Leyndarmál lífsins í tilefni dagsins

Mig langar að blogga eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins.
Hvað er það sem skiptir máli?
Hvað er það sem er gaman og hvað er það sem mig langar að ná betri tökum á?
Þetta eru allt afar persónulegar spurningar og svör fólks sem fá við þeim því mjög einstaklingsbundin.
Svona í hnotskurn eins og þetta lítur út frá mínum bæjardyrum þá skiptir heilsan öllu máli því án hennar er hætta á að skemmtilegir hlutir fái á sig gráan blæ. Að sama skapi skiptir vellíðan og velgengni ástvinna okkur öllu máli til að við getum notið okkur að fullu.
Það sem hefur gefið mér hvað mesta gleði er vinna mín með börnum og unglingum í starfi mínu sem sálfræðingur. Að vinna með börn er forréttindi. Ef maður einfaldlega temur sér að HLUSTA á hvað þau eru að segja, skilja þeirra hugarheim þá er árangur skammt undan.  Ég spyr flest þau börn sem ég tala við eftirfarandi spurninga:
1. Ef þú ættir eina ósk hvers myndir þú óska þér?
2. Hvað er það sem er gott í lífi þínu?
3. Hvað er það sem er ekki svo gott í lífi þínu?
4. Er það eitthvað sem þú vilt að breytist heima og/eða í skólanum
5. Hvað er það sem þú getur gert til að breyta því og hvað er það sem aðrir þurfa að gera til að breyta því?

Þau svör sem ég fæ við þessum spurningum gefa mér venjulega gott hráefni til að halda áfram að vinna í átt að lausn og betri líðan barnsins og fjölskyldu þess.

En hvaða er það sem miðaldra konu svona eins og mig langar mest til að ná árangri með?
Jú, það er að „master the mind“ eða að ná enn betra valdi á hugsunum með þeim hætti að temja sér stöðugt jákvæðar hugsanir og fleygja öllum þeim neikvæðum út. Þetta er gamla góða hugræna atferlismeðferðin sem ekki bara virkar vel fyrir þá sem stríða við þunglyndi eða depurð heldur einnig alla aðra. Kjarnin er að hafa skýr markmið og sjá fyrir sér og trúa að maður nái þessum markmiðum. Gott er að muna samhliða þessu að maður breytir ekki öðrum en maður getur breytt sjálfum sér og framkallað þannig annars konar viðbrögð frá umhverfinu. Áhrif hugsana, skoðanaorku og frágeislunar á umhverfið held ég að sé oft vanmetin. Ef hugsanir og orkan þeim tengd er neikvæð er hætta á að maður dragi að sér neikvæða hluti og að sama skapi ef hugsanir eru jákvæðar þá laði maður að sér jákvæða þætti bæði fyrir sjálfan sig og þá sem hugsunin nær til.

Eigið þið öll góðan og blessaðan dag.


Breiðavíkurdrengir stefna ríkinu

Þessi frétt olli mér vonbrigðum. Undanfarnar vikur hefur íslenska ríkið verið að finna leiðir til að bæta Breiðavíkurdrengjunum upp þann hræðilega tíma sem margir þeirra áttu í Breiðavík. Unnið hefur verið að því að leita leiða með hvaða hætti hægt er að milda þennan skaða sem að sjálfsögðu aldrei er hægt að bæta að fullu frekar en aðra skelfilega reynslu sem sumir hafa orðið fyrir í bernsku. Íslenska ríkið hefur boðið bætur svo sem í formi sálfræðiaðiaðstoðar sem hluti þessa hóps hefur þegið að nýta sér. Nú hafa nokkrir menn sem þarna voru ákveðið að stefna íslenska ríkinu sem þýðir að „ríkið“ þarf að skipta um hlutverk og fara að verjast. Einhvern veginn virkar þetta á mig þannig að nú séum við ekki að vinna saman í þessu lengur heldur er e.t.v. langt og mikið deiluferli framundan þar sem deiluefnið fjallar um peninga. Ég spyr, hverjir eru hvatamennirnir að svona málaferlum? Eru það Breiðavíkurdrengirnir eða lögmenn þeirra?

Heimilisfang Geirs Þórissonar sem afplánar 20 ára dóm í Bandaríkjunum

Viðtal við Geir Þórisson sem nú afplánar 20 ára dóm fyrir líkamsárás í Bandaríkjunum var sýnt í Kastljósi þann 5. mars síðastliðinn. Áframhaldandi umfjöllun var um mál hans í Kastljósi þann 6. og 7. mars. Viðtalið hreyfði við mörgum enda alveg ljóst að þær aðstæður og sú félagslega einangrun sem hann hefur nú búið við í 9 ár eru vægast sagt ömurlegar.

Geir hefur ekki verið gefinn kostur á að stunda nám og möguleikar hans til samskipta við fjölskyldu og vini eru verulega takmarkaðir. Sökum þeirra sterku viðbragða sem fjöldi manns sýndi í kjölfar viðtalsins hafa ættingjar Geirs gefið leyfi fyrir því að dreifa heimilisfangi hans til þeirra sem vilja senda honum góðar kveðjur. Hægt er að senda honum bréf (aðeins þunn umslög) en ekki er hægt að senda honum pakka.
Fyrir einstakling í þeirri stöðu sem Geir er í þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu uppörvandi það er fyrir hann að fá sendar kveðjur héðan að heiman og finna að landar hans hugsa til hans. Hvatningarorð okkar geta verið það haldreipi sem Geir þarfnast svo mjög við þessar erfiðu aðstæður.
Hægt er nálgast viðtalið við Geir á www.ruv.is <http://www.ruv.is/>

Heimilsfang Geirs*:

Geir Thorisson 263907
Grcc HU 5-425
901 Corrections.way
Jarrett VA 23870

U.S.A.

Aðstandendur Geirs hafa stofnað bankareikning í hans nafni fyrir þá sem vilja sýna stuðning með framlagi:

Landsbankinn í Grafarvogi, 0114-05-061708, kennitala 080469-3819, Geir Þórisson.


Átröskun. Hver ber ábyrgðina?

Ég var að lesa viðtal við Ölmu Geirdal í Fréttablaðinu frá því í gær. Ég vil byrja á að hrósa þessari ungu konu og Eddu, samstarfskonu hennar fyrir framtak þeirra í þeirri viðleitni að varpa hulunni af átröskunarsjúkdómum. Í greininni kemur fram eitt og annað sem Alma er ósátt við eins og t.d. gengdarlaus umræða um heilsufæði og heilsusamlegt líferni, svo ekki sé minnst á megrunarkúra. Eins gagnrýnir hún hina svokölluðu kjörþyngd, segir að það hugtak geti verið varasamtsem og líkamsræktarstöðvar fyrir börn sem hafa nú litið dagsins ljós. Það nýjasta eru átröskunarhópar fyrir nýbakaðar mæður sem þyngst hafa um og of á meðgöngu.
Það má vel skrifa undir þessar áhyggjur Ölmu, allar öfgar í þessu máli sem öðru skal varast. Hins vegar finnst mér við hljóta að eiga að leggja áherslu á að koma í veg fyrir að fólk og ekki hvað síst börn þyngist yfir höfuð það mikið að þau fari að leita í einhver örþrifaráð til að grenna sig. Besta leiðin er eins og gamla máltakið segir að „byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann.“
Hvað börnin varðar þá er ábyrgð foreldranna mikil. Foreldrarnir eru fyrirmynd og ef þeir sýna í verki hvaða lífstíll er vænlegastur til vellíðan þá er afar líklegt að börnin fylgi því eftir. Ef foreldrarnir taka eftir því að barnið þeirra er að þyngjast umfram það sem almennur þroski þess gerir ráð fyrir er mikilvægt að grípa inn í. Saman geta foreldrar og barn leitað orsaka hvort sem þær eru að finna í neyslumynstrinu, fæðutegundum eða skorti á hreyfingu. Ef gripið er fljótt inn í er hægt að stöðva frekari óheillaþróun. Ástæðan fyrir því að margir foreldrar veigra sér við að ræða þessi mál við barnið sitt er ótti við að barnið bregðist harkalega við og grípi þá jafnvel til þess ráðs að hætta að borða. Málið er að það er ennþá hættulegra að láta barnið afskipt og taka þá áhættu að það síðar meir leiti skaðlegra leiða til að grennast. Eins er það með þungaðar konur. Maður skyldi ætla að með góðri ráðgjöf og almennri skynsemi geti sérhver þunguð kona verið meðvituð um að varast að þyngjast ekki svo mikið að eftir fæðinguna sitji hún uppi með megnið af aukakílóunum. 


Ókeypis lögfræðiaðstoð mun sannarlega nýtast mörgum innflytjendum ekki hvað síst konunum

Lögrétta, félag laganema við HR ætlar að bjóða innflytjendum ókeypis lögfræðiaðstoð í Alþjóðahúsi. Þessu ber að fagna. Ásamt því að upplýsa innflytjendur um réttarstöðu sína á Íslandi þá er hópur kvenna á hverjum tíma sem þarfnast ráðleggingar og lögfræðiaðstoðar er varðar hjúskparrétt og forsjár- og umgengnismál.  
Aðilar beggja vegna borðs munu græðu á þessu framtaki; lögfræðinemarnir öðlast dýrmæta reynslu og innflytjendur fá lögfræðiaðstoð sem þeir að öðrum kosti myndu jafnvel ekki geta sótt sér bæði vegna þess hversu kostnaðrsöm hún er og einnig vegna þess að þeir vita e.t.v ekki hvert þeir eiga að leita. 
Ókeypis lögfræðiþjónusta ásamt því að bjóða innflytjendum upp á íslenskunám þeim að kostnaðarlausu hlýtur að vera kjarninn í stefnu okkar Íslendinga í innflytjendamálum.


Kynferðislegt áreiti á sundstöðum

Héraðsdómur Vesturlands dæmdi nýverið karlmann til tólf mánaða fangelsisvistar fyrir að leita á ungar stúlkur þegar þær voru við leik í sundi. Á námskeiðum sem ég hef haldið fyrir starfsmenn sundlauga höfum við einmitt verið að fara í þetta efni. Kynferðislegt áreiti á sundstöðum getur verið erfitt að koma auga á, hvað þá að sanna og myndi ég halda að það sé algengara en margan grunar. Hvað er það við sundstaði sem hugsanlega laða gerendur að?
Á sundstaði koma jú saman mörg börn á öllum aldri. Í sundi eru mörg tækifæri til að áreita; t.d. klípa í, káfa og nudda sér upp við annan aðila undir yfirborði vatnsins. Algeng dæmi eru líka að gerendur rekist „óvart“ í og lendi þá „óvart“ á viðkvæman stað osfrv.
Þættir sem laða gerendur að:
Þeir geta hagað sér eins og börn
Starfsmenn eiga erfiðara með að hafa eftirlit og yfirsýn
Auðvelt er að fela sig bak við nafn- og klæðaleysi
Auðvelt er að komast í líkamlega snertingu

Ástæðan fyrir því hversu erfitt getur verið að hafa auga með þessu er að ekki er alltaf hægt að álykta hvort hinn fullorðni þekki barnið eða hvort kynnin hafa átt upptök sín í sundlauginni og staðið þá jafnvel yfir í einhvern tíma. Gerandi hefur þá náð að mynda traust við barnið sem grunar ekki annað en að þarna sé hættulaus einstaklingur á ferð.
Hvaða börn eru í áhættu?
*Börn sem eru félagslega einangruð
*Börn sem lögð hafa verið í einelti
*Börn sem hafa lágt sjálfsmat/brotna sjálfsmynd
*Börn sem skortir hlýju, umhyggju og athygli
*Börn sem eiga við einhverskonar fötlun að stríða.

Hvað geta starfsmenn gert? Starfsmenn eru að sjálfsögðu með vökult auga og grípa inn í ef grunur er um eitthvað vafasamt liggur fyrir. Eins ef barn kemur og segir frá þá skal undantekningalaust kanna málið. Mikilvægt er að góðar verklagsreglur liggi fyrir á sundstöðum um hvernig bregðast skuli við uppákomum sem þessum. Gríðarlega mikilvægt er að foreldrar fræði börn sín um þessa hættu þannig að þau læri að meta aðstæður standi þau frammi fyrir tilvikum sem þessum. Eins að hvetja börn til að láta vita, segja frá hafi þau orðið fyrir áreiti af einhverju tagi.


Níundu bekkingar í menntaskóla. Gott mál!

Ég er mjög ánægð með að skoða eigi möguleika á sveigjanlegum námstíma í grunnskóla í báða enda. Sem skólasálfræðingur í Áslandsskóla þá skynja ég sterkt hversu gríðarlega mikill fjölbreytileiki er innan þessa hóps á öllum sviðum og að útilokað er að ætla að setja alla undir sama hatt hvað varðar námskröfur eða hraða námsferils. Því meiri sveigjanleiki og einstaklingsbundnar námsleiðir því betra. Þannig geta foreldrar og síðan unglingarnir þegar þeir nálgast 9. bekk  fengið að móta eigin námsfarveg allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Heyrst hafa óánægjuraddir sem segja að þarna sé verið að hafa af börnunum bestu árin. Þetta eru meiningarlaus orð þar sem ekki er hægt að sjá neina tengingu milli lengd grunnskólanáms og „bestu áranna“. Það hentar ákveðnum hópi barna bæði vitsmunalega, tilfinninga,- og félagslega að fara hraðar í gegnum grunnskólakerfið en boðið hefur verið upp á hingað til. Öðrum hópi hentar að fara hægar og enn öðrum hópi ennþá hægar.  Þannig er það bara og við eigum að geta mætt þörfum allra þessara hópa í stað þess að steypa alla í sama mót og telja okkur ávalt vita hvað öðrum er fyrir bestu.

Dýr aflífuð áður en farið er í frí

Þetta er fyrirsögn á frétt í Fréttablaðinu í dag. Manni finnst þetta hreint ótrúlegt. Getur verið að einhverjir séu svo miklir tækifærissinnar að eiga dýr t.d. yfir veturinn og aflífa þau svo fyrir utanlandsferðina. Auðvitað er alls konar fólk til, þetta er bara eitthvað svo ljótt og óþarft.  Mér finnst að hver og einn ætti að spyrja sig áður en hann ákveður að eignast gæludýr hvort hann í fyrsta lagi sé hæfur til að annast dýrið og í öðru lagi hvort hann sé tilbúinn til að færa fórnir hvort sem það eru peningafórnir eða annað. Oft er þetta kannski bara spurning um peninga, fólk tímir ekki að borga fyrir gæsluna. Það fylgir því ábyrgð að eiga dýr.


Að leggja á fjöll þrátt fyrir viðvaranir ber vott um kjánaskap og tillitsleysi

Hvað gengur þeim ferðamönnum til sem leggja á fjöll þrátt fyrir viðvaranir? Þeir sem taka slíka áhættu og lenda síðan í hremmingum eiga að mínu mati að bera kostnaðinn sem til fellur vegna leitar og  björgunaraðgerða. Gera þessir aðilar sér ekki grein fyrir að reikningar björgunasveita eru upp á milljónir? Er þeim kannski bara alveg sama?  Svo er spurning hvort ekki eigi að skylda ferðamenn til að gera grein fyrir ferðaátælunum sínum.


Kjóllinn hennar Ragnhildar í Kastljósinu í kvöld var ..spes..

Þetta var hin mesta furðuflík sem hún Ragnhildur klæddist í Kastljósinu í kvöld og kalla ég nú ekki allt ömmu mína í þeim efnum. Fyrst sýndist mér dressið vera með grænan, munstraðan smekk en svo kom nú í ljós við nánari athugun að þetta græna, skræbótta stykki var áfast við kjólinn sem var að öðru leyti svartur með einhverjum svona glitrandi borðum undir græna smekknum og á ermunum. Alla vega stórmerkileg hönnun svo mikið er víst.

Fermingarbæklingur Smáralindar; er forsíðan klúr?

Ég verð nú að segja að ég staldraði ekkert við þessa forsíðumynd á fermingarbæklingi Smáralindar þegar hann barst mér í hendurnar. Nú les ég að sumir telja myndina óviðeigandi, hún sýni unga stúlku í vel þekktri stellingu úr klámmyndum. Þegar betur er að gáð finnst mér nú reyndar þessi stelling frekar hallærisleg en mér finnst líka að við verðum að vara okkur á að gengisfella ekki umræðuna um klám. Hvað þetta varðar ríkir án efa mikill einstaklingsmunur; ólíkar upplifanir og skynjun fólks með ólíkan bakgrunn osfrv. Vissulega er gott að vera vakandi fyrir öllu sem gæti skaðað eða misboðið fólki sér í lagi börnum en það þarf líka að varast að oftúlka ekki eða missa okkur út í öfgar í þessu eða nokkru öðru. 

Að aflétta launaleynd er það eina rétta.

Ég er mjög meðmælt því að aflétta launaleynd. Sem fyrrverandi formaður Stéttarfélags sálfræðinga þá er það mín reynsla að pukur og laumuspil hvað varðar hver er með hvaða laun gerir fátt annað en að skapa tortryggni og slæman móral. Þessi mál sem önnur eiga einfaldlega að vera uppi á borðinu. Þá myndast heilbrigður samanburður og réttlæti og rök fá að ráða ferð. Í það minnsta er mun auðveldar að taka á málum svo vit sé í.

 


Landgræðsla; nokkur orð um innlendar belgjurtir.

Innlendu belgjurtirnar mynda saman  breiðan valkost í landgræðslustarfi og í landbúnaði. Þar finnum við t.d. litauðgi  og litablöndur (rauð og hvítsmári, umfeðmingur og vallerta, vallerta og rauðsmári)  og stóar og smáar tegundir sem spanna breiða vist á mörgum sviðum  og þær hafa vaxið hér lengi og náð að aðlagast umhverfinu að einhverju marki. Þær má nýta með ýmsum hætti en það er þeim sameiginlegt að þær þurfa ekki níturáburð til að vaxa vel og aðrar tegundir í nágrenninu njóta stundum góðs af níturbindingu þeirra. Íslensku belgjurtirnar eru  flestar af landnemagerð með nokkur sameiginleg einkenni en einnig nokkur einkenni sem eru ólík.  Baunagras og hvítsmári kunna að henta sums staðar í landgræðslu, vallertan, umfeðmingur  eða giljaflækjan annars staðar. Í landbúnaði má hafa not af  hvítsmára og umfeðmingi. Þær hafa verið vanmetnar í landgræðslustarfi.  Úr því má bæta ef hægt er að rækta af þeim fræ. Þar ætti að vera góður markaður fyrir fræ þessara tegunda.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að kanna nýtingu þesara innlendu belgjurta. Allnokkrir erfiðleikar eru á því að nýta þessar tegundir. Fræframleiðsla þeirra var ekki þekkt og margt benti til að fræ nýttist illa (Jón Guðmundsson, LBHI).

Tvö megin vandamál eru

1. Nýting fræs, innan þess hluta er fræverkun og sambýli övera og plöntu
2. Fræframleiðsla. Innan þess hluta er frævun, fræsláttur og að finna aðferðir og umhverfi  sem gefa mest fræ.

Vorið í nánd

Nú fer sól hækkandi, dagamunur er á birtu og brátt er vorið komið. Á þessum tíma fer maður að hlakka til sumarsins, komast í bústaðinn, sinna gróðrinum og planta trjám og blómum. Ég er þó ekki sú sem er með grænu fingurnar á þessum bæ, heldur er makinn sérfræðingur á sviðinu, kappsamur og verklaginn. Búið er að setja niður um 30 þúsund plöntur þar sem sumarbústaðurinn er nú á lokastigi byggingar. Þetta hefur jú tekið all mörg ár og er nú orðið gríðarlega stórt ræktað svæði með fjölmörgum tegundum tjáa, blóma og belgjurta. Gaman væri að eiga umræðu um þessi mál ef meðal bloggvina leynast áhugamenn um ræktun. Aldrei að vita nema góðar hugmyndir dúkki upp.

Rosaleg harka þarna í USA, við þurfum að vinna að því að fá Geir framseldan

Kastljósið: Ameríkanar eru með mikið harðara dómskerfi en við hér á Íslandi. Skrifræðið er mikið og ósveigjanlegt. Ég bjó þarna í 5 ár og upplifði oft þessa stífni. Stundum var hvorki hægt að rökræða né útskýra. Ég minnist þess eitt sinn að hafa verið skráð í rangan áfanga. Það tók mig alla önnina að fá það leiðrétt. Í raun gerðist það ekki fyrr en eiginmaður minn mætti á staðinn og ræddi við skrifstofustjórann sem málið leystist endanlega. Þá var ég margsinnis búin að reyna að ræða við skrifstofustúlkurnar en án árangurs.
Ég finn mikið til með þessum manni,  honum Geir,  sem búinn er nú þegar að afplána 8 ár og á eftir 7 áður en hann á möguleika á að fá sig lausan. Brotið var alvarlegt því er ekki að neita en þetta er ekki í neinu samræmi við réttarkerfið hér á Íslandi.  Ég vil sérstaklega hrósa umsjónarmanni og fréttamönnum Kastljóss fyrir góða og vel unna umfjöllun. Vona að það skili einhverju.


Varasamt að blogga um erfiða lífsreynslu.

Ég vil taka undir með sjúkrahúspresti í Mbl. í dag þar sem hún ráðleggur foreldrum að hafa bloggsíður barna sinna læstar og að blogg um erfiða reynslu geti haft neikvæðar afleiðingar. Eins og fram kemur og vitað er þá hefur það færst í vöxt að foreldrar langveikra barna bloggi um reynslu sína, tilfinningar og meðferð. Þegar fólk opinberar sig og börn sín með þessum hætti fyrir alþjóð þá er hætta á að einhverjir taka hlutina úr samhengi, misskilningur geri vart við sig og viðbrögð séu ekki endilega alltaf jákvæð. Á þetta hefur áður verið bent og ekki vanþörf á. Blogg eða skrif hvort sem það er sett í bréfaform eða í dagbækur hefur þekkt meðferðargildi, fólk hreinlega skrifar sig frá vanlíðan eða áföllum. Það er mjög svo af hinu góða.  Hvað bloggið varðar er reynslan opinberuð fyrir stórum hópi af alls konar fólki. Vissulega má skilja hversu gott það er fá stuðningsyfirlýsingar og hvatningaorð frá kunnugum jafnt sem ókunnugum, finna að fjöldinn allur fylgist með manni og hugsar til manns. Hættan er samt eins og fyrr segir að ekki séu öll viðbrögð jákvæð. Fyrir foreldra langveikra barna getur slíkt verið mikið áfall og skapað enn meiri vanlíðan en ella. Mín skoðun er sú að fólk í þessari stöðu eigi einungis að hafa bloggsíður sínar opnar fyrir vini og vandamenn en ekki fyrir alþjóð. Slíkt er allt of áhættusamt.


Fjölmiðlar stjórna alfarið þjóðfélagsumræðunni!

Halló!! er leigubílavandinn í miðborginni eitthvað nýr af nálinni??? Það mætti halda það því fjölmiðlar ræða þennan vandann eins og hann hafi aldrei áður verið nefndur.
Hvað varð til þess að sjónvarpinu fannst málið eitthvað áhugavert núna en ekki áður?
Jú, sagt var að einhver hefði vakið athygli á þessu mikla vandamáli?? Var það í fyrsta sinn eða hvað?
Því trúi ég eiginlega ekki. Ég minnist þess að oft áður hafi hinn almenni borgari reynt að vekja athygli á löngum biðröðum eftir leigubílum í miðborginni að næturlagi sérstaklega um helgar.  En akkúrat núna þóknast ríkissjónvarpinu að fjalla ýtarlega um málið. Guð einn má vita hvað veldur. Er gúrkutíð? Ólíklegt, núna í aðdraganda kosninga.
Þetta er gott dæmi um hversu gríðarleg völd fjölmiðlamenn virðast hafa. Ekki er betur séð en að þeir stjórni að mestu  hvað er á dagskrá hverju sinni og hverjir eru inni á hverjum tíma. Þetta minnir allt of mikið á fullkomnar geðþóttaákvarðanir. Við hin bara dinglum með, opnum fyrir fréttirnar, hvað annað?
Líklega er ekkert starf eins valdamikið og fjölmiðlastarfið.
Hvað finnst okkur annars um þetta?


Fleiri upplýsingar um sjálfsvíg eldri borgara

Til fróðleiks. Upplýsingar byggðar á minni tæplega 17 ára reynslu sem sálfræðingur og einnig  úr þessari ágætu bók sem ég nefndi.

Hvort sem um er að ræða eldri borgara eða ungt fólk þá eru karlar í miklum meirihluta þeirra sem svipta sig lífi.
Karlar velja frekar einhver vopn til verknaðarins en konurnar velja mildari leiðir ef hægt er að orða svo t.d. ofurskammt af lyfjum
Hjúskaparstaða er mikil áhrifabreyta sérstaklega hjá eldra fólki. Því má segja að einmannaleiki sem er fylgifiskur þess að vera fráskilinn eða að hafa misst maka sinn sé einn stærsti áhættuþáttur í sjálfsvígshættu eldri borgara.

Má greina aðvörunarmerki?
Allar meiriháttar breytingar sem ekki hafa sérstakar ástæður að baki geta verið hættumerki. Eins og aukið tal um dauðann, tilhneiging til einangrunar, þunglyndi, þörf fyrir að gefa eignir, undirbúningur erfðarskrár, kaup/útvegun á lyfjum (söfnun lyjfa).

Það getur verið erfitt fyrir lækna og aðstandendur eldri borgara að átta sig á hvort viðkomandi er í sjálfsvígshættu. Tal um dauðann er ekki óalgengt þegar aldurinn færist yfir. Einnig er algengt að eldra fólk byrji að ráðstafa eigum sínum til afkomenda sinna.

Hvernig er best að bregðst við ef grunur leikur á að viðkomandi eldri borgari sé að gæla við þá hugsun að svipta sig lífi?
*tala um það beint
*spyrja beint út

Ef spurt er beint eru miklar líkur á hreinskilnu svari. Sá sem er að pukrast með sjálfsvígsgælur upplifir oft mikinn létti og gefur þessum aðila tækifæri til að ræða málin. Leyndarmáli sem þessu fylgir mikið álag.

Hvernig er hægt að aðstoða?
*huga að bættri félagslegri stöðu, tengja viðkomandi öðru fólki á öllum aldri og ekki hvað síst fólki á svipuðum aldri
*skoða heilsufar, líkmalegt og andlegt
*skoða fjárhagsstöðu, bæta úr ef ábótavant
*hjálpa til að létta á áhyggjum


Sjálfsvíg eldri borgara er dulið vandamál

Eldri borgarar eru í lang stærsta áhættuhópnum hvað viðkemur sjálfsvígi og sjálfsvígstilraunum. Eldri borgara reyna sjálfsvíg vegna þess að þeir hafa ákveðið að svipta sig lífi en eru ekki með tilrauninni að hrópa á hjálp. Margir í þessum aldurshópi búa einir og þá er oft ekki að vænta að aðstoð berist í tíma. Helstu ástæður eru slæm heilsa, viðvarandi sársauki, hræðsla og kvíði.  Margir óttast að verða byrði á börnum sínum. Önnur ástæða eru fjárhagserfiðleikar, makamissir, einmannaleiki og þunglyndi. Líklegt er þó að margar ástæður liggi að baki ákvörðun sem þessari. Talið er að sjálfsvíg eldri borgara hafi ekki aukist heldur standi fremur í stað. Eldri borgarar í dag hafa meiri möguleika á að taka þátt í ýmsum félagslegum uppákomum og tómstundum og eru því ekki eins einangraðir og áður. Læknisþjónusta hefur einnig aukist til muna. Eins og í öðrum aldurshópum eru karlar í meirihluta. Í  Bandarískri könnun hefur komið í ljós að tíðnin hjá konum lækkar eftir 65 ára en eykst hjá körlum eftir þann aldur. Mér er ekki kunnugt um nýjar tölur í þessu sambandi hér á landi.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband