Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Gleðilegt nýtt ár

Um áramót
 
Eins og foss af fjallsins brún
fellur áfram tímans straumur.
Líkt og himinljóssins rún
lífsins blikar yfir draumur.
 

Ingibjörg Þorgeirsdóttir.  Ljóð, 1991.

Ég óska ykkur öllum friðar og farsældar á nýju ári með þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

Saman um áramót

Nú fer í hönd sá tími ársins, áramótin , þar sem unglingarnir þurfa hvað mest á stuðningi og aðhaldi foreldra sinna að halda.
Um áramót hefur sú þróun orðið í íslensku samfélagi að nýju ári er fagnað fram á nótt og sumir hverjir eru enn að fagna þegar birtir af nýjum degi, þeim fyrsta á nýju ári.
Eðlilega leyfa því margir foreldrar börnum sínum að vaka lengi og taka þátt í gleðinni.

Eins og mörg fyrri áramót mun alltaf einhver hópur ungmenna safnast saman um og eftir miðnætti og neyta áfengis og sumir jafnvel annarra vímugjafa. Einhverjir þessara krakka langar til að vera hluti af félagahópnum en hafa ekki í hyggju að drekka.  Þá reynir á þá að standast allan hópþrýsting og segja nei takk við öllum vímugjöfum hvaða nafni sem þeir kunna að nefnast.
Fyrir marga unga og ómótaða unglinga getur þetta reynst erfitt. Þeir velta vöngum yfir því hvort ákvörðun þeirra um að vilja ekki taka þátt í neyslunni hafi áhrif á stöðu þeirra innan hópsins.

Þeir foreldrar sem taka þá ákvörðun að vera með, eða í það minnsta að vera nærri unglingunum sínum á þessum tímamótum eru með því aðhaldi að veita þeim mikinn stuðning á þessu viðkvæma tímaskeiði þeirra. 

Með því að segja við unglinginn sinn, „við viljum fagna nýju ári með þér og að við séum öll saman “ eru foreldrarnir jafnframt að gefa börnum sínum til kynna hversu vænt þeim þykir um þau og að ekkert skipti þau meira máli en velferð þeirra.

Fögnum nýju ári í návist barnanna okkar og gerum þannig nýja árið að þeirra ári.  

Fuglasöngur á aðfangadag

Það sem gladdi hvað mest á aðfangadag voru fuglarnir á fóðurbretti sem við höfum komið fyrir í tréi fyrir utan húsið okkar hér í Seljahverfinu.
Þar gæddu Auðnutittlingar og einstaka þröstur sér á korni og jarðarberjum. 
Við opinn glugga mátti heyra fuglasöng og tíst sem úti væri hásumar.
Litlu krílin voru alsæl. 
Mikið er nú gaman að huga að þeim allra smæstu svona í miðju jólaamstri.
Ég reyndi að ná góðri mynd af hópnum en þar sem aldrei birti almennilega þennan dag er hún ekki alveg nógu skýr.

Gleðileg jól kæru bloggvinir

Gleðileg jól sömuleiðis góðu bloggvinir. Þakka ykkur fyrir árið sem er að líða.
Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar farsældar á komandi ári og hlakka til kynnast ykkur sem flestum enn betur. 

Með þessari jólakveðju langar mig að deila með ykkur þessu ljóði.

Bernskujól
 
Máð fótspor
feta um innviði hugans
flöktandi kertaljósið lýsir leið
 
fannbreiða og glittir í mann í rökkrinu
rjúpnakippa á öxl
 
kallarnir með hrúta í bandi
á fyrsta degi tilhleypinga
það er Þorláksmessa
 
jólakveðjur útvarpsins hljóma þegar kvöldar
tandurhrein hátta ég í nýjum náttfötum
 
sofna út frá saumavélarhljóði
örugg
veit að mamma klárar jólafötinn
 
aðfangadagur og biðin endalaus
loksins ilmur af rjúpum og greni
klukknahringing og
hversdagurinn er ekki lengur til
 
í djúpi sjálfs míns logar jólaljósið
 

Stefanía G. Gísladóttir.  Munum við báðar fljúga, 2004.

 


Misskilningur að það sé í lagi að aka bíl eftir einn drykk. Umferðarstofa segir það lögbrot

   

„Eftir einn ei aki neinn“ 
Sem stendur er sérstakt átak í gangi hjá Umferðarstofu sem gengur m.a. út á að leiðrétta þann misskilning að það sé í lagi að aka bíl svo lengi sem áfengismagn í blóði sé undir refsimörkum, þ.e. 0.5 prómill. 
Einar Magnús Magnússon, upplýsingarfulltrúi Umferðarstofu segir í viðtali í Mbl. í gær að það varði við lög að aka eftir neyslu áfengis, sama hversu lítið magnið er. Hann segir jafnframt að með þessu átaki sé verið að leiðrétta þann misskilning að það sé „í lagi“ að aka bíl svo lengi sem áfengismagnið sé undir refsimörkum þ.e. 0.5 prómill. En er það lögbrot?

Ég held einmitt að margt fólk sem á annað borð notar áfengi líti ekki á að það sé að brjóta lög með því að aka eftir neyslu svo fremi sem neytt hefur verið óverulegs magns og að það meti sem svo að áfengismagnið í blóðinu sé hvergi nærri refsimörkum. Hvort því finnist það „í lagi“ eða yfir höfuð skynsamlegt er eflaust mjög einstaklingsbundið.

Sumt fólk sest hiklaust undir stýri eftir að hafa fengið sér 1 glas eða drukkið  1-2 glös með mat. Það segir ef til vill við sjálft sig að verði það stöðvað af lögreglu muni ekki mælast nægjanlega mikið magn í blóði til að það kalli á alvarlegar afleiðingar svo sem ökuleyfissviptingu og/eða háa sekt. Um þetta getur fólk hins vegar ekki verið visst um. Eftir eitt glas getur áfengismagnið í blóðinu farið í 0.5 prómill og jafnvel yfir þau mörk  allt eftir því hvenær ekið er eftir neysluna. Margir aðrir þættir geta einnig haft áhrif sem dæmi hvort viðkomandi hefur neytt áfengisins á fastandi maga eða með, eða eftir mat svo fátt eitt sé nefnt.  

Í viðtalinu við Magnús kemur fram að sé ökumaður stöðvaður og í honum mælist minna en 0.5 prómill í blóði þá séu afleiðingarnar þær að honum er gert að hætta akstri og er sviptur lyklunum sem hann getur sótt í fyrsta lagi daginn eftir. Þetta eru vissulega óþægindi en ég tel það nokkuð víst að sumir eru tilbúnir til að láta á þetta reyna fremur en að skilja bílinn eftir telji þeir að áfengismagn í blóði sé undir refsimörkum. Fyrir marga eru þetta léttvægar afleiðingar og því vel líklegt að þeir muni taka áhættuna aftur.

Til að ná tökum á ölvunarakstri þarf a.m.k. tvennt að koma til.
Ef það er lögbrot að aka eftir nokkra neyslu jafnvel þótt áfengismagnið í blóði nái ekki refsimörkum þurfa afleiðingarnar að vera aðrar og meiri en smávægileg óþægindi fyrir þann sem „brotið“ fremur.
Öðruvísi er hætta á að viðkomandi taki málið ekki mjög alvarlega.

Líklegt má telja að vænta megi árangurs til lengri tíma ef tækist að höfða til ökumanna þannig að viðhorfabreyting næði að eiga sér stað. Til dæmis að hver og einn hugsi ekki á þeim nótum að akstur eftir tvo drykki sé áhættunnar virði og eins að eftir eitt eða tvö glös sé viðkomandi ekki að reyna að sigta út  hvoru megin 0.5 prómillanna áfengismagnið í blóðinu er heldur ákveði bara einfaldlega að aka ekki.

Átak gegn ölvunarakstri er gott og gilt en þyrfti að vera allt árið um kring ef vel ætti að vera. Miklu máli skiptir að ná til þeirra sem eru að undirbúa sig undir ökuprófið. Ekki er ósennilegt að einmitt í því ferli séu einstaklingarnir hvað mest móttækilegir fyrir fræðslu um mikilvægi þess að forðast alla áhættuhegðun, hraðakstur og að “Eftir einn ei aki neinn„


Að huga að því smáa

Á hverjum degi á aðventunni sendir hann V. Ljósálfur Jónsson vinum og vandamönnum um land allt jólaglaðning í tölvupósti í formi ljóða/kvæða.
Þetta kom í gær.
                                
                                   Jólatré


                                       Á
                               jólatrénu
                        brothættar tyggjó-
                     kúlur og englar fljúga í
                 kringum tréð hring eftir hring.
              En þeir sofna um leið og við lokum
            augunum.  Nóg að blikka auga og þeir
    dotta, fá sér stuttan lúr.  Kertaljósin loga glatt.
     Undir trénu hvíla inniskór, greiða, munnharpa,
        spegill, varalitur, leikfangahestur, hálsmen,
hanskar, brúða sem geymir bleiu, snuð og náttkjólinn
   sinn í poka.  Hún fær að sofa við vanga stúlkunnar
                                      í
                                   nótt.

Kristín Ómarsdóttir.  Jólaljóð, 2006.

Að segjast vera annar en hann er

Mikið hefur verið skrifað um uppátæki Vífils Atlasonar sem tók upp á því að hringja í forseta Bandaríkjanna og þykjast vera forseti Íslands. 
Mín fyrsta hugsun var þegar ég heyrði þetta: Hvar fékk Vífill þetta símanúmer?
Einnig velti ég fyrir mér hvað forseta Íslands fyndist um þetta uppátæki?

Það að hringja í annan aðila og ljúga til nafns getur nú varla flokkast undir að vera eitthvað sem auðvelt er að samþykkja.
Ef um létt spaug á að vera að ræða er mikilvægt að leiðrétta prettina hið fyrsta. Stundum hafa hrekkir sem átt hafa að vera saklausir og sniðugir haft neikvæðar afleiðingar.
Þetta ákveðna símtal hefði jafnvel geta haft einhverja eftirmála.


Jólatónleikar Fíladelfíu - Fyrir þá sem minna mega sín.

Ég var á stórgóðum jólatónleikum í síðustu viku sem haldnir voru á vegum Hvítasunnusafnaðarins. Upplifunin var einstök, enda þar á ferðinni mikilhæfir tónlistamenn og kórfólk. Tónlistarstjóri og útsetjari var að sjálfsögðu Óskar Einarsson og kórinn söng undir stjórn Hrannar Svansdóttur. Hápunktur tónleikanna var samsöngur þeirra Maríönnu Másdóttur og Erdnu Varðardóttur en þær sungu saman Ó Helga Nótt.  Þetta var með ólíkindum vel gert hjá þessum tveimur hæfileikaríku konum að unun var að.

Bestu þakkir fyrir þessa tónleika. 


Niðurstöður PISA - könnunarinnar, leita skal skýringa víða.

Hvort niðurstöður PISA hafa verið of-eða vantúlkaðar er e.t.v. ekki málið heldur frekar hvað við sem þjóð ætlum að gera við þær.

Ég tek undir með þeim sem hvetja til naflaskoðunar á öllum vígstöðvum.
Hér er ekki um neinn einn sökudólg að ræða og sannarlega tel ég þetta ekki sök skólanna, kennaranna eða að því að menntun kennara er ekki nógu löng eða góð.

Ef skoðum nánar lestur og hverslags færni það er.
Lestur er þannig færni að ef ekki er lesið reglulega hrakar barninu í lestri jafnvel þótt það hafi verið orðið fluglæst. Lestur og lestrarafærni byggist fyrst og fremst á reglulegri þjálfun eftir að færninni er náð.

Ég er sannfærð um það, eins og margir aðrir,  að börn lesi yfir höfuð mun minna í dag en tíðkaðist hér áður fyrr enda margt annað en lestur sem heillar hug nútímabarnsins og sem það vill frekar verja stundum sínum í.

Sólarhringurinn hefur ekkert lengst, hann er, hefur ávalt verið og mun áfram vera 24 klukkustundir. Hvernig á nútímabarn að koma öllu því við sem það þarf að gera og sem því langar að gera á þeim tíma sem það hefur úr að moða. Það stundar skólann, tómstundir og áhugamál. Margir unglingar vilja jafnvel vinna með skólanum og síðan er það sjónvarpið, DVD og svo tölvan, MSN-ið, bloggið og tölvuleikir. Loks má nefna þann tíma sem barnið eyðir í gsm símann sinn og sms skeytasendingar.

Eitthvað er dæmt til að sitja á hakanum og mjög líklega er það lestur bóka sem orðið hefur út undan. Því skal ekki undra að börnum hafi farið aftur í lestri.


Bleikt á stelpur, blátt á strákana eða kynhlutlausa liti á nýburana?

Umræðan um þá hefð sem skapast hefur á fæðingardeildum hins opinbera hefur fallið í misjafnan jarðveg hjá fólki og sitt sýnist hverjum eins og gengur.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að sú hefð að klæða nýfæddar stúlkur í bleikt og strákana í blátt er ágætis hefð sem engin ástæða er til að varpa fyrir róða. 
Væri ég nýbökuð móðir í dag myndi ég vera fyllilega sátt við þetta litaval á kynin.

Þeim foreldrum sem líkar þessi hefð illa ætti einnig að vera í frjálst að velji aðra liti á börn sín þá fáu daga sem þau dvelja á fæðingardeildinni.

Þetta atriði hefur að gera með smekk, stíl, viðhorf og gildismat og því ekkert til fyrirstöðu að fólk hafi um það val. 

Ég vona sannarlega að þingmenn fari ekki að eyða of miklum tíma í þessa umræðu enda brýnni mál sem bíða.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband