rannsakaði dúnmel í 15 ár
11.10.2018 | 07:06
Það er ótrúlegt að sækja þetta til Danmerkur þegar tegundin er til víða hér á landi, segir Jón Guðmundsson plöntulífeðlisfræðingur í samtali við Fréttablaðið. Strá sem gróðursett voru fyrir utan braggann í Nauthólsvík, sem fór hraustlega fram úr kostnaðaráætlun, kostuðu Reykjavíkurborg 757 þúsund krónur. DV greindi fyrst frá því.
Stöð 2 greindi svo frá því í kvöld að keyptar hafi verið 800 plöntur á 950 krónur stykkið. Kostnaður við gróðursetningu hafi numið 400 þúsund krónum til viðbótar. Heildarkostnaðurinn við stráin, sem heita Dúnmelur á íslensku, var því 1.157 þúsund krónur.
Sjá einnig: Borgarstjóri segir braggamál kalla á skýringar
Jón segir að hann hafi rannsakað dúnmel á árunum 1990 til 2005 en þess má geta að hann er eiginmaður Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins. Hann hafi plantað nokkrum fræjum í Rangárvallasýslum. Þessi planta er búin að vera til á landinu í 60 til 70 ár. Hann segist undrandi á því að þessar upplýsingar séu ekki á allra vitorði sem að svona málum koma.
Dúnmelur er náskyldur melgresi, sem vex mjög víða á Íslandi. Hann má að sögn Jóns meðal annars finna við Hafnarfjörð. Það eru breiður af þessu við Hvaleyrarvatn, segir hann og heldur áfram. Ég var sjálfur beðinn um þessa tegund af fyrirtæki í bænum. Ég fór bara í reit í nágrenninu og færði þeim nokkur eintök, útskýrir hann.
Til gamans má geta að þegar leitað er að orðinu dúnmelur á Wikipediakoma fram upplýsingar um útbreiðslu á Íslandi. Honum hefur verið sáð á Íslandi til að græða upp foksanda. Vísað er í þrjár heimildir.
Dýraníð ZERO TOLERANCE!!!!
8.10.2018 | 17:34
Það er fátt sem veldur mér eins miklum viðbjóði og andlegri vanlíðan og dýraníð. Ég get ekki horft á myndir af slíku en bregði fyrir frétt af dýraníði er dagurinn ónýtur hjá mér og oftast nær nóttin á eftir líka. Ég verð algerlega miður mín, fyllist brjálaðri reiði, fer að gráta, mér verður óglatt, get ekki um annað hugsað en get ekkert gert í stöðunni. Ég spyr mig stöðugt hvers konar mannvera getur gert svona? Hver hefur það í sér að pynta sér til gamans ómálga, varnarlausar lífverur sem eiga allt undir okkur mannskepnunni? Um orsakir? Það eitt tel ég víst að sá fullorðinn einstaklingur sem þetta gerir er ýmist alvarlega andlega sjúkur eða illur nema hvort tveggja sé. Þeir sem gera svona af barnaskap, í fíflagangi eða af því þeir eru áhrifagjarnir eiga eftir að líða illa þegar þeir hafa fengið ögn meiri þroska. Sé um að ræða börn má telja víst að þeim líður hræðilega illa með sjálfa sig af einhverjum orsökum, innri og/eða ytri. Ég hef margsinnis hitt fólk sem gerði svona lagað á yngri árum og gæfi mikið til að hafa ekki gert þetta því samviskan er að drepa það. Minningin um svona viðbjóðslegar gjörðir elta jafnvel alveg fram á grafarbakkann. Við verðum að reyna að gera allt til að sporna við svona löguðu. Ef við höfum einhvern grunaðan eða verðum vitni af svona löguðu þá að reyna að ná til hans, ræða við hann, fá aðstoð fyrir hann, vakta hann..., láta Matvælastofnun eða lögreglu vita. ZERO TOLERANCE!!!!
Ískaldar kveðjur frá borgarmeirihlutanum til fyrrverandi starfsmanna
7.10.2018 | 12:11
Það er ákveðinn hópur sem situr eftir í sárum vegna óleystra eineltismála á starfsstöðvum borgarinnar. Hér er bæði um fyrrverandi og núverandi starfsmenn. Þess vegna lagði Flokkur fólksins til eftirfarandi á síðasta borgarstjórnarfundi:
Lagt er til að borgarstjórn kalli eftir ábendingum/upplýsingum frá núverandi/ fyrrverandi starfsmönnum borgarinnar sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi á starfsstöðvum borgarinnar. Lagt er til að skimað verði hvort þolendur telji að kvörtun/tilkynning hafi fengið faglega meðferð.
Lagt er til að hvert þeirra mála sem kunna að koma fram verði skoðuð að nýju í samráði við tilkynnanda og ákvörðun tekin í framhaldi af því hvort og þá hvernig skuli halda áfram með málið.
Lagt er til að mannauðsdeild verði falið að taka saman upplýsingar um fjölda starfsmanna (tímarammi ákveðinn árafjöldi aftur í tímann) sem telja sig hafa orðið fyrir einelti/kynferðislegri áreitni/kynbundnu ofbeldi í störfum sínum hjá Reykjavíkurborg.
Fram komi hversu mörg mál hafi leitt til starfsloka þolanda, hvernig tekið hafi verið á málum, hvort og hvernig gerendum í þeim málum sem einelti hafi verið staðfest hafi verið gert að taka ábyrgð.
Lagt er til að metið verði til fjár hver fjárhagslegur kostnaður/skaði borgarinnar er vegna eineltis/kynferðislegrar áreitni/ kynbundins ofbeldis á starfsstöðvum borgarinnar.
Þessi tillaga féll ekki vel í kramið hjá meirihlutanum sem vísaði henni frá þrátt fyrir að fullyrða að þau láti sig þessi mál varða fyrir alvöru með meetoo dæmið og allt það. Borgarfulltrúum Flokks fólksins og Miðflokksins þóttu þetta kaldar kveðjur og lögðu fram bókun þar sem fram kom að þessi afgreiðsla er líkleg til auka enn frekar á sársauka þeirra sem sitja með sárt ennnið vegna eineltismála hjá borginni.
Braggi fyrst og börnin svo
7.10.2018 | 10:48
Það er hægt að eyða í bragga en ekki börnin.
Hér er svar borgarmeirihlutans við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað mörg börn í Reykjavík búa undir fátæktarmörkum
Eftirfarandi bókun var gerð af borgarfulltrúa Flokks fólksins: Borgarfulltrúa finnst það æði dapurt að tæp 500 börn búi undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð í Reykjavík, í borg sem teljast má rík að flestöllu leyti. Þessar tölur eru með ólíkindum og enn sorglegra er að sjá hversu miklu munar eftir hverfum. Í Breiðholti má sjá hvernig borgarmeirihlutanum hefur mistekist þegar kemur að félagslegri blöndun en í Breiðholti er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Þessar tölur sýna að forgangsröðunin er verulega skökk í borginni þegar kemur að útdeilingu fjármagns. Um sóun og fjárhagslegt bruðl borgarmeirihlutans eru mörg nýleg dæmi og er skemmst að minnast hundruð milljóna fjárfestingu í hégómleg verkefni eins og uppbyggingu bragga í Nauthólsvík, Mathöll á Hlemmi og fleira mætti telja til.
Ég er ekki sátt við að það standi 90 íbúðir auðar hjá Félagsbústöðum
1.10.2018 | 20:20
Ég er ekki sátt að 90 íbúðir séu auðar hjá Félagsbústöðum vegna standsetningar. Á sama tíma berast fréttir um að einhverjum sé gert að búa í mygluðu húsnæði á þeirra vegum sem ekki hefur fengist lagað. Var eignum Félagsbústaða ekki haldið við árum saman? Minnumst þess einnig að 1000 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Það er eitthvað í þessu sem ekki stenst. Þess vegna er mikilvægt að fá upplýsingar um ástæður t.d. um hvers lags viðgerðir hér um ræðir og tímalengd viðgerðanna. Á síðasta borgarráðsfundi lagði Flokkur fólksins fram eftirfarandi bókun og fyrirspurnir:
Flokki fólksins finnst furðu sæta að 90 íbúðir eru lausar vegna standsetningar
1. Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum 90 íbúðum.
2. Hvenær hófust viðgerðir?
3. Á hvaða stigi eru þær?
4. Hvenær verður þeim lokið?
5. Af hverju eru svo margar íbúðir óstandsettar?
6. Hverjar eru ástæðurnar?
Hættum að þjösnast
1.10.2018 | 20:15
Inntökuskilyrði í Klettaskóla eru of ströng. Í skólanum eru 130 nemendur en upphaflega var gert ráð fyrir að þar stunduðu innan við hundrað nemendur nám. Foreldrar sem hafa óskað eftir vist fyrir barn sitt í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla hafa orðið frá að víkja ef fyrirsjáanlegt er að barnið nær ekki þeim viðmiðunum, stundum naumlega, sem inntökuskilyrðin gera ráð fyrir. Eðli málsins samkvæmt er því enginn biðlisti í Klettaskóla að heitið geti. Nemendur með miðlungs eða væga þroskahömlun stunda öllu jafnan nám í almennum bekk, sum með stuðning og í sérkennslu. Einn þátttökubekkur er rekinn í tengslum við Klettaskóla. Hann var settur á fót 2013 og eru sömu inntökuskilyrðin í hann og Klettaskóla.
Vaxandi vanlíðan
Í ljósi vaxandi vanlíðunar barna, aukins sjálfsskaða og aukinnar tíðni sjálfsvígshugsana samkvæmt niðurstöðu sem birtist í nýlegri skýrslu Embættis landlæknis er hér um alvarlegan hlut að ræða í skólakerfi Reykjavíkur. Skóli án aðgreiningar er sú stefna sem Reykjavíkurborg rekur í skólamálum. Ef skóli án aðgreiningar á að vera fyrir öll börn þarf að fylgja honum fullnægjandi fjármagn til að hægt sé að bjóða börnum með væga og miðlungs þroskahömlun og börnum með aðrar sérþarfir þjónustu við hæfi. Um er að ræða þjónustu þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, aðgengi að sálfræðingi, sérkennara, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðinga og náms-og félagsráðgjafa. Þetta er ekki raunveruleikinn í skólakerfi Reykjavíkurborgar.
Í Reykjavík er ekki nægjanlega hlúð að börnum með þroskahömlun í skóla án aðgreiningar. Börn með væga og miðlungs þroskahömlun eru mörg sett í ólíðandi skólaaðstæður í boði borgarinnar. Mörg eru einangruð, einmana og finna sig ekki í aðstæðunum þar sem þau geta ekki það sama og hin börnin. Þeim finnst þau vera öðruvísi og eignast ekki vini á jafningjagrunni.
Hvað segja foreldrar barna með þroskahömlun?
Kannanir hafa verið gerðar hjá Reykjavíkurborg en í engri þeirra koma fram skoðanir foreldra þroskahamlaðra barna. Rætt er um sérþarfir í könnunum sem er mjög vítt hugtak og getur vísað til alls mögulegs s.s. lesblindu, málþroskaröskun, ADHD en ekki endilega til þroskahamlana á borð við vitsmunaþroskaskerðingu.
Börn með þroskahömlun og foreldrar þeirra eru viðkvæmur hópur. Þetta er ekki háværasti hópurinn í samfélaginu. Allir foreldrar vilja það besta fyrir börn sín, að þau fái þjónustu við hæfi og séu í aðstæðum þar sem þau geta notið sín í undirbúningnum undir lífið. Margir foreldra barna með þroskahömlun bera kvíðboga fyrir börnum sínum nú og til framtíðar og svíður að hafa ekki val um skóla- og námsúrræði sem hentar þeim betur.
Hvert er stefnt?
Borgarmeirihlutinn hefur staðfest að ekki verði sett á laggirnar fleiri sérskólaúrræði með því að fella tillögur þess efnis sem lagðar voru fram í borgarstjórn. Tillögurnar voru felldar á þeim grundvelli að ekki sé þörf fyrir fleiri og fjölbreyttari sérúrræð fyrir nemendur með þroskahömlun. Þetta samræmist ekki því sem foreldrar barna með miðlungs eða væga þroskahömlun segja. Ný tillaga hefur verið lögð fram í Skóla- og frístundaráði um að rýmka inntökureglur í þátttökubekki. Til stóð upphaflega að bekkirnir yrðu fjórir en í dag er aðeins einn slíkur bekkur og er hann fullsetinn. Með því að bæta við þátttökubekk og rýmka inntökuskilyrðin svo þau nái utan um börn með væga og miðlungs þroskahömlun mun koma í ljós hver hin raunverulega þörf er. Fjölgi umsóknum í þátttökubekk ætti síðan að vera í lófa lagið að fjölga þeim eftir þörfum.
Hættum að þjösnast áfram í þessum málum og rembast við að steypa öll börn í sama mót. Skóli án aðgreiningar er rekinn af vanefnum í Reykjavík og er því ekki í þágu allra barna. Segja má að tvennt standi til boða að gera, annars vegar að gera skóla án aðgreiningar fullnægjandi fyrir öll börn eða fjölga sérúrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefnið er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt.
Fátæk börn í Reykjavík eru 2% af öllum börnum 17 ára og yngri
25.9.2018 | 10:01
Á tímabilinu janúar-maí 2018 voru börn þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu samtals 489 eða tæplega 2% af öllum börnum 17 ára og yngri í Reykjavík. Þetta er svar fyrirspurnar Flokks fólksins um fjölda barna undir framfærsluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Langflest eða 153 búa í Breiðholti. Fæst eru í Grafarvogi og Kjalarnesi eða 55. Því má viðbæta að fjöldi barna skipt eftir þjónustumiðstöðvum og fjöldi barna per foreldra með fjárhagsaðstoð af einhverju tagi hjá velferðarsviði Reykjavíkur eru 784, flest í Breiðholti eða 218 og fæst í Grafarvogi og Kjalarnesi. Ef einhver hefur áhuga á að fá svar velferðarsviðsins í heild sinni þá er velkomið að senda það
Vil að borgarstjóri sé heiðarlegur og axli ábyrgð í braggamálinu
22.9.2018 | 11:53
Ég sem borgarfulltrúi Flokks fólksins var með bókun í þessu máli sem Miðflokkurinn tók einnig þátt í. Nú hefur Minjastofnun sent frá sér yfirlýsingu og er mér brugðið. Ég verð bara að segja að það er sérstakt að sjá hvernig borgarstjóri reynir að varpa frá sér ábyrgð, kenna Minjastofnun m.a. um sem sver þetta af sér.
Öðrum var einnig kennt um þessa umframkeyrslu í bragga endurbyggingunni eins og sjá má í tillögu sem ég gerði í þessu máli um að kalla eftir endurgreiðslum (sjá fundargerð) og það er HR. Tillagan kom til því Minjastofnun og HR voru sögð ábyrg fyrir þessu að minnsta kosti að hluta til. En hvernig kemur HR að þessu og hversu mikið greiðir skólinn? Ég mun leggja þá fyrirspurn fram næst ef það verður þá ekki þegar upplýst.
Ég bið bara um að borgarstjóri sé heiðarlegur, horfist í augu við mistökin og axli ábyrgð.
Náðhúsið kostaði 46 milljónir
20.9.2018 | 15:16
Vil að kosið verði um borgarlínu sérstaklega
18.9.2018 | 16:16
Það er ljóst að borgarmeirihlutinn ætlar að hefja á uppbyggingu borgarlínu þrátt fyrir að mörg óleyst önnur brýn verkefni sem varðar grunnþarfir borgarbúa hafa ekki verið leyst. Er ekki nær að byrja á fæði, klæði og húsnæði fyrir alla áður en ráðist er í slíkt mannvirki sem borgarlína er. Að koma þaki yfir höfuð allra í Reykjavík, að eyða biðlistum svo börn fái þá þjónustu sem þau þurfa. Að setja þarfir borgarbúa í fyrsta sæti. Fólkið fyrst!
Í tillögu borgarmeirihlutans sem nú hefur verið lögð fram í borgarstjórn er ekki stafkrókur um kostnað, skiptingu hans milli ríkis og borgar og hlutfall annarra sveitarfélaga í þessari risaframkvæmd. Og enn skal þenja báknið með ráðningu verkefnastjóra, nokkurra.
Það er virðingarvert að ætla að efla almenningssamgöngur í borginni en Flokkur fólksins vill vita hvar á að taka þessa. En hvað segja borgarbúar? Vita þeir allir út á hvað þetta verkefni gengur, hvernig það muni koma við pyngju þeirra og hvaða áhrif það kann að hafa á aðra þjónustu í borginni?
Áður en ráðist verður í þetta verkefni er það lágmarksvirðing við borgarbúa að þeir verði upplýstir af óháðum aðilum um hvert einasta smáatriði þessu tengdu og í kjölfarið gefist þeim kostur á að kjósa um hvort hefjast eigi handa við þetta verkefni í samræmi við tillögu borgarmeirihlutans.
Á ekki að standa við gefið loforð?
16.9.2018 | 08:50
Ég hef vakið athygli á því að Reykjavíkurborg hafi ekki ennþá endurgreitt öllum leigjendum Brynju, hússjóðs Öryrkjabandalagsins, sérstakar húsaleigubætur, afturvirkt með dráttarvöxtum, líkt og samþykkt var í borgarráði þann 3. maí síðastliðinn í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar.
Árið 2015 höfðaði einn leigjandi Brynju hússjóðs mál gegn Reykjavíkurborg þar sem honum hafði verið synjuð umsókn um sérstakar húsaleigubætur á þeim forsendum að hann leigði húsnæði hjá hússjóði Öryrkjabandalagsins, en ekki hjá Félagsbústöðum eða á almennum markaði. Höfðaði hann mál gegn Reykjavíkurborg á þeim forsendum að óheimilt væri að mismuna borgurum eftir búsetu.
Héraðsdómur Reykjavíkur tók kröfu leigjandans til greina og var synjun Reykjavíkurborgar felld úr gildi, þann 17. apríl 2015. Dómstóllinn komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg hefði með ólögmætum hætti takmarkað óhóflega og með ómálefnalegum hætti skyldubundið mat sitt á aðstæðum fólks. Síðar fór málið fyrir Hæstarétt hvar niðurstaðan var staðfest.
Reykjavíkurborg fól velferðarsviði borgarinnar að afgreiða kröfurnar, til allra leigjenda Brynju hússjóðs, án tillits til þess hvort þau áttu umsókn inni eða ekki. Einnig var samþykkt að greiða dráttarvexti af öllum kröfum, aftur í tímann, án tillits hvort gerð hafði verið krafa um dráttarvexti eða ekki.
Óljós svör leiða til kvíða
Nú er ekki vita hvar málið standi innan velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, en veit þó til þess að margir leigjendur hafi enn ekki fengið neina endurgreiðslu, þó svo komnir séu rúmir fjórir mánuðir frá ákvörðun borgaryfirvalda um endurgreiðslurnar:
Þeir leigjendur sem leitað hafa til mín segja svör borgarinnar afar óljós og jafnvel séu engin svör veitt. Ég veit ekkert hversu margir hafa fengið endurgreitt, ef einhverjir, en þetta eru eitthvað um 460 manns. Þessi ákvörðun var tekin rétt fyrir kosningar og glöddust þá margir, en nú fjórum mánuðum síðar eru leigjendur orðnir óþreyjufullir og jafnvel kvíðnir yfir því að þetta sé ekkert að koma, því þetta er auðvitað baráttumál til 10 ára,
Ég hyggst taka málið upp á borgarráðsfundi á fimmtudag.
Bókun borgarráðs frá 3. maí er eftirfarandi:
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 728/2015 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Reykjavíkurborg hefði verið óheimilt að synja umsækjenda um sérstakar húsaleigubætur á þeim forsendum að hann leigði íbúð af Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins. Á grundvelli þessa dóms hefur nú þegar verið gengið frá greiðslum til allra þeirra sem eru í samskonar aðstæðum og umræddur dómur tekur til og uppfylla kröfur um greiðslur sérstakra húsaleigubóta að öðru leyti. Dómurinn tekur hins vegar ekki á því álitaefni hvort leigjendur Brynju, hússjóðs ÖBÍ, sem ekki höfðu lagt inn umsókn, ættu rétt til sérstakra húsaleigubóta. Því er lagt til að borgarráð samþykki að fela velferðarsviði Reykjavíkurborgar að afgreiða kröfur um greiðslu sérstakra húsaleigubóta frá leigjendum Brynju, hússjóðs ÖBÍ, án tillits til þess hvort að umsókn hafi legið fyrir, sbr. nánari umfjöllun í meðfylgjandi minnisblaði. Þá er einnig lagt til að velferðarsvið Reykjavíkurborgar greiði dráttarvexti til þeirra sem eiga rétt á greiðslum sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann án þess að gerð sé sérstök krafa um það. Jafnframt er lagt til að velferðarsvið leiti liðsinnis Öryrkjabandalagsins við að vekja athygli þeirra einstaklinga sem hugsanlega eiga rétt til greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann í samræmi við tillögu þessa. R17080174
Samþykkt.
Gæludýr skipa iðulega stóran sess í hjörtu eigenda þeirra
16.9.2018 | 08:41
Tillaga hefur verið lögð fram þess efnis að leyfa hunda- og kattahald í félagslegu húsnæði í eigu borgarinnar. Leyfið er háð þeim skilyrðum að ef um sameiginlegan inngang eða stigagang er að ræða er hunda- og kattahald háð samþykki 2/3 hluta eigenda. Ef um sérinngang er að ræða er gæludýrahaldið leyfilegt. Þetta er í samræmi við Samþykkt um hundahald í Reykjavík dags. 16. maí 2012.
Ekkert getur komið í stað tengsla við aðra manneskju en gæludýr getur uppfyllt þörf fyrir vináttu og snertingu. Gæludýr þar með talið hundar og kettir eru hluti að lífi fjölmargra og skipa stóran tilfinninga- og félagslegan sess í hjörtu eigenda þeirra. Öll þekkjum við ýmist persónulega eða hjá vinum og vandamönnum hvernig gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt, ekki síst hjá þeim sem eru einir og einmanna. Átakanleg eru þau fjölmörgu tilvik þar sem fólk hefur orðið að láta frá sér hundana sína vegna þess að þeir eru ekki leyfðir í félagslegum íbúðum á vegum borgarinnar.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif af umgengni manna við dýr. Rannsóknir sýna að umgengni við dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan og eykur m.a. sjálfstraust, einbeitingu, athygli og minnkar streituviðbrögð. Dýr veita einstaklingnum vinskap, líkamlega snertingu og sýnir áhuga og væntumþykju án nokkurra skilyrða. Ást til gæludýrsins síns getur verið djúpstæð. Hundar og kettir sem dæmi eru oft hluti af fjölskyldunni. Sú sorg sem nístir þegar gæludýr fellur frá eða aðskilið frá eiganda sínum þekkjum við mörg, ef ekki af eigin reynslu þá annarra. Að banna gæludýr eins og hunda og ketti í félagslegu húsnæði borgarinnar er ómanneskjulegt og ástæðulaust.
Lagt fram í borgarráði 13. september af borgarfulltrúa Flokkur Folksins
Braggar fyrst og börnin svo?
4.9.2018 | 18:22
Það er sárt að sjá að borgin ákvað að endurnýja bragga fyrir 415 milljónir í stað þess að fjármagna frekar í þágu þeirra sem minna mega sín og barnanna í borginni. Nýlega hefur borgin fellt tillögu Flokks fólksins um að hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Fyrir 415 milljónir hefði mátt metta marga litla munna!!!
Borgarfulltrúi Flokks fólksins gefst ekki upp og leggur tillöguna aftur fyrir á þessum fundi en núna þannig að lækka gjald fyrir skólamáltíðirnar um þriðjung.
Hjá Velferðarsviði liggur enn óafgreidd tillaga um að lækka gjald frístundarheimila fyrir foreldra sem eru undir framfærslumiðviði Velferðarráðuneytis.
Börnin eru langt því frá að vera í forgangi hjá núverandi meirihluta að mati Flokks fólksins. Biðlistar eru hvarvetna, börn bíða eftir sálfræðiþjónustu, vitsmunagreiningum, 128 börn á biðlista eftir leikskólaplássi og á biðlista eftir félagslegu húsnæði eru 418 börn ásamt fjölskyldum sínum, samkvæmt nýlegri greiningu biðlistans.
Meirihlutinn meðvirkur
31.8.2018 | 08:40
Tillögur felldar hver af annarri. Á fundi borgarráðs í gær var önnur tillaga Flokks fólksins er varðar Félagsbústaði felld. Tillögur er varða Félagsbústaði eru tilkomnar vegna fjölmargra kvartanna sem borist hafa allt frá því í kosningabaráttunni.
Eftirfarandi bókun var gerð á fundinum í gær:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi starfs verið að reyna að koma því áleiðis til borgarmeirihlutans að hjá Félagsbústöðum er margslunginn vandi m.a. viðmótsvandi og viðhaldsvandi og er álit þetta byggt á þeim fjölmörgum kvörtunum sem borist hafa. Ein tillaga Flokks fólksins, sem lögð var fyrir borgarstjórn 19. júní og varðaði úttekt óháðs aðila á Félagsbústöðum s.s. leigusamningum og hvernig þeir eru kynntir leigjendum hefur nú þegar verið felld af meirihlutanum. Tillagan um að borgin hefji þá vinnu að skoða með raunhæfum hætti hvort færa eigi Félagsbústaði aftur undir A-hluta borgarinnar hefur nú einnig verið felld. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst hann tala fyrir daufum eyrum meirihlutans og upplifir meirihlutann jafnvel vera meðvirkan með ástandinu enda hefur ekki verið tekið undir neinar ábendingar eða athugasemdir sem fram hafa verið lagðar í þessu sambandi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins væri ekki að vinna vinnuna sína ef hann hlustaði ekki á borgarbúa í þessu efni sem öðru. Fyrirtæki undir B hluta borgarinnar á ekki að vera fjarlægt hvorki minnihlutanum né fólkinu sem það þjónar. Starf borgarfulltrúa felst m.a. í því að fylgjast með öllum borgarrekstrinum og hafa afskipti ef á þarf að halda og mun borgarfulltrúi halda áfram að gera það í þeirri von að tekið verði á vandanum fyrir alvöru og til framtíðar.
Tvær aðrar tillögur þessu tengdar verða lagðar fyrir fund borgarstjórnar næstkomandi þriðjudag:
- Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun á þjónustu Félagsbústaða. Lagt er til að fenginn verði óháður aðili til að gera könnun á þjónustumenningu Félagsbústaða í tengslum við samskipti starfsmanna fyrirtækisins við leigjendur. Við framkvæmd könnunarinnar skal leita til núverandi og fyrrverandi leigjenda og þá sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í dag og óska eftir að þeir taki þátt í könnuninni og veiti upplýsingar um álit sitt á viðmóti, viðhorfi og framkomu starfsmanna Félagsbústaða í þeirra garð. Greinargerð fylgir
https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/64_tillaga_f_konnunfb_0.pdf
- Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fenginn verði óháður aðili til að meta viðhaldsþörf hjá Félagsbústöðum þar sem kvartanir hafa borist vegna myglu eða annarra galla. Lagt er til að þegar ágreiningur er uppi á milli leigjanda og Félagsbústaða verði fenginn óháður aðili til að leggja mat á viðhaldsþörfina. Í matinu skal jafnframt koma fram hvers lags viðgerða sé þörf og hvort viðgerðir hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti. Greinargerð fylgir.
https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/58_tillaga_f_vidhaldfb_0.pdf
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins
Netfang: kolbrun.baldursdottir@reykjavik.is
- 899-6783
Mannekla í leikskólum virðist viðvarandi vandamál í borginni, enn eru 128 börn á biðlista
28.8.2018 | 07:10
Vetrarstarfið er nú hafið í leik- og grunnskólum og enn vantar í margar stöður á leikskólum borgarinnar. Eftir er að ráða í 61,8 stöðugildi í leikskólum miðað við grunnstöðugildi ásamt 22,5 stöðugildum sem vantar í afleysingu og enn eru 128 börn á biðlista eftir leikskólaplássi.
Þessi staða er með öllu óásættanleg. Mannekla í leikskólum er ekki nýtt vandamál og því þykir það sérkennilegt að borgin hafi ekki geta tekið á því með mannsæmandi hætti fyrir löngu, byrgt brunninn áður en vandinn varð svo stór að hann virðist óviðráðanlegur.
Ýmsar tillögur að lausn liggja fyrir og margar sannarlega metnaðarfullar. Álagið sem þessu fylgir er ekki boðlegt börnunum og foreldrum þeirra hvað þá starfsfólki leikskólanna.
Ganga þarf lengra til að staðan verði fullnægjandi og til þess þarf meira fjármagn í málaflokkinn. Einkum tvennt hlýtur að skipta hvað mestu máli og það eru launin annars vegar og álag hins vegar. Alltof lengi hefur borgin sýnt stétt leikskólakennara og starfsmönnum leikskólanna lítilsvirðingu að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar kemur að launamálum. Inn í þetta spilar starfsálag sem hefur verið enn frekar íþyngjandi vegna langvarandi manneklu.
Það er ekkert sem skiptir meira máli en börnin okkar og allt sem varðar þau á borgin að setja í forgang þegar kemur að úthlutun fjármagns.
Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að umræðu við ríkið til að kanna hvort veita þurfi lífeyrissjóðum sérstaka lagaheimild til að setja á laggirnar leigufélög. Samhliða er lagt er til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að leita eftir samvinnu og samstarfi við lífeyrissjóðina um að koma á laggirnar leigufélögum og muni borgina skuldbinda sig til að leggja til lóðir í verkefnið. Hugsunin er að hér sé um fyrirtæki að ræða sem hefur það ekki að markmiði að græða heldur munu sanngjarnar leigutekjur standa undir rekstri og viðhaldi eigna sem fjármagnið hefur verið bundið í. Hér er einnig verið að vísa til lífeyrissjóða sem skila jákvæðri ávöxtun á fé sjóðanna. Um er að ræða langtíma fjárfestingu fyrir sjóðina enda sýnt að það borgi sig að fjárfesta í steinsteypu eins og hefur svo oft sannast á Íslandi.
Greinargerð
Hjá lífeyrissjóðunum liggur mikið fé sem skoða mætti að nota til bygginga íbúða fyrir efnaminni einstaklinga sem eru og hafa verið í húsnæðisvanda eins og fram kemur í tillögunni Segja má að félagslega íbúðarkerfið sé í molum. Biðlistar þeirra sem sótt hafa um félaglegt húsnæði eru lengri en fyrir fjórum árum og sífellt berast kvartanir um að íbúðum sé ekki viðhaldið sem skyldi og að leiga hafi hækkað það mikið að hún er að sliga marga leigendur. Húsnæðisvandinn hefur tekið á sig æ alvarlegri myndir og þarf stórátak til að koma honum í eðlilegt horf. Grípa þarf til fjölbreyttra aðgerða til að mæta þörfum þeirra sem eru heimilislausir eða búa við óviðundandi aðstæður og þeirra sem eru að greiða leigu langt umfram greiðslugetu. Lífeyrissjóðirnir eru sjóðir sem flestir ef ekki allir hafa nægt fjármagn til að koma inn í samfélagsverkefni sem þetta. Margir eru nú þegar að taka þátt í annars konar verkefnum innan- sem utan lands svo sem hótelbyggingum. Hvað þetta verkefni varðar væru þeir að taka þátt í að þróa heilbrigðari húsnæðismarkað í Reykjavík fyrir fólkið sem greiðir í sjóðina. Þetta mun koma vel út fyrir allt samfélagið.
Lagt fram í borgarráði og afgreitt 23. ágúst með því að tillagan var felld.
Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminni fólk
Bókun Flokks fólksins:
Borgarfulltrú Flokks fólksins harmar að þessi tillaga hafi ekki fengið frekari skoðun hjá meirihlutanum. Svo virðist sem borgin telji nóg gert eða áætlað í húsnæðismálum samkvæmt upptalningu í umsögn fjármálaskrifstofu og meirihlutans og því óþarfi að leggja drög að nýjum hlutum eins og mögulegri samvinnu eða samtarfi við lífeyrissjóði. Einhverjir þeirra hafa síðustu ár verið að taka á hendur fjölbreyttari verkefni, jafnvel samfélagsverkefni.
Í tillögunni fólst að eiga frumkvæði að samtali, borgin með lóðir og lífeyrissjóðirnir með fjármagn. Auðvitað er það ákvörðun sjóðanna hvort þeim hugnast verkefni eins og hér um ræðir, hvort þeir hafi yfir höfuð áhuga á að leita leiða til að bæta aðbúnað sjóðsfélaga sinna hvað húsnæðismál varðar. Leiguíbúðir á viðráðanlegu verði myndu gjörbylta kjörum margra sjóðsfélaga auk þess sem lengi hefur verið vitað að fjárfesting í steypu er góð fjárfesting. Hér hefði því verið kjörið tækifæri fyrir borgina að hugsa út fyrir boxið og sjá hvar ný tækifæri kunna að liggja fyrir fólkið í borginni. Hvað varðar löggjafann telur Flokkur fólksins að á þessu upphafstigi sé óþarfi að ætla að hann komi til með að verða óyfirstíganleg hindrun.
Innflytjendur í Fellahverfi einangrast félags- og menningarlega
27.8.2018 | 12:29
Enginn nema óháður aðili sem kemur til greina í þetta verkefni
22.8.2018 | 08:50
Fjölmargar kvartanir hafa borist frá leigjendum Félagsbústaða sem hafa leitað eftir viðgerð vegna myglu og öðru viðhaldi. Þess vegna mun eftirfarandi tillaga verða lögð fyrir fund borgarráðs á morgun 23. ágúst.
Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að meta eignir Félagsbústaða þar sem kvartanir hafa borist vegna myglu eða annarra galla þegar ágreiningur er uppi á milli leigjanda og Félagsbústaða. Í matinu skal jafnframt koma fram hvers lags viðgerða sé þörf og hvort viðgerðir hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti.
Greinargerð
Fjölmargar kvartanir hafa borist frá leigjendum Félagsbústaða sem hafa leitað eftir viðgerð vegna myglu og öðru viðhaldi. Leigjendur segjast ýmist ekki fá nein svör eða sein og þá ófullnægjandi viðbrögð. Beiðni um viðgerð er einfaldlega oft ekki sinnt og gildir þá oft einu hvort íbúar leggi fram læknisvottorð vegna heilsubrests, myndir af skemmdum vegna myglu og jafnvel vottorð frá öðrum sérfræðingum sem skoðað hafa húsnæðið.
Kvartað hefur verið undan myglu og rakaskemmdum í íbúðum og fullyrt að um sé að ræða heilsuspillandi húsnæði. Veikindi hafa verið tengd við myglu og raka í húsnæði sem Félagsbústaðir leigir út. Fjölskyldur hafa stundum þurft að flýja húsnæðið. Þetta fólk hefur sumt hvert ítrekað kvartað en ekki fengið lausn sinna mála hjá Félagsbústöðum sem hefur hunsað málið eða brugðist við seint og illa. Margir kvarta yfir að hafa verið sýnd vanvirðing og dónaskapur í samskiptum sínum við Félagsbústöðum. Oft er skeytum einfaldlega ekki svarað.
Þeir sem hafa kvartað yfir samskiptum sínum við Félagsbústaði segja að starfsfólk hafi sagt þeim bara að fara í mál. Hér um að ræða hóp fólks sem leigir í félagslegu húsnæðiskerfinu vegna þess að það er láglaunafólk, efnalítið og fátækt fólk. Þetta fólk hefur ekki ráð á að fara í mál við Félagsbústaði. Sumir hafa neyðst til þess og eru í kjölfarið skuldsettir umfram greiðslugetu. Það fólk sem stigið hefur fram með kvörtun af þessu tagi segir að Félagsbústaðir hafi ýmist neitað að þessi vandi sé til staðar eða hunsað hann. Í öðrum tilfellum hafa komið viðgerðarmenn og gert eitthvað smávegis en ekki ráðist að grunnvandanum. Mygla og annað sem fólk hefur verið að kvarta yfir hefur því haldið áfram að aukast og haft alvarleg áhrif á heilsu íbúa. Reynslusögur fólks sem leigt hafa hjá Félagsbústöðum eru orðnar margar. Í einni slíkri segir kona frá að í íbúð á vegum Félagsbústaða hafi verið mygla og hafði hún ítrekað kvartað. Múrari hafi komið frá Félagsbústöðum til að athuga með leka og hafi sagt sér að ekki mætti fara í miklar aðgerðir sem kosta mikið. Því var bara settur plástur á skemmdirnar sem dugði í ár. Það sem hefði þurft að gera var að rífa klæðningar inn að steypu og leyfa henni þorna. Þess í stað var farið í að múra upp í og loka. Hér má einnig lesa um sambærilega sögu mæðgna sem ítrekað þurftu að flýja heilsuspillandi húsnæði á vegum Félagsbústaða
http://www.visir.is/g/2018180529713
Haldnir hafa verið fjölmargir fundir vegna sambærilegra mála bæði við notendur/leigjendur og Félagsbústaði m.a. hjá Umboðsmanni borgarbúa. Svo virðist sem Félagsbústaðir séu ekki að greina nægjanleg vel hver viðhaldsþörfin er þegar kvörtun berst og þá til hvaða viðhaldsverka þarf að grípa til að leysa vanda með fullnægjandi hætti. Almennt viðhald virðist vera ábótavant á mörgum eignum Félagsbústaða. Þegar kvörtun berst vísar Félagsbústaðir til heilbrigðisyfirvalda. Heilbrigðisyfirvöld styðjast við sjónpróf og lyktarpróf sem dugar oft ekki til til að finna hver grunnvandinn er. Iðulega er sagt við notendur loftaðu bara betur út. Af þessu að dæma er líklegt að endurskoða þurfi aðferðir sem heilbrigðiseftirlitið notar í málum af þessu tagi.
Í mörgum tilvikum þarf ítarlegar greiningar til að komast að vandanum. Önnur fyrirtæki, einkafyrirtæki bjóða upp á nánari greiningu og kostnaðinn þurfa leigjendur iðulega sjálfir að bera en sem hafa eðli málsins samkvæmt enga fjárhagslega burði til. Í mörgum þessara tilvika er um lekavanda að ræða, vanda sem hefur e.t.v. verið mörg ár að þróast. Af frásögnum að dæma hjá mörgum virðist vera einhver mótþrói hjá Félagsbústöðum í að horfast í augu við að það þarf að setja fjármagn í fullnægjandi viðhald og bregðast við kvörtunum með fullnægjandi hætti. Ekki dugir að senda sífellt lögfræðinga á notendur Félagsbústaða. Nú er svo komið að taka þarf á þessu ástandi fyrir fullt og allt. Horfast þarf í augu við að Félagsbústaðir hafa víðtækum skyldum að gegna gagnvart öllum skjólstæðingum sínum. Hér er ekki um að ræða einkafyrirtæki eða banka. Félagsbústaðir getur ekki alltaf sett þessi mál bara í átakaferli. Hafa skal í huga að fólk er einnig misviðkvæmt gagnvart myglu. Mikilvægt er því að horfa á hvert tilvik fyrir sig í stað þessa að setja alla undir sama hatt. Endurskoða þyrfti alla verkferla Félagsbústaða af óháðum aðila og gera þá gagnsæja. Eftirlit með hvort Félagsbústaða séu að fylgja verkferlum virðist verulega ábótavant.
Upplýsingar í þessari greinargerð eru komnar frá leigjendum Félagsbústaða og fleirum sem komið hafa að málum í tengslum við Félagsbústaða með einum eða öðrum hætti.