Voru kannski fleiri verkefni hjá borginni stjórnlaus? Hvað með Gröndalshúsið, Vitann og Aðalstrætið?

Flokkur fólksins lagði til í morgun á fundi borgarráðs til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Gröndalshúsið fór 198 milljónir fram úr áætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust og uppfullt af misferlum. Eftir því sem fram hefur komið hjá Innri endurskoðun er á borði skrifstofunnar úttekt á framkvæmdum við Mathöll Hlemmi, Sundhöll, Vesturbæjarskóla og hjólastíg við Grensásveg.

Greinargerð
Svört skýrsla IE liggur fyrir um braggann þar sem staðfest er að innkaupareglur hafi verið brotnar, sveitarstjórnarlög brotin sem og fjölmargar siðareglur. Sem dæmi var leitað eftir verktökum og starfsmönnum í verkið í gegnum kunningjaskap. Verkið kostaði  425 milljónir króna af skattpeningum borgara Reykjavíkur, langt umfram það sem áætlað var.

Í ljósi þessa er full ástæða til að skoða önnur verkefni sem farið hafa fram úr áætlun með það fyrir augum að rannsaka hvort svipað var viðhaft og við braggaverkefnið. Nefna má að verkefni í tengslum við braggann voru ekki boðin út, kostnaðareftirlit var ábótavant, ekki voru gerðir samningar, margar vinnustundir skrifaðar og á einum tímapunkti voru 18 verktakar í vinnu. Reikningar voru samþykktir en ekki fylgst með að útgjöld væru innan fjárheimildar. Í frumkostnaðaráætlun vantaði marga þætti og sú áætlun sem gerð var, var ekki virt. Innkauparáð fékk ekki réttar upplýsingar og síðast en ekki síst borgarráð fékk rangar og villandi upplýsingar. Það er því full ástæða til að skoða önnur verkefni sem voru í gangi undir stjórn þessara sömu einstaklinga, á svipuðum tíma og sem voru keyrð langt fram úr áætlun. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að skoða hlutverk, embættisfærslur, stjórnsýsluhætti og ábyrgð borgarritara og borgarstjóra og umfram allt skoða tölvupósta milli þeirra og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, bæði þá sem vistaðir hafa verið í skjalavörslukerfi borgarinnar sem og þá sem ekki hafa verið færðir þangað.  

Einnig var lagt til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Aðalstræti 10 og bragganum á Nauthólsvegi 100. Aðalstræti 10 fór 270 milljónir fram úr kostnaðaráætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.

Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri jafnframt sambærilega úttekt á Vitanum við Sæbraut og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Vitinn fór 75 milljónir fram úr áætlun og er framkvæmdum ekki lokið. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.

 

 


Gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt

Í árslok 2018 voru 2550 íbúðir í eigu Félagsbústaða af öllum gerðum og eru þær dreifðar víðsvegar um Reykjavík. Fyrir stjórn Félagsbústaða liggur nú tillaga um að hunda- og kattahald í félagslegu húsnæði í eigu borgarinnar verði leyft. Tillagan var lögð fyrir á fundi borgarstjórnar 13. september 2018. Enn hafa engin viðbrögð borist frá stjórn Félagsbústaða þrátt fyrir að ítrekanir hafi verið sendar. Leyfið yrði vissulega háð sömu skilyrðum og eru í Samþykkt um hundahald í Reykjavík dags. 16. maí 2012.

Eins og vitað er hafa margir sem flutt hafa í félagslegar íbúðir í eigu borgarinnar þurft að láta frá sér gæludýrin sín þar sem ekki er leyfi fyrir þeim í húsnæðinu. Harmur sá sem að fólki er kveðinn þegar það er nauðbeygt að láta frá sér dýrið sitt sem jafnvel hefur verið hluti af fjölskyldunni árum saman er þyngri en tárum taki. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að samþykkja þessa tillögu enda er nú þegar að finna fordæmi í einu af nágrannasveitarfélögum okkar.

Smuga

Jákvæð áhrif óumdeilanleg

Ekkert getur komið í stað tengsla við aðra manneskju en gæludýr getur uppfyllt þörf fyrir vináttu og snertingu. Gæludýr, þar með taldir hundar og kettir, eru hluti af lífi fjölmargra og skipa stóran tilfinninga- og félagslegan sess í hjörtu eigenda þeirra. Öll þekkjum við ýmist persónulega eða hjá vinum og vandamönnum hvernig gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt, ekki síst hjá þeim sem eru einmana. Átakan­leg eru þau fjölmörgu tilvik þar sem fólk hefur orðið að láta frá sér hundana sína vegna þess að þeir eru ekki leyfðir í félagslegum íbúðum á vegum borgarinnar.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif af umgengni manna við dýr. Rannsóknir sýna að umgengni við dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan og eykur m.a. sjálfstraust, einbeitingu, athygli sem og minnkar streituviðbrögð. Dýr veita einstaklingnum vinskap, líkamlega snertingu og sýna áhuga og væntumþykju án nokkurra skilyrða. Ást til gæludýrs getur verið djúpstæð. Hundar og kettir eru til dæmis oft hluti af fjölskyldunni. Sú sorg sem nístir þegar gæludýr fellur frá eða er aðskilið frá eiganda sínum þekkjum við mörg, ef ekki af eigin reynslu þá annarra.

Að banna gæludýr eins og hunda og ketti í félagslegu húsnæði borgarinnar er ómanneskjulegt og ástæðulaust. Þess er vænst að jákvæð viðbrögð frá stjórn Félagsbústaða berist hið fyrsta enda er hér um réttlætismál að ræða. Það eru margir sem bíða!


Einmana og vannærðir

Við höfum ekki staðið okkur nægjanlega vel þegar kemur að sjá um eldri borgara og þá sem glíma við aldurstengda sjúkdóma? Það eru vondar fréttir sem lesa má í Fréttablaðinu í dag en þar er sagt frá rannsókn þar sem kannað var næringarástand sjúklinga eftir útskrift af öldrunardeild Landspítalans. Næringarástand hópsins er slæmt og margir hafa einnig veika maka að hugsa um segir í fréttinni. Þeir elstu eru bæði einmana og vannærðir. Vandinn er margþættur, skortur á rýmum og erfiðleikar við að manna félagsþjónustuna enda láglaunastörf.

Flokkur fólksins hefur ítrekað minnst á óviðunandi aðstæður sumra eldri borgara bæði fundi borgarstjórnar, í borgarráði og á fundi velferðarráðs og komið með tillögur í þessu sambandi. Tillagan um Hagsmunafulltrúa aldraðra sem hefur það hlutverk að halda utan um þennan málaflokk, fylgjast með að þjónusta sé fullnægjandi og engin einn sé einhvers staðar aleinn og vannærður er enn á borði velferðarsviðs. Fella átti þessa tillögu á fundi velferðarsviðs í desember þegar ég innti eftir því hvort Öldungaráð Reykjavíkur hefði fengið hana til umsagnar og kom þá í ljós að svo var ekki. Gerð var krafa um að Öldungaráðið fengi hana til umsagnar áður en hún yrði felld. Í ljósi þessarar niðurstaðna er alveg ljóst að þessi tillaga á fullt erindi inn á borð borgarmeirihlutans og ætti að fá jákvæða afgreiðslu þar.

Málið er að meirihlutinn í borginni er sífellt að fullyrða og fullvissa borgarfulltrúa minnihlutans um að þessi mál séu í góðu lagi en nú má heldur betur sjá að svo er aldeilis ekki.

Lengi hefur verið vitað að ástandið er verra í Reykjavík en út á landi. Auk mannekluvanda hefur einnig verið skortur á hjúkrunarrýmum. Hvað við kemur hjúkrunarrýmum í Reykjavík hefði borgaryfirvöld þurft að sýna mun meiri fyrirhyggju eins og með önnur húsnæðismál í borginni. Það hefur ekki verið byggt nóg undanfarin ár. Á Landspítala bíður fólk sem ekki þarf að dvelja á sjúkrahúsi en hefur engan stað að hverfa á þar sem ekki er til hjúkrunarrými í sveitarfélaginu þar sem viðkomandi getur verið nærri ástvinum sínum. Þeir eldri borgarar sem eiga heimili að hverfa til eftir sjúkrahúsvist, hafa sumir hverjir ekki getað farið heim því starfsfólk vantar í heimaþjónustu. Það fólk verður því að dvelja áfram á Landspítala. Og eins og fram kemur í þessari rannsókn er fólk stundum sent heim allt of snemma þar sem aðstæður eru óviðunandi vegna mannekluvanda í heimaþjónustu.


Með svartari skýrslum! Braggaframkvæmdin var á sjálfsstýringu

Ég óttast að að draga eigi eitt stórt pennastrik yfir þennan braggaskandal og engin á eftir að taka á þessu ábyrgð.

Bókun Flokks fólksins málinu er eftirfarandi 

Skýrsla  innri endurskoðunar um  Nauthólsveg 100 er svört og mikið áfall. Í henni er rakið hvernig hver þáttur á eftir öðrum stríddi gegn góðum stjórnsýsluháttum. Nefna má að verkefnin voru ekki boðin út, kostnaðareftirlit var ábótavant, ekki voru gerðir samningar, margar vinnustundir skrifaðar og á einum tímapunkti voru 18 verktakar í vinnu.  Reikningar voru samþykktir en ekki fylgst með að útgjöld væru innan fjárheimildar. Í frumkostnaðaráætlun vantaði marga þætti og sú áætlun sem gerð var, var ekki virt. Fram kemur að innkauparáð fékk ekki réttar upplýsingar, skýrslu ráðsins var ekki fylgt eftir. Biðlund ráðsins var of mikil eftir því sem fram kemur. Eitt það alvarlegasta er að borgarráð fékk rangar upplýsingar. Flokkur fólksins myndi vilja fá álit frá aðila utan borgarkerfisins á broti á  innkaupareglum og umboðsþáttum. Fram kemur að misferlisáhætta er mikil en skortur er á sönnunum. En liðið er liðið og ekki er efast um borgarmeirihlutinn mun draga af þessu lærdóm og breytingar gerðar í kjölfarið til að koma í veg fyrir að svona lagað endurtaki sig. En er þar með verið að draga eitt stórt pennastrik yfir Nauthólsveg 100?  Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst enn mörgum spurningum ósvarað og þá kannski helst sú,  mun einhver ætla að axla á þessu ábyrgð?


Listi yfir nefndir, ráð, stýri og starfshópa Reykjavíkurborgar

Svör bárust í morgun við fyrirspurn Flokks fólksins um greiðslur fyrir setu í nefndum, ráðum, og stýri- og starfshópum. Spurt var: Hvaða fundir eru launaðir og hverjir sem sitja fundina, fá laun og hverjir ekki? Markmiðið með fyrirspurnunum var að auka gegnsæi og einnig að gera þetta skýrt fyrir ekki hvað síst borgarbúa. Þessar upplýsingar þurfa að vera á einum stað og fara á vef borgarinnar svo hægt sé að vísa til.

Hér koma svör eins langt og þau ná. Seta í stjórnum B hluta fyrirtækja borgarinnar er launuð en ekki er greint frá því í þessum svörum

Skrá yfir starfs- og stýrihópa

Svar skrifstofu borgarstjórnar

Svar skrifstofu frá 9. október 2018


Er heimilið griðastaður barnsins þíns?

Ég vil í þessum pistli vekja athygli á heimilisofbeldi. Sem barn bjó ég um tíma við slíkt ofbeldi auk þess sem ég hef sem sálfræðingur ríka reynslu af því að ræða við foreldra og börn sem búið hafa við heimilisofbeldi.

Ofbeldi á heimilum er eitt duldasta ofbeldi sem fyrirfinnst. Heimilisofbeldi birtist í mörgum myndum. Það getur birst í ógnandi hegðun í samskiptum fólks sem býr undir sama þaki, í líkamsmeiðingum, kynferðislegu ofbeldi, einangrun, kúgun, niðurlægingu og hótunum. Áður fyrr var yfirleitt rætt um heimilisofbeldi í þeim skilningi að þar væri átt við átök milli fullorðinna. Sá skilningur hefur breyst í kjölfar reynslu og rannsókna. Rannsóknir sýna að börn telja sig sjálf með þegar þau eru beðin um að skilgreina hvað felst í orðinu heimilisofbeldi, jafnvel í þeim tilfellum sem ofbeldið beinist ekki beinlínis að þeim sjálfum.

Börnin á ofbeldisheimilum


Það er óhemju mikið lagt á börn sem alast upp við ótryggar fjölskylduaðstæður svo sem heimilisofbeldi. Heimilið á að vera griðastaður barna sem og fullorðinna. Börn sem búa við heimilisofbeldi lifa í viðvarandi ótta og upplifa sig stundum vera í bráðri lífshættu. Þetta eru börnin sem aldrei geta vitað fyrirfram hvernig ástandið er heima. Þau forðast jafnvel að koma heim með vini sína og sum reyna að halda sig mest annars staðar ef þau eiga þess kost. Börn sem eiga yngri systkini finnst mörgum þau verða að vera til staðar til að geta verndað þau ef ástandið verður sérstaklega slæmt á heimilinu.

Áhrif og afleiðingar heimilisofbeldis á börn eru iðulega margslungin og afleiðingar geta verið alvarlegar. Barn sem elst upp við ofbeldi á heimili sínu fer á mis við margt. Á ofbeldisheimili er andrúmsloftið oft þrungið spennu og kvíða og því er ef til vill fátt um gleði og kátínu. Börn sem alast upp við óöryggi og ótta vegna langvarandi heimilisofbeldis verða oft fyrir einhverjum sálrænum skaða. Sjálfsmynd þeirra verður fyrir hnjaski. Mörg missa trú á sjálfum sér og finnst jafnvel erfitt að treysta öðrum. Þau finna fyrir kvíða, jafnvel þunglyndi og geta átt erfitt með að takast á við verkefni daglegs lífs. Afleiðingar heimilisofbeldis geta fylgt einstaklingnum alla ævi.

Ef horft er til íslensks samfélags þá hefur orðið þróun í málefnum barna sem búa við ofbeldi á heimilum á undanförnum árum. Nýjar verklagsreglur lögreglu, barnaverndar og félagsþjónustu sem þróaðar hafa verið og varða viðbrögð við tilkynningum um heimilisofbeldi er dæmi um jákvæða breytingu í málefnum barna sem búa við ofbeldi. Samkvæmt þeim er þess gætt, þegar brugðist er við tilkynningu um heimilisofbeldi, að börn á heimili fái tafarlaust aðstoð barnaverndarstarfsmanns og að sérstaklega sé hugað að velferð barna á vettvangi og að auki bjóðist þeim sálfræðistuðningur í kjölfarið.

Árið 2016 var lögfest sérákvæði í almenn hegningarlög sem lýsir heimilisofbeldi refsivert með skýrum hætti. Nú er ekki lengur nokkrum vafa undirorpið að börn sem búa við heimilisofbeldi eru talin þolendur ofbeldisins og skulu njóta verndar samkvæmt ákvæðinu.

Við getum sannarlega verið sátt við þá vitundarvakningu sem átt hefur sér stað í samfélaginu í þessum málum. Við eigum Kvennaathvarfið sem er að gera vel við þá sem þangað leita, ekki síst börnin. Kvennaathvarfið stendur opið öllum þeim konum og börnum sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis af hálfu maka eða annarra heimilismanna. Í vitundarvakningu þjóðarinnar felst m.a. að hlúa sérstaklega að börnum í viðkvæmri stöðu eins og þeirri sem hér hefur verið lýst. Að trúa þeim ávallt þegar þau segja frá ofbeldi og bregðast strax við með aðgerðum til að koma þeim til hjálpar. Ef fjölskyldumeðlimur bregst, þarf barnið að geta treyst á aðra fullorðna í lífi sínu til að fara með sig í öruggt skjól. Allir í nærumhverfi barnsins skipta máli við þessar aðstæður, ömmur, afar, frændur, frænkur, kennarar, þjálfarar sem og aðrir sem umgangast barnið í námi og leik. Þessir aðilar þurfa líka að standa vaktina og á þessari vakt má aldrei sofna.

Greinin var birt í Morgunblaðinu 10.12. 2018

.


Laugavegurinn okkar heitelskaði

Það var hörkuumræða um lokun Laugavegsins fyrir akandi fólk á fundi borgarstjórnar um daginn. Meirihlutinn fullyrðir að verið sé að gera það sem meirihluti borgarbúa vill, verslunareigendur, leigjendur, hagsmunafulltrúar fatlaðra og borgarbúar í öllum hverfum borgarinnar. Nokkrar efasemdir eru um þessa almennu gleði með framkvæmdir á Laugaveginum og víðar í miðborginni þegar kemur að aðgengi t.d. fyrir fatlað fólk

Flokkur fólksins lét bóka eftirfarandi:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur stórar efasemdir um þá almennu gleði sem sögð er ríkja með lokun gatna í miðbænum og þar með Laugavegsins. Staðreyndin er sú að þeir eru margir sem finnst illa komið fyrir Laugaveginum og miðborginni almennt séð þegar kemur að aðgengi. Í þessum hópi er verslunareigendur,leigjendur og hreyfihamlaðir.  Verslun, gamalgróin eins og Brynja getur varla þrifist lengur við þessar aðstæður. Hverjir eru svo þeir sem halda lífinu í Laugaveginum þ.e. aðrir en ferðamenn? Flokkur fólksins hefur lagt til að gerð verði könnun meðal íbúa úthverfa sem ekki starfa í miðbænum og þeir spurðir hversu oft þeir sæki miðbæinn og þá í hvaða tilgangi. Flokkur fólksins fer fram á lýðræði hér og að sérstaklega verði hugað að fólki sem ekur P merktum bílum. Tillaga var lögð fram í borgarstjórn af borgarfulltrúa Flokks fólksins um að P merktir bílar geti lagt í göngugötum og að hámarkshraði yrði 10 km/klst. Hagsmunaaðilar fatlaðra fögnuðu framlagningu þessarar tillögu. Það segir sennilega allt um hið svokallaða „samráð“ sem meirihlutinn fullyrðir að hafi verið haft við alla hagsmunaaðila við þá ákvörðun að loka Laugavegi og stórum hluta miðbæjar fyrir akandi fólki.

 


Fokið í flest skjól í borginni

Það er nú fokið í flest skjól þegar meirihlutinn getur ekki samþykkt tillögu Flokks fólksins að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa segir í bókun sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar í nótt.

Einnig segir í bókuninni:

Látið er að því liggja að notendasamráð sé í fullri virkni enda nefnt 9 sinnum í sáttmála meirihlutans. Meirihlutinn getur ekki samþykkt sína eigin stefnu? Borgarfulltrúi Flokks fólksins hélt í barnaskap sínum að þessi tillaga, ef einhver, myndi vera fagnað af meirihlutanum enda mikilvægt að skerpa á svo mikilvægum hlut sem notendasamráð er. Notendasamráð er sannarlega í orði en staðreyndin er að það er enn sem komið er, ekki nema að hluta til á borði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna nýlegar upplýsingar frá notendum þjónustu sem segja að áherslur notenda nái oft illa fram að ganga og að enn skorti á raunverulegt samráð þótt vissulega sé það stundum viðhaft á einhverju stigi máls. Hér hefði verið kjörið tækifæri fyrir meiri- og minnihlutann að sameinast um enn frekari skuldbindingu þess efnis að Reykjavíkurborg hefði notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hagsmuni og hag hópa og almennings.

Hér er tillagan í heild sinni

Lagt er til að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings.

Notendasamráð er skilgreint sem aðferð þar sem notandi kemur að mótun sinnar eigin þjónustu í samráði við þjónustuaðila og byggir á valdeflingu og þátttöku  notenda. Nú þegar er þetta í starfsáætlunum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og er mjög mikilvægt að haldið verði áfram að auka vægi hlutdeildar notenda á öllum sviðum borgarinnar. Notendasamráð á rætur sínar að rekja til aukinnar áherslu á félagslegt réttlæti og mannréttindi. Notendasamráð styrkir vald og þátttöku notenda.
„Notendasamráð“ hefur vakið áhuga háskólanema sem hafa rannsakað það m.a. í
lokaverkefnum og haldnir hafa verið opnir fundir um notendasamráð. Breytingar hafa verið gerðar á lögum um félagsþjónustu sem fela í sér auknar skyldur fyrir Reykjavíkurborg um samráð við notendur um framkvæmd þjónustu fyrir fatlað fólk.

Greinargerð:

Að hafa samráð við notendur um þá þjónustu sem þeim er ætlað eru bæði sjálfsögð og eðlileg mannréttindi. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að vera þátttakandi í eigin lífi og taka sjálfur þátt í ákvörðunum sem varða eigin hag, líðan og almennar aðstæður. Engu að síður er notendasamráð tiltölulega nýtt í umræðunni og ekki síst í framkvæmdinni. Ekki er vitað hversu víðtækt notendasamráð er haft við notendur hjá Reykjavíkurborg. Til þess að notendasamráð tvinnist inn í menningu og samfélag þarf hugmyndafræðin að vera greipt í námsefni fagaðila og verða hluti að fagþekkingu og reynslu. Öðruvísi mun ekki takast að innleiða hugmyndafræði notendasamráðs með markvissum hætti. Lagt er til hér að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg ákveði að hafa notendasamráð í öllum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings. Notendur einir geta upplýst um það hvort notendasamráð sé viðhaft og virkt alls staðar þar sem verið er að ákveða og þróa þjónustu og ólíkar aðstæður fyrir fólk. Þess vegna er mikilvægt að spyrja notendur reglulega með þar til gerðum spurningakönnunum. Grunnur notendasamráðs er að stjórnvöld hlusti á hvað notandinn er að segja þegar verið er að skipuleggja eða þróa þjónustu. Vinna á með fólki en ekki með fólk. Það er notandinn sem á að kenna fagaðilum og stjórnvöldum hvernig hægt er að mæta þörfum hans sem best. Notandinn
er sérfræðingur í eigin lífi. Mikilvægt er að notandinn sé með frá byrjun ekki bara á seinni stigum.

Fulltrúi Pírata fékk það hlutverk að slá þessa tillögu út af borðinu með "rökum". Henni var í kjölfarið vísað frá af meirihlutanum


Kötturinn flotti! 4.4 milljónir

Gaman væri að vita hvað jólaskreytingar kosta í borginni og hvernig þær skiptast eftir hverfum. Um þetta hefur verið spurt og munu eftirfarandi fyrirspurnir verða lagðar fram á fundi borgarráðs á fimmtudaginn:

Óskað er eftir upplýsingum um sundurliðaðan heildarkostnað við jólaskreytingar Reykjavíkurborgar fyrir jólin 2018. Jafnframt er óskað eftir sundurliðun á kostnaði eftir hverfum ef hann liggur fyrir. 

Kötturinn

Fyrir liggur kostnaður jólakattarins á Lækjartorgi, en ekki hver tók ákvörðun um kaup á honum og staðsetningu. Veit ekki hvort fólki finnst að það eigi bara að liggja milli hluta?


Spurning um ímynd borgarstjóra

Svar við fyrirspurninni er varðar sundurliðun á kostnaði vegna bílstjóra borgarstjóra sem er 11 mkr á ári liggur nú fyrir. Hér kemur bókun Flokks fólksins og tillaga í framhaldinu:
 
Nú liggur það fyrir að aksturshluti fyrir borgarstjóra er 36 % af 11 mkr. Þetta eru milljónir sem betur mætti nota í annað skynsamlegra að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. Það væri góður bragur að því að borgarstjóri legði það af með öllu að aka um með einkabílstjóra. Hann, eins og aðrir borgarbúar, getur farið sinna leiðar með öðrum hætti, með því að ganga, hjóla, aka um á sínum einkabíl eða taka strætó.
 
Tillaga Flokks fólksins
Lagt er til að borgarstjóri sýni gott fordæmi og hætti með öllu að ferðast um með einkabílstjóra. Hér er ef til vil ekki um að ræða háa upphæð heldur mikið frekar hvaða ímynd borgarstjóri vill gefa af sér. Það að borgarstjóri hafi einkabílstjóra fer einfaldlega fyrir brjóstið á mörgum og einhverjum þykir þetta án efa hégómlegt. Þess vegna er lagt til að borgarstjóri, eins og aðrir borgarbúar, noti aðrar leiðir. Hér skapast jafnframt tækifæri til að nota þessar milljónir sem um ræðir í aðra hluti t.d. í þágu þeirra sem berjast í bökkum eða til að lækka ýmis gjöld sem fjölskyldur sem búa undir fátæktarmörkum þurfa að greiða fyrir börn sín hvort heldur það eru skólamáltíðir eða gjald vegna viðburða hjá félagsmiðstöðvum svo eitthvað sé nefnt
 

Móttökuveislur borgarinnar 2018

Veislur borgarinnar 2018

Hér er yfirlit yfir móttökur/veislur borgarinnar það sem af er 2018. Til viðbótar eru veisla 8.10 á vegum velf.sviðs kr. 275,619, 10.10. í Höfða, Friðarsetur Höfða á vegum borgarstjóra kr. 267.460, 18.10. og í Höfða Bókmenntaverðlaun TG á vegum forseta borgarráðs kr. 180.738.
 
Flokkur Fólksins lagði fram eftirfarandi fyrirspurnir í kjölfar þess að þessi listi var lagður fram á fundi Forsætisnefndar:
 
 
Hvernig skilgreinir Reykjavíkurborg „móttöku“?
Hver ákveður hvort halda eigi móttökur? Fá nöfn og ákvarðanaferli? 
Hver ákveður boðslista? Fá nöfn og hvernig ákvarðaferlið er?
Hvaða fyrirtæki eru þjónusta þessar móttökur/veislur?
Hvaðan eru vörurnar/aðföng (matur og áfengi) keypt?
Hvernig eru veitingar, samsetning veitinga, áfengi?
Hver er kostnaður við veitingar og áfengi fyrir hverja veislu, fá sundurliðun?
Hverjir þjóna, sjá um framreiðslu. Hver, hvað mikið og sundurliðun greiðslna?
Óskað er eftir að fá nöfn allra aðila/fyrirtækja og sundurliðanir ofan í smæstu atriði sem koma að þessum móttökum.
Þetta er liður í gegnsæi, að upplýsingar þessar sem aðrar liggi fyrir og séu aðgengilegar borgarbúum.

 


Af hverju mátti þessi blettur ekki fá að vera í friði?

Málefni Víkurgarðs hafa verið í umræðunni upp á síðkastið. Á þessum bletti skal rísa enn eitt hótelið.

Flokkur fólksins leggst gegn því að byggt verði hótel á þessu svæði. Víkurgarður og nánasta svæði þar í kring hefði átt að fá að vera í friði enda svæði sem er mörgum kært. Gróðavon og  stundarhagsmunir er það sem virðist ráða för hér á kostnað staðar sem er helgur og hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga. Af hverju mátti þessi litli blettur ekki fá að vera í friði og þeir sem þar hvíldu, hvíla þar í friði? Fjarlægðar hafa verið minjar í þessum tilgangi og þykir Flokki fólksins að sá gjörningur hafi verið mistök og allt og langt gengið enda ekki skortur á byggingarsvæði. Flokkur fólksins tekur undir og styður áskorun frú Vigdísar Finnbogadóttur og þriggja heiðursborgara sem mótmæla þessari framkvæmd og skora á borgina og byggingaraðila að láta af áformum um byggingu hótels á þessum bletti.


Hávaðamengun Reykjavíkurborgar

Á fundi borgaráðs í morgun var lögð fram tillaga af Flokki fólksins þess efnis að borgin tryggi að eftirlit með framkvæmd reglugerðar sem fjallar um hávaðamengun í borginni verði fylgt til hins ýtrasta og hafa þá í huga: 

a) Leyfisveitingar þurfa að fylgja reglugerð um hljóðvist og hávaðamörk. https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/724-2008Oftar en ekki eru leyfi samþykkt umfram tíma sem tengist næturró, sem gildir frá klukkan 11pm til 7am, samkvæmt reglugerð. Einnig er áberandi að hávaðamörkum fyrir þann tíma er ekki fylgt. Til dæmis fær Airwaves tónlistarhátíðin leyfi til klukkan 2am föstudag og laugardag fyrir útitónleika í þaklausu porti Listasafns Reykjavíkur. Lýðheilsa íbúanna og friðhelgi einkalífs eru neðarlega á lista þeirra sem samþykkja slík leyfi hávaðaafla, sem halda vöku fyrir íbúum og hótelgestum, í boði Reykjavíkurborgar.

b) Mikilvægt er að beita viðurlögum, sektum og leyfissviftingum þegar leyfishafi brýtur lög og reglur um hljóðvist og hávaðamengun. í dag eru leyfi veitt ár eftir ár þrátt fyrir brot á reglugerð, sem hefur bein áhrif á lýðheilsu íbúanna. 

c) Íbúalýðræði, grenndarkynningar og samstarf við íbúasamtök þarf að vera virkt og lausnarmiðað með hag íbúa miðborgar í huga.

d) Gera þarf skýran greinarmun á vínveitingaleyfi og hávaðaleyfi sem tengist reglugerð um hljóðvist og hávaðamengun. 

e) Hátalarar utan á húsum skemmtistaða og veitingastaða miðborgar verði fjarlægðir. 

f)Samstarf lögreglueftirlits og íbúa þarf að vera skýrt, og hávaðamælar í farsímum ætti að vera hluti af vinnuaðferð lögreglunnar. Í dag berast kvartanir og ábendingar til lögreglunnar ekki inn á borð stjórnenda Reykjavíkurborgar.

g) Styrk hávaðans mældur í desíbelum

h) Tónhæð hávaðans.

i) Hvort hávaðinn er stöðugur eða breytilegur

j) Dagleg tímalengd hávaðans

k) Hvenær tíma sólarhringsins hávaðinn varir

l) Heildartímabil, sem ætla má að hávaðinn vari (dagar/vikur). 

Fram kemur í greinargerð með tillögunni að kvartanir yfir hávaða m.a. vegna Airwaves, Inni/Úti púkans og fleiri útihátíða hafa borist frá þeim íbúum sem búa í nágrenninu. Svo virðist sem íbúar séu ekkert spurðir álits þegar verið er að skipuleggja hátíðar á borð við þessa sem er vís til að mynda hávaða. Minnt er á að til er reglugerði um þetta  og hvað varðar aðra hljóðmengun þá er ekki séð að eftirlit sem framfylgja á í samræmi við reglugerðina sé  virkt. Í reglugerð  er kveðið á um ákveðin hávaðamörk og tímasetningar. Fjölgun hefur orðið á alls kyns viðburðum sem margir hverjir mynda hávaða, ekki síst þegar hljómsveitir eru að spila.  Á tímabilum er gegndarlaus hávaði í miðborgin og erfitt fyrir fólk sem í nágrenninu að ná hvíld. Hér er um lýðheilsumál og friðhelgi einkalífs að ræða. 

Margt fólk hefur kvartað í lýðræðisgáttina en ekki fengið nein svör, eða ef fengið svör, þá eru þau bæði loðin og óljós. 

Þeir sem bent hafa á þetta segja að svo virðist sem ábendingar séu hunsaðar og að ábendingavefur borgarinnar sé bara upp á punt. Látið er í það skína að hlustað sé á kvartanir en ekkert er gert. Svo virðist sem deildir og svið borgarinnar starfi ekki saman í það minnsta er eitthvað djúpstætt samskiptaleysi í gangi.

Vínveitingaleyfi í borginni hafa margfaldast og er miðborgin að verða einn stór partýstaður. Minnt er á að í borginni býr fólk, fjölskyldur með börn.  

Íbúum miðborgarinnar er sýnd afar lítil tillitssemi og er gild ástæða til þess að vekja athygli á þeirri staðreynd í tengslum við hina ‘grænu’ áherslu Reykjavíkurborgar að hávaðamengun er líka mengun.

 

 


Húrra! Gegnsæi og rekjanleiki eykst í borginni

tillaga Flokks fólksinsMig langar að segja frá því að tillaga Flokks fólksins er varðar að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál borgarfulltrúa og birtir á vef borgarinnar er nú komin í fjárhagsáætlun borgarinnar sem lögð var fram í gær á fundi borgarstjórnar. Þetta má sjá í kaflanum Ný upplýsingarkerfi sem er fylgiskjal í fjárhagsáætluninni. 

Þessi tillagan var lögð fyrir af Flokki fólksins á fundi borgarráðs 16. ágúst sl. og hljóðaði svona:

Lagt er til að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál eftir því hverjir eru málshefjendur þeirra til að auka gagnsæi og rakningu mála. Um er að ræða yfirlit yfir tillögur, fyrirspurnir og önnur mál sem borgarfulltrúar leggja fram í borgarráði, borgarstjórn eða á nefndarfundum. Í yfirlitinu skal tiltekið á hvaða stigi málið er eða hvernig afgreiðslu það hefur fengið. Yfirlitið skal birt á ytri vef borgarinnar.


Rýmkun hlutverks fagráðs kirkjunnar

Í gær var minn fyrsti dagur á kirkjuþingi 2018 sem kirkjuþingsfulltrúi. Ég er framsögumaður þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að kirkjuþing samþykki að rýmka hlutverk fagráðsins. Í stað þess að fagráðið taki einungis á málum er varða meint kynferðisbrot gætu allir, ef ályktunin yrði samþykkt, sem starfa á vegum kirkjunnar eða eiga þar hagsmuna að gæta vísað þar tilgreindum málum sínum til fagráðsins. Þetta næði t.d. yfir mál er litu að hvers lags ofbeldi svo sem einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi. Lagt er til að skipuð verði nefnd sem hefði það hlutverk að móta starfsreglur, verklag og stjórnkerfi, sem og yfirfara skilgreiningar í tengslum við þær breytingar sem lagðar eru til.


Endalausar móttökur hjá borginni

Í dag á fundi borgarráðs kom svar við fyrirspurn um veislu, viðburði og móttaka á vegum borgarinnar. Gerð var eftirfarandi bókun og einnig var ný tillaga vegna veislukostnaðar lögð fram af Flokki fólksins.

Bókunin:

Á síðasta ári var 20 milljóna króna varið í alls kyns viðburði, veislur og móttökur. Sundurliðun er þannig að tæpum 9 milljónum var varið í veitingar og 2.5 milljónum í vínföng. Önnur aðkeypt þjónusta eru rúmar 4 milljónir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins sér sannarlega mikilvægi í ýmsum viðburðum og hátíðum og þykir sjálfsagt að verja fé í hátíðir eins og Barnamenningarhátíð, hátíðir og viðburðir ætlaðir borgarbúum og hinum almenna starfsmanni borgarinnar.
Hins vegar er ljóst að hér er um mikla peninga að ræða sem að hluta til er að fara í móttökur ætlaðar þröngum hópi, einhverjum útvöldum. Á fáum mánuðum hefur sem dæmi verið boðið til á annan tug móttaka sem ætlaðar eru skilgreindum, stundum þröngum , jafnvel elítuhópum.
Allt er þetta greitt af almannafé. Minna skal á að það býr fólk í borginni sem á ekki til hnífs og skeiðar. Í borginni eru um 500 börn sem samkvæmt skilgreiningu eru fátæk. Þessi hópur sem oft er ekki háværasti hópurinn í borginni er ekki boðið í fínar móttökur á vegum borgarstjóra sem greiddar eru af almannafé. Þegar kemur að kostnaði sem þessum hlýtur það að vera skylda borgarmeirihlutans að velta við hverjum steini til að spara.
 
Tillaga:
 
Í ljósi þess kostnaðar sem borgin hefur eytt í alls kyns móttökur og viðburði suma ætluðum lokuðum hópum leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins til að farið verði ofan í saumana á þessum kostnaði með það fyrir augum að draga úr honum. Athuga skal hvort hægt er að draga úr kostnaði við veitingar, framreiðslu, gjafir og skreytingar. Skoða þarf hversu mikið er að fara í tilstand eins og þetta sem tengist einungis skrifstofu borgarstjóra og einhverjum útvöldum einstaklingum/hópum og hversu mikið er ætlað borgarbúum sjálfum eða er í þágu barna. Efst í forgangi þegar litið er til þessara mála eiga að vera borgarbúar sjálfir og hinn almenni starfsmaður borgarinnar. Það sem er í þágu barna þegar kemur að viðburðum og hátíðum sem er fé sem er vel varið. Það sem annars sparast við að velta við hverjum steini í þessu sambandi er fé sem mætti nota til að lækka skólamáltíðir, fjölga sálfræðingum til að draga úr biðlista, bjóða fátækum börnum upp á gjaldfrjáls frístundarheimili svo fátt eitt sé nefnt.
 
 

Spilað með fé borgarbúa

Mathöll, Laugavegi 107, fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum. Framkvæmdir við húsnæði Mathallarinnar á Hlemmi eru enn annar stórskandall af þessum toga hjá borginni. Margt kom á óvart í verkinu sem olli því að kostnaður varð þrefalt meiri en áætlað var. Þetta mál verður að skoða ofan í kjölinn. Öldur mun ekki lægja fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Svona getur þetta ekki haldið áfram í borginni. Finna þarf leiðir til að tryggja að áætlanir haldi í verkefnum sem þessum. Það er ekki hægt að bjóða borgarbúum upp á svona vinnubrögð þar sem farið er með fé þeirra eins og verið væri að spila fjárhættuspil. Þegar vísbendingar eru um að verk sé að fara fram úr áætlun þarf nauðsynlega að liggja fyrir einhver viðbragðsáætlun. Hversu skemmtilegur staður Mathöllin er skiptir bara ekki máli í þessu sambandi. Lífsgleði og lífshamingja sem Mathöllin er sögð veita mörgum eru ekki neinar sárabætur, alla vega ekki fyrir alla borgarbúa.

 


Hvorki hengja bakara né smið

Þegar upp er staðið hlýtur aðeins einn að vera ábyrgur fyrir framúrkeyrslunni við endurbyggingu braggans og það er borgarstjóri. Hann er framkvæmdastjóri borgarinnar. Hverjir unnu verkið eru varla ábyrgir. Við megum hvorki hengja bakara né smið.  

Ég er ekki tilbúin til að samþykkja eitthvað pukur þegar kemur að braggamálinu nú þegar rannsókn á uppbyggingarferlinu er að hefjast. Allar ákvarðanir og hverjir tóku þær þurfa að koma fram í dagsljósið. Borgarbúar eiga rétt á að fá að vita hvernig ákvörðunum var háttað og á hvaða stigi þær voru teknar. 

Nú er sagt við okkur borgarfulltrúa að við dreifingu gagna að rannsóknarhagsmunir skerðist fari þau í almenna og opinbera birtingu meðan á rannsókn stendur. Það kann að vera rétt.  

En hvernig á hinn almenni borgari að geta verið viss um allt komist upp á borðið? Þetta er spurning um traust og því hefði verið betri að fá ekki einungis óháðan aðila i verkið heldur einhvern utan Ráðhússins.

Flokkur fólksins hefur mótmælt því að Innri endurskoðun rannsaki málið vegna þessa að Innri endurskoðun þekkir þetta mál frá upphafi og hefur án efa setið fundi þar sem ákvarðanir voru teknar í sambandi við endurgerð braggans. Sem eftirlitsaðili kom Innri endurskoðun ekki með athugasemdir eða ábendingar þá. Hvað svo sem niðurstöður leiða í ljós er aðeins einn ábyrgur þegar upp er staðið og það er borgarstjóri.


Ekki sama hvar þú býrð og heldur ekki hvar þú vinnur

Borgarmeirihlutinn er á hraðri leið með að útrýma einkabílnum úr borginni. Liður í mótmælum gegn því er tillaga Flokks fólksins sem lögð var fyrir fyrir margt löngu þess efnis að borgarfulltrúar og starfsmenn Ráðhússins fengju frí bílastæði. Minna má á að borgarstjóri er með einkabílstjóra og margir borgarfulltrúar búa miðsvæðis. En það á ekki við um alla. Þessi tillaga var loks á dagskrá i morgun á fundi forsætisnefndar og sjá má svar borgarmeirihlutans í fundargerð. Hér er bókun Flokks fólksins sem gerð var þegar tillaga var felld:
"Í umræðunni um kostnað við frí bílastæði fyrir borgarfulltrúa og starfsfólks Ráðhúss, en tillaga þess efnis hefur nú verið felld, vill borgarfulltrúi minna á margs konar óráðsíu í fjármálum borgarinnar t.d. við rekstur skrifstofu borgarstjóra sem kostar um 800 milljónir á ári. Eins virðist vera hægt að henda fé í alls kyns hégómleg verkefni eins og bragga sem frægt er orðið og mathöll. En þegar kemur að gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir borgarfulltrúa og starfsfólk borgarinnar er ekki til fjármagn.

Hvað varðar starfskostnað, (sem notaður er sem rök til að fella tillöguna) sem á að vera til að dekka bílastæðagjöld, þá er hann sá sami án tillits til búsetu. Borgarfulltrúa finnst það ekki réttlátt að starfskostnaður sé sá sami fyrir þann sem t.d. býr í efri byggðum borgarinnar og þann sem býr í miðbæ eða vesturbæ. 
Það er mjög kostnaðarsamt fyrir þann sem kemur langt til starfa sinna að greiða allt að 1500 krónur og jafnvel meira fyrir vinnudag að ekki sé minnst á tímann sem tekur að komast til vinnu í þeirri umferðarteppu sem einkennir Reykjavík. Hvað varðar borgarfulltrúana má minna á að Alþingismenn hafa frí bílastæði þótt það skipti vissulega engu máli í þessu sambandi"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband