Áhrif auglýsinga, ólíkar upplifanir.

Áhrifin sem auglýsingar hafa okkur eru eflaust mjög fjölbreytileg. 
Þær auglýsingar sem nú er verið að sýna um „mjólk“ sem dæmi, finnst mér persónulega alveg ómögulegar.  Ég drekk ekki mikla mjólk öllu jafnan en eftir að hafa horft á auglýsingu frá mjólkurframleiðendum (Muuu) sem nú ganga kvöld eftir kvöld um mjólk,  langar mig síst af öllu í mjólk. Þær hafa einfaldlega neikvæð áhrif á mig .

Talandi um aðrar auglýsingar þá langar mig að nefna auglýsingar frá Umferðarstofu. Þær ganga reyndar út á allt annað en mat og drykk heldur eru að minna á aðgát og varkárni í umferðinni. Auglýsingar frá Umferðastofu hafa mér oftast nær þótt vera mjög góðar. Þær hitta einhvern veginn í mark, fá mig og vonandi sem flesta til að hugsa um mikilvægi aðgátar í umferðinni og mögulegar afleiðingar glæfra,- og ölvunaraksturs sem dæmi.

Auglýsingar almennt séð eru sannarlega stór hluti af lífi okkar. Við sjáum þær daglega í öllum blöðum og horfum á fjölmargar í sjónvarpinu á hverju kvöldi.  Ég er þess fullviss að mikið er lagt í hugmyndavinnu og gerð þeirra og markmiðið er ávalt að ná til neytandans/hlustandans.
En stundum, alla vega hjá sumum, virka þær þveröfugt.


Að standa við gerða samninga

Ég hef verið að reyna að setja mig inn í þetta mál með Laufás í Eyjafirði.  En þar standa leikar þannig að sonur fyrrverandi prests, séra Péturs Þórarinssonar heitins vill ekki standa við gerðan samning sem kveður á um að hann geti stundað búskap á Laufási þar til faðir hans léti af prestskap.

Í fréttinni segir að eftir að séra Pétur lést óskar sonur hans eftir því að búa áfram á jörðinni. Kirkjuráð samþykkti hins vegar, til að koma á móts við hann, að beina þeim tilmælum til stjórnar prestssetra að honum yrði boðinn fjögurra ára leigusamningur án hlunninda en jafnframt var þess krafist að hann myndi flytja húsið af jörðinni eins og áður hafði verið um samið.

Húsið hafði hann fengið leyfi til að byggja fyrir sig og fjölskyldu sína sem er óvenjulegt sbr. reglur sem kveða á um að þegar prestskipti verða á prestssetrum taki nýr prestur við allri jörðinni og hlunnindum sem henni fylgja. Þess vegna hafði húsið verið byggt þannig að auðvelt er að flytja það.

Án þess að vilja gera lítið úr tilfinningarlegu gildi  og umfangi búskapar sonar Péturs og fjölskyldu hans þá samþykkti hann á sínum tíma með undirskrift sinni að flytja sig og hús sitt af jörðinni þegar faðir hans hætti prestskap.

Nú hins vegar vill hann ekki framfylgja samningnum og segir (sjá frétt í Mbl. í dag) að hann líti svo á að fyrst kirkjan sé tilbúin til að leigja honum jörðina áfram til búskapar geti það ekki skipt öllu máli þó húsið fái að vera áfram á jörðinni auk þess sem hann telur að fjögurra ára leigusamningur sé of stuttur?

Samningur er samningur en svo virðist sem að þrátt fyrir skýrt orðalag og sameiginlegan skilning samningsaðila við undirritun sé samt hægt síðar meir þegar á samninginn reynir, að umsnúa innihaldinu þannig að allt annar skilningur rati upp á dekk.  


 


Óbætanlegt tjón

Sjö listamenn urðu fyrir gríðarlegu tjóni þegar vinnusvæði þeirra í kjallara Korpúlfsstaða  fylltist af vatni í óveðrinu sem reið yfir í fyrradag.  Nú er þetta fólk búið að missa atvinnu sína, atvinnutæki, efni til listmunagerðar auk fjölmargra listaverka sem ekki verða metin til fjár.

Í svona tilviki þyrfti að vera til  ábyrgðarsjóður sem hægt væri að úthluta úr. Sumt verður vissulega ekki bætt með peningum en með fjárstyrk gætu þessir listamenn hafist handa við að endurbyggja og endurnýja aðstöðu og tækjabúnað.
Þessir listamenn eiga alla mína samúð svo mikið er víst.


Læra af fortíð, huga að framtíð og lifa í nútíð.

Vafra um hugans fylgsni og sýt,
velti mér upp úr mistakahít.
Læri af fortíð og huga að framtíð,
fagnandi nútíðar nýt.
(KB)


Já frú ráðherra

Nokkuð hefur verið skrafað og skeggrætt um hvort halda eigi í
titilinn ráðherra eða hvort eigi að skipta honum út fyrir eitthvað
annað hugtak sem bæði kynin geta borið gegni þau þessu
virðingarmikla embætti.

Sitt sýnist hverjum eins og gengur.
Persónulega finnst mér þetta gott eins og það er enda er erfitt að
finna hugtak sem falið getur í sér nákvæmlega sömu merkingu
og orðið ráðherra.  Það er ekki einungis merkingin heldur einnig
skynjunin og skilningurinn á bak við orðið sem hér um ræðir.
Allt fram til þessa dags höfum við kallað þá sem þessu embætti
gegna ráðherra og gildir þá einu hvers kyns viðkomandi er.


Sú var tíðin að engin kona sat á ráðherrastól hér á landi en
nú er það að verða æ algengara að konur gegni þessu embætti
sem öðru í  samfélaginu. 
Þess vegna er það svo sem ekki skrýtið að einhverjir sjái það
tímabært að finna nýjan titil sem vísað getur til beggja kynja.
Fyrir minn smekk myndi ég helst vilja nota orðið ráðherra áfram.
Hugtakið forseti er einnig karlkynsorð og höfum við leyst málið með
því að segja frú forseti sbr. þegar frú Vigdís Finnbogadóttir var forseti.


Í 24 stundum í fyrradag var verið að fjalla um þetta og bar pistillinn
yfirskriftina Ráðherfa og laun láglaunakvenna.
Þar segir að „Samfylkingin hafi mælt með þingsályktunartillögu
á Alþingi þess efnis að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa
breytingar í þessa átt.

Þingmaður VG sagði að sér hugnuðust vel breytingar að tekið
yrði upp orð sem hefði á sér annan blæ, lausna við
drottnunar- og yfirburðatilburði.“


Ráðherra, það vil ég verða,
vænti mikils af því.
Víst þykja Vinstri grænum ég herfa
og vilja helst láta mig hverfa.
(KB)


Reykjavíkurlestin

Hugmynd að lestarsamgöngum í Reykjavík.
Í tengslum við umræðu um Sundabraut og ekki síst flutnings
flugvallarins á Hólmsheiði má vel leiða hugann að þeim möguleika að leggja lestarteina milli helstu hverfa í Reykjavík. 

Á höfuðborgarsvæðinu eru í aðalatriðum tveir umferðarásar, annar norður-suður þ.e. frá Elliðaárósum og suður í Hafnarfjörð meðfram Reykjanesbrautinni og hinn vestur-austur frá Háskólasvæðinu meðfram Miklubraut í átt að Hólmsheiði.
Það þarf í raun aðeins tvær
lestarleiðir til að mæta þörfum fjölda íbúa.

Kostir þess að nota lest sem samgöngutæki?
Ástæða þess hversu hagkvæmt það er að nota lestir til samgangna er m.a. vegna þess að rafmagnið sem notað yrði til að knýja þær áfram er framleitt hér á landi.
Séð út frá umhverfissjónarmiði, með losun
gróðurhúsalofttegunda og mengun í huga, hefur notkun rafmagns algjöra sérstöðu. 

Ef litið er til þess að flugvellinum kunni að verða fundinn staður á Hólmsheiði þá verður sú hugmynd mun áhugarverðari en ella ef hægt væri að taka lest t.d. frá miðbænum og upp á Hólmsheiði. 

Vonandi verður þessi samgöngumöguleiki skoðaður til hlítar áður en búið verður að ráðstafa öllu landi undir vegi og byggingar.
Eftir það er það
nefnilega um seinan.


 


Ein í viðbót svona í tilefni þorrans og svo er ég hætt

Þorrinn færir hreysti og þor,
Þór og goðin við hyllum.
Súrir pungar og sultutrog,
af sviðum við magana fyllum.
(KB)

Frá mönnum til málefna, frá orðum til verka

Reykjavík brotin og brunnin er,
umbrotin komin úr böndum.
Hefjumst nú handa og hreinsum til,
heilshugar saman við stöndum.
(KB)


Ölvaður ökumaður sleppur með skrekkinn

Ölvaður ökumaður varð valdur að árekstri aðfaranótt laugardags. Samkvæmt fréttum slapp fólkið í bílunum nokkuð vel. Þarna hefði sannarlega getað farið illa.

Áfengi er, eins og mörgum er vel kunnugt, slævandi efni sem ávalt hefur í för með sér persónubreytingar þótt misjafnar og mismiklar séu. Áfengi hefur m.a. þau áhrif að skynfærin slævast, dómgreind slævist og sjálfsstjórn minnkar. Önnur áhrif sem neytandinn upplifir oft eftir að hafa innbyrgt ákveðið magn eru þau að honum sjálfum finnst hann vera minna vímaður en hann í raun er. Honum finnst sem hann sé skýr í kollinum, að færni hans sé jafnvel meiri en nokkru sinni, hann upplifir síður ótta né hræðslu og finnst ósennilegt að nokkuð slæmt geti hent sig.

Ef allar þær mörgu breytingar sem áfengi kallar fram á sál og líkama skal mann ekki undra hversu mikil rúlletta akstur undir áhrifum í raun er.

Vonandi verður reynsla þessa ökumanns til þess að hann fari í rækilega naflaskoðun og endurskoði lífstíl sinn ofan í kjölinn. Það er ekki víst að hann verði eins heppinn næst, endurtaki hann leikinn.


Slakir Staksteinar

Ég hef í gegnum tíðina gert það að venju minni að lesa Staksteina Morgunblaðsins og oftast haft gaman að.  Staksteinar hafa verið með svona eilitlum leiðarabrag og í þeim hefur verið hægt að skynja ritstjórnarstefnu blaðsins.

Ég er ekki frá því að mér finnist þessum pistli hafa hrakað í þeirri merkingu að þeir eru ekki lengur eins áhugaverðir að lesa eins og áður.
Skrifin er oft helst til of rætin fyrir minn smekk og athugasemdirnar sem þarna birtast allt að yfirlætislegar á köflum.


Sérlega slæm tímasetning á bréfi Guðjóns Ólafs

Það er óhætt að segja að tímasetning á bréfi Guðjóns Ólafs var verulega slæm fyrir Framsóknarflokkinn.  Jarðvegurinn hefði ekki getað verið viðkvæmari og þegar á heildina er litið sér maður fyrir sér að þetta muni næstum geta riðið Framsóknarflokknum að fullu.

Björn Ingi hefur nú sagt af sér hvort sem það er beinlínis vegna þessa bréfs Guðjóns og viðtalsins við hann í kjölfarið. Án þess að geta verið dómbær á upplifun og líðan Björn Inga eftir allt sem á undan er gengið þá hélt maður kannski að hann stæði þessa aðför Guðjóns af sér. 

En margt smátt gerir eitt stórt. Kannski var þessi „rýtingur Guðjóns“ í bakið á Birni Inga kornið sem fyllti mælirinn.  Þótt raunir séu sagðar styrkja manninn þá er það mín reynsla eftir að hafa unnið með fólk og með fólki árum saman að all flestir þola bara visst mikið af erfiðleikum og mótlæti.  Það er á þessu kvóti eins og á svo mörgu öðru. Þegar mælirinn er fullur, kvótinn búinn,  þá langar viðkomandi oft einfaldlega að draga sig í hlé, hvílast og reyna að ná áttum. 

Ég óska Birni Inga alls hins besta og vona að honum farnist vel við hvað eina sem hann tekur sér nú fyrir hendur.  Komi hann aftur til leiks verður hann sannarlega reynslunni ríkari en þegar hann tók sín fyrstu pólitísku skref fyrir ekki svo margt löngu.


Vottun heilbrigðis

Margsinnis í kvöld í umfjöllun um stjórnarskipti í borginni hefur sjónum fréttamanna verið beint að veikindaleyfi Ólafs F. Magnússonar en eins og menn muna er ekki langt síðan hann kom úr slíku leyfi.

Einhverra hluta vegna var hann beðinn um að skila inn veikinda/heilbrigðisvottorði og það sem meira var rötuðu upplýsingar um það í fjölmiðla sem veltu sér upp úr því hvað mögulega hefði hrjáð borgarfulltrúann eins og ekkert annað væri fréttnæmara.

Síðan hvenær er borgarfulltrúi eða aðrir sem gegna sambærilegum embættum krafnir um vottorð þegar þeir koma úr veikindaleyfi?
Er þetta kannski nýtt í starfsmannastefnu borgarinnar?


Er hægt að semja við þjóf?

Hin óvenjulega auglýsing sem bar titilinn „Þjófur“ fór líklega ekki fram hjá neinum sem las Morgunblaðið sl. fimmtudag. Í auglýsingunni höfðar maður til þjófs sem hafði tekið ófrjálsri hendi persónulegar eigur hans um að þjófurinn selji sér munina aftur.
Hann segir í auglýsingunni að hann velti því fyrir sér hvort ekki sé hægt að komast að samkomulagi sem báðir hafi hag að.

Vel er hægt að skilja hvað þeim sem stolið var frá gengur til með þessari beiðni sinni enda um að ræða muni sem hafa persónulegt gildi fyrir hann, eitthvað sem honum finnst óbærilegt að missa. Hann er því tilbúinn til að leita allra leiða til að fá hlutina til baka.

Er hægt að semja við þjóf?
Spyrja má hvort sá sem á annað borð leggur sig svo lágt að hrifsa með sér eigur annarra sé nægjanlega traustur til að hægt sé að gera við hann einfaldan samning? 
Satt að segja óttast ég að þegar þjófurinn og þjófar almennt séð fá slík tilboð þá sjái þeir möguleika á að færa út kvíarnar á glæpabraut sinni.  Skyndilega eru þeir komnir með samningsstöðu og hana bara nokkuð sterka. Þeir komast upp með glæpinn og fá auk þess greiðslu frá eigendum þýfisins fyrir það eitt að skila því til baka. 

Hinar nýju víddir á afbrotabrautinni gætu nú allt eins falið í sér að stela einmitt svona persónulegum hlutum eins og tölvum sem geyma myndir, e.t.v. persónuleg, viðkvæm gögn, eitthvað sem hefur tilfinningarlegt gildi fyrir eigendurna og síðan að semja um greiðslu fyrir að skila því. 

Komi upp sú staða að þolandinn þráist við að ganga til samninga við þjófinn gæti hinn síðarnefndi allt eins hótað að opinbera gögnin fái hann ekki greitt, þ.e. gert tilraun til að múta. 
Jafnvel þótt eigandi þýfisins greiði umsamið gjald getur hann ekki verið viss um að málinu sé lokið. Þjófurinn gæti allt eins séð sér enn áframhaldandi leik á borði og hagað málum þannig að hann geti haldið áfram að krefjast greiðslna.

Að semja við þjóf er áhættusamningur þar sem engin trygging, nema síður sé, er fyrir því að þjófurinn standi við samkomulagið.  Það er sorglegt að finna sig knúin til að semja við glæpamann sem brotið hefur gróflega gegn mann.   

Til að draga úr líkunum á að verða fórnarlamb þjófa og annarra óprúttinna aðila dugar fátt annað en að vera stöðugt á varðbergi,  hafa augun á eigum sínum ef ókunnugir eru nærri, læsa mannlausum bílnum jafnvel þótt um sé að ræða örfáar mínútur og einfaldlega haga sér eins og ávalt sé von á hinu versta. 
Þetta eru óskemmtilegar hugsanir en á maður nokkurra annarra kosta völ?

 


Hringlandaháttur með Laugaveg 4 og 6

Hvort friða eigi gamalt hús eða ekki byggist á fjölmörgum stærri sem smærri þáttum. Skoða þarf sérhvert hús einstaklingslega út frá sögu þess, gerð, ástandi og staðsetningu svo aðeins fátt eitt sé nefnt.

 afnvel þeim sem er það hjartans mál að friða gömul hús gætu þótt í einhverjum tilfellum ástæða til að rífa gamalt hús og eins kann að vera að einhver sem er þeirrar skoðunar að rífa sem flest gömul hús til að byggja ný myndu allt eins sjá ástæðu til að friða eitthvað ákveðið hús. 
Viðhorf og ákvörðun um friðun eða niðurrif húsa getur þannig aldrei orðið svart/hvít.

Eins og fram kemur í greinum og pistlum dagblaðanna á ákvörðun um afdrif þeirra húsa sem mest eru í umræðunni nú þ.e. Laugavegur 4 og 6 allt að tveggja ára feril. 
Búið var að ákveða að þau skyldu rifin. Tillögur að nýbyggingum hafa nú þegar verið samþykktar af Skipulagsnefnd Reykjavíkurborgar.

Nú skyndilega er málið í uppnámi því sú tillaga hefur verið lögð fram að friða Laugaveg 4 og 6. 
Gripið hefur verið til tveggja vikna friðunar á meðan menntamálaráðherra skoðar málið.

Það er eiginlega ekki annað hægt en að hafa samúð með eigendum Laugavegs 4 og 6 og örðum sem lagt hafa mikla vinnu í að fullklára þessar tillögur.  Svona hringlandaháttur hlýtur að taka toll.  Málið hefði horfið öðruvísi við hefði einfaldlega tillaga um friðun komið fyrir langa löngu og þá engar tillögur að nýbyggingum þar að leiðandi litið dagsins ljós.

Verði húsin friðuð er ríki og borg skaðabótarskyld.  

Ég vona að úr því sem komið er verði það niðurstaðan að haldið verði áfram með það sem ákveðið hefur verið. 


Hver er hæfur til að meta hæfni?

Í þessum pistli ætla ég ekki að fjalla sérstaklega um nýlega ráðningu sets dómsmálaráðherra í embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Norð-Austurlands og Austurlands.
Hins vegar langar mig að deila með bloggheimi nokkrum vangaveltum um núverandi fyrirkomulag um mat á hæfi umsækjenda og hugmyndir um framtíðarfyrirkomulag þess.

Ég vil í fyrsta lagi greina á milli faglegrar hæfni og persónulegrar. Capacent er t.d. fyrirtæki sem gjarnan er fengið til að meta hæfi umsækjenda í sérfræðingsstöður.
Með allri virðingu fyrir Capacent þá er ég þeirrar skoðunar að setja megi spurningarmerki við hvort Capacent hafi t.d. forsendur til að meta faglegt hæfi.  Faglegt hæfi tel ég að aðeins sá eða þeir geti metið sem eru sérfræðingar á viðkomandi sviði. Til að meta faglegt hæfi hlýtur að verða að vera sérstaklega skipuð dómnefnd fagaðila sem starfar samkvæmt fyrirfram skilgreindu hlutverki. Capacent  er hins vegar vel til þess fallið að meta persónulega þætti, þ.e. hvort viðkomandi hafi þá kosti að bera til að geta sinnt starfinu á farsælan máta.

Þegar um er að ræða skipun í embætti hér á landi hef ég ákveðnar efasemdir um að hin faglega dómnefnd eigi að vera skipuð einvörðungu íslenskum sérfræðingum. Ástæðan er sú að í þessu litla samfélagi þarf ekki að leita langt yfir skammt til rekast á einhver tengsl hvort heldur er persónuleg eða fagleg. Reglugerð um vanhæfi getur einungis tekið til náinna tengsla.  Tengsl, þótt hvorki séu ættar- eða vinatengsl geta litað viðhorf og haft áhrif á ákvarðanatöku enda þótt sá sem matið framkvæmir hefur einsett sér að setja hlutleysi ofar öllu.

Vegna þessa tel ég mjög heppilegt að við mat umsækjenda í  embætti eins og skipun dómara, sé fenginn utanaðkomandi sérfræðingur (frá öðru landi) þótt ekki væri nema til að fara yfir lokaniðurstöður dómnefndarinnar. 

Er mat dómnefndar bindandi fyrir ráðherra? 
Sitt sýnist hverjum um þetta. Ég er þó þeirrar skoðunar að ef samfélagið ákveður að halda úti dómnefnd á annað borð sé ekki óeðlilegt að ráðherra skipi í embættið í samræmi við niðurstöður hennar og velji þann sem hæfastur er metinn til verksins.

Séu um fleiri enn einn að ræða sem metinn er hæfastur finnst mér alveg eðlilegt að sé ráðning í slík embætti eitt af embættisverkum ráðherra velji hann þar á milli. 


Verðmunur á árskortum í líkamsrækt. Neytendavaktin gleymdi Nautilus

Í pistli Neytendavaktarinnar í 24stundum er að þessu sinni fjallað um verðmun á árskortum í líkamsrækt. Þar segir að samkvæmt þeirra könnun sé verð á ódýrustu kortunum hjá Hress eða 39.520 og dýrustu kortunum hjá Hreyfingu en þau kosta 74.500.
Ekki er tekið tillit til tilboða eða ýmissa fríðinda ó könnuninni. Verðmunurinn er því 113%

Hér virðist sem Neytendavaktin hafi sofnað á vaktinni því árskortin í Nautilus kosta 31.990.
Því er við að bæta að Nautilus er stórfín líkamsræktarstöð. Í árskortinu eru sundferðir innifaldar.
Sjálf hef ég stundað líkamsrækt þarna árum saman. Það væri gaman að sjá þar fleiri ný andlit.


Skuldir vegna jólanna

Þá er komið að því að gera upp reikninga sem tengjast útgjöldum vegna jólahalds í tilvikum þeirra sem ekki gátu greitt vörurnar að mestu út í hönd þ.e. áttu fyrir þeim. Næstu vikur og mánuðir fara hjá mörgum í að greiða fyrir jólagjafirnar, jólafötin og jólamatinn og annað það sem sérstaklega tengdist jólahátíðinni.

Það er
ekki bara að jólaundirbúningurinn er farinn að hefjast fyrr með tilkomu jólaskreytinga í verslunum og á götum úti jafnvel um miðjan nóvember heldur lýkur þeim einnig seinna sérstaklega hjá þeim sem eiga eftir að greiða upp skuldir sem tengjast þeim.
Hjá þeim er ,,jólunum“  kannski ekki alveg lokið
fyrr en síðustu kreditkortafærslurnar hafa horfið af yfirlitinu.

Sá hópur sem bíður þess að borga þessar skuldir er vísast til fjölbreyttur. Gera má því skóna að ákveðinn hluti séu þeir sem hafa ekki nóg að bíta og brenna vegna lágra launa, veikinda, örorku eða annarra ástæðna en vilja þrátt fyrir bágborinn efnahag gleðja ástvini sína og tryggja þeim gleðilegar minningar um gjafir og góðan mat þessi jól.

Annar hluti þessa hóps hefur einfaldlega eytt um efni fram jafnvel langt umfram greiðslugetu. Þeir kunna að hugsa sem svo að þetta séu nú einu sinni jól og því engan veginn hægt að sætta sig við annað en að kaupa margt og mikið hver svo sem efnahagurinn er. Sumir hafa gert það að venju sinni að greiða fyrir vörur með jöfnum afborgunum þ.e. greiðsludreifingu.

Enn annar hluti þessa hóps er fólk sem
sér kannski ekkert fram á að geta greitt þessar skuldir, hvorki nú né síðar.  Þeir kunna að hafa misst sjónar af sambandinu milli þess sem þeir eiga eða eru líklegir til að eignast og þess sem þeir skulda.  Í þeirra huga er staðan einfaldlega svo slæm að ekki skipti máli þótt hún versni.
Svona er þetta mismunandi hjá fólki í okkar þjóðfélagi.

Forsetakosningar í sumar?

Hvað vill þjóðin?
Sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að gefa aftur kost  á sér til næstu fjögurra ára í embætti forseta Íslands kemur í sjálfu sér fæstum á óvart.  Þegar litið er yfir þau ár sem Ólafur hefur gengt embættinu er ekki hægt að segja annað en að hann hafi staðið sig alveg ágætlega. Ólafur er mörgum kostum gæddur og hefur auk þessa komið inn með nýjar áherslur eins og von er vísa þegar nýtt blóð tekur að renna um æðar svo fjölþætts embættis sem forsetaembættið er.

Vigdís Finnbogadóttir sem einnig sat í embætti í 16 ár var einnig mjög ástsæl. Vigdís var ekki pólitískur leiðtogi, hún hafði aldrei verið viðloðandi neinn stjórnmálaflokk né komið beint eða óbeint að pólitísku starfi ef ég man rétt.  Þess vegna fannst mörgum það viðbrigði þegar Ólafur náði kjöri í embættið enda þar á ferðinni gamalgróinn stjórnmálamaður, jafnvel nokkuð umdeildur og sannarlega pólitískur í hugsun og verki.  Enda þótt Ólafi hafi tekist að aðskilja pólitískar skoðanir sínar frá embættisverkum með ágætum þá hafa einstaka embættisfærslur hans í gegnum árin litast dálítið af þeim. Það er í sjálfu sér alls ekkert óeðlilegt enda útilokað að ætlast til þess að fyrri reynsla hans og störf afmáist út með öllu þótt hann setjist á forsetastól.

Vill þjóðin pólitískan eða ópólitískan forseta?
Um þetta væri gaman að fá einhverja umræðu og að vilji fólksins hvað þetta varðar yrði e.t.v. kannaður.

Það er í raun hið besta mál að Ólafur Ragnar ætlar að gefa kost á sér enn á ný.
Þó verð ég að segja að það væri mjög gaman ef fleiri frambærilegir kandídatar, konur og menn myndu einnig gefa kost á sér. Aðdragandi og allt það sem fylgir forsetakosningum er afar skemmtilegur tími sérstaklega ef valið stendur á milli fleiri en tveggja. Þá spáir þjóðin og spekúlerar hver sé nú frambærilegastur og besti kosturinn fyrir þjóðina.  Það að standa frammi fyrir vali er einfaldlega alltaf skemmtilegt.

Nú þegar heyrst hefur að Ástþór Magnússon muni e.t.v. ætla að fara fram gegn Ólafi þá er alveg tilvalið fyrir þá sem ganga með forsetann í maganum að skella sér slaginn.  Þjóðin þarf hvort eð er að greiða háar upphæðir vegna mögulegs mótframboðs Ástþórs.


Gleðilegt nýtt ár

Um áramót
 
Eins og foss af fjallsins brún
fellur áfram tímans straumur.
Líkt og himinljóssins rún
lífsins blikar yfir draumur.
 

Ingibjörg Þorgeirsdóttir.  Ljóð, 1991.

Ég óska ykkur öllum friðar og farsældar á nýju ári með þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband