Siðferðileg ábyrgð bankastjóra viðskiptabankanna
8.4.2008 | 10:07
Öll viljum við trygga efnahagsstjórn og með öllum ráðum stuðla að trúverðugleika hennar gagnvart öðrum þjóðum sem við eigum samskipti við. Bankar sem standa traustum fótum er hluti af jákvæðri ímynd Íslendinga á erlendri grund. Staðan í dag er hins vegar sú að:
1. Erlend lán standa bönkunum ekki til boða á sömu kjörum og áður
2. Bankanna skortir tilfinnanlega lausafé til að geta haldið viðskiptum sínum gangandi
Ríkisstjórnin leitar nú lausna á lausafjárkreppu bankanna. Telja má sennilegt að verið sé m.a. að skoða hvort Ríkissjóður taki hugsanlega erlent lán til að lána bönkunum og koma þeim þannig til bjargar. Ríkissjóður er í eigu þjóðarinnar og þegar Ríkið tekur lán er fólkið í landinu að taka lán. Öll lán þarf einn góðan veðurdag að borga.
Samhliða er kallað eftir sameiginlegu átaki þegna landsins að halda að sér höndum. Sérstaklega er biðlað til þeirra sem hafa eytt um efni fram að endurskoða lífstíl og óþarfa eyðslu. Þess er vænst að einstaklingar og fyrirtæki taki höndum saman og fresti a.m.k. tímabundið fjárfestingum sem kalla á lánsfjármagn.
Þá er komið að kjarna þessarar færslu og hún er sú spurning hvort bankastjórar viðskiptabankanna ætli mitt í allri þessari aðhaldsumræðu að halda í sín stjarnfræðilegu laun?
Það kæmi ekki á óvart þótt almenningi fyndist það skjóta skökku við að ef til kæmi að Ríkissjóður taki lán til að bjarga bönkunum úr lausafjárkreppu þeirra, greiði bankarnir áfram bankastjórum himinhá laun, jafnvel margfalt þau sem vel launaðir almennir launþegar eru að þiggja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook
Kolsýrlingseitrun úr gasofni. Tímbært að byrgja þennan eiturbrunn í eitt skipti fyrir öll
6.4.2008 | 11:30
Á fáum árum hafa 6 manns látist í tveimur slysum af völdum kolsýrlingseitrunar frá gasofni. Slysin áttu bæði sér stað í veiðikofum þar sem fólkið kveikti upp í litlum gasofni til kyndingar. Eldur eyðir súrefni og við skort á súrefni myndast eiturlofttegundin kolsýrlingur. Sé búið að kveikja upp í gasofni skiptir öllu að súrefni eigi greiða leið inn í rýmið svo eiturlofttegund nái ekki að myndast. Annars þarf vart að spyrja að leikslokum.
Um nákvæman aðdraganda þessara slysa veit ég í sjálfu sér ekki meira en það sem fram kemur í fréttum. Gera má því skóna að fólkið komi inn eftir langan dag þar sem það hefur verið við veiðar. Kalt, þreytt og slæpt kveikir það upp í ofninum. Í þessum tilvikum hefur komið í ljós að loftræsting var ábótavant. Fólkið hefur væntanlega fljótt orðið fyrir einhverjum eituráhrifum. Áhrif eitursins á heilann veldur dómgreindarleysi og hugsun hættir að vera skýr. Jafnvel þótt fólkið sé meðvitað um hættuna og ætli sér að opna glugga þá verða eituráhrifin þess valdandi að slen og svefn ná að taka völdin og fólkið einfaldlega lognast út af.
Svona hörmungarslys hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir með einhverjum ábyggilegum og varanlegum hætti. Helst dettur mér í hug að fært verði í lög að þeir sem eiga kofa með gasofnum beri ábyrgð á því að loftræsting sé alltaf nægjanleg t.d. að allir kofar hafi reykrör (stromp). Skilti eða aðrar viðvaranir nægja ekki til að koma í veg fyrir slys sem þessi enda þekkingarskortur kannski sjaldnast orsökin.
Ég vil hvetja eigendur veiðikofa um allt land og aðra sem að þessum málum standa beint eða óbeint að byrgja þennan eiturbrunn áður en fleiri falla ofan í hann.
Þeir sem líða hvað mest vegna mótmæla atvinnubílstjóra sem hafa einna helst falist í að stöðva umferð á háannatíma eru upp til hópa stuðningsmenn þeirra og sitja sömu megin borðs og þeir.
Allir þeir sem verða fyrir barðinu á þessum töfum eru að borga sama háa bensínverðið og atvinnubílstjórarnir og eru ekkert ánægðari með það en þeir. Margir sem hafa orðið fyrir því að sitja fastir í bílum sínum vegna þessara aðgerða hafa mikinn og góðan skilning á þessum pirringi atvinnubílstjóranna og vilja gjarnan styðja þá með einhverjum hætti. Það er ekki bara bensínverðið heldur tengjast mótmælin einnig hvíldartímatilskipuninni og skorti á salernisaðstöðu svo fátt eitt sé nefnt.
En hverju skilar það að níðast á vinum sínum öðru en að fæla þá frá sér?
Þessi tegund af mótmælaaðgerð er sérlega slæm vegna þess að hún skapar mýmörg og margslungin óþægindi fyrir fólkið sem situr fast í bílum sínum þegar það á að vera að sinna öðrum skyldustörfum. Í bráðatilvikum getur aðgerð sem þessi líka orðið til þess að ekki næst að bjarga í tíma. Ekki má gleyma því að stundum eru það sekúndur sem skilja að líf og dauða. Það yrði óskemmtilegt fyrir atvinnubílstjóranna að þurfa að hafa það á samviskunni að umferðartöfin af þeirra völdum hafi ollið óbætanlegu tjóni eða jafnvel dauða.
Það er sjálfsagt að finna áberandi og kraftmiklar leiðir til að mótmæla, láta rödd sína heyrast þegar manni finnst ríkisvaldið hafa sofnað á verðinum eða sé með eitthvert slen í brýnum málefnum. Aðrar leiðir en þessi eru færar eins og atvinnubílstjórar hafa sýnt þegar þeir söfnuðust saman fyrir utan Alþingishúsið og ræddu við forseta Alþingis. Í slíkum mómælaaðgerðum þar sem ekki er ráðist á vinaliðið er auðvelt að finna til samhugar enda er þetta mál okkar allra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.4.2008 kl. 11:55 | Slóð | Facebook
Er Hannes sáttur við að verið sé að safna fé honum til handa?
1.4.2008 | 16:35
Nú er það gjarnan svo að safnað er fyrir þá sem hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni t.d. vegna stóráfalla svo sem hafi heimili skemmst í eldsvoða eða til að létta undir bagga með fjölskyldu langveiks barns svo einhver algeng dæmi séu nefnd.
Sjaldnar sér maður að staðið sé fyrir fjársöfnun fyrir velmegandi einstakling sem auk þess gegnir a.m.k. tveimur launuðum stöðum hjá ríkinu. Sú aðför sem stuðningsmenn Hannesar vísa til er einnig að mati, alla vega sumra, aðstæður sem Hannes sjálfur valdi að koma sér í og hefur jafnvel haft tækifæri til að komast út úr hafi hann haft á því áhuga.
Vinir Hannesar vilja honum vel með þessari söfnun en er Hannes sjálfur sáttur við hana?
Hvort maður vill lifa eða deyja þegar meðferð hvorki læknar né líknar er persónuleg ákvörðun hvers og eins
30.3.2008 | 22:50
Lífsskrá heitir sú ská sem Landlæknisembættið hefur tekið í notkun. Um er að ræða eyðublað sem fólk, heilbrigt sem veikt, getur fyllt út hvenær sem er á lífsleiðinni þar sem það gefur yfirlýsingu um hvað það vill eða vill ekki að gert sé við það að gefnum tilteknum kringumstæðum við lífslok. Lífsskrá er hægt að nálgast á heimasíðu Landlæknisembættisins.
Þessar upplýsingar komu fram í viðtali við landlækni í Morgunblaðinu. Aðeins á annað hundrað manns hafa fært sér Lífsskránna í nyt. Sennilega hafa ekki fleiri gert það en raun ber vitni vegna þess að mörgum er einfaldlega ekki kunnugt um þennan möguleika.
Það er réttur hvers og eins að taka ákvörðun um hvort hann eða hún vilji lifa eða deyja þegar meðferð lengir aðeins líf hins dauðvona sjúklings án þess að fela í sér lækningu eða líkn. Í mörgum tilvikum er slík meðferð ekki réttlætanleg.
Þeir sem sýna fyrirhyggju og fylla út umrætt eyðublað eru að gera bæði sjálfum sér og fjölskyldu sinni greiða. Þeir sem nú eru heilbrigðir geta með engu móti vitað hvenær eða með hvaða hætti þeir yfirgefa þetta líf. Þeir sem nú þegar eru lífshættulega sjúkir finna að dauðinn er ef til vill skammt undan. Það er réttur allra, hvort heldur þeirra heilbrigðu eða veiku að taka sjálfir þessa ákvörðun enda er þetta þeirra líf sem um ræðir. Fyrirhyggjan felst í því að koma þessum persónulegu upplýsingum um vilja sinn á framfæri með óyggjandi hætti.
Að lifa eða deyja, komi upp þessar flóknu og erfiðu kringumstæður er ákvörðun manneskjunnar sjálfrar. Með því að koma vilja sínum á framfæri á þar til gerðum eyðublöðum er maður ekki einungis að gera sjálfum sér greiða heldur einnig sínum nánustu. Nógu erfið er staða ættingjanna þótt þeir þurfi ekki líka að að gefa fyrirmæli um takmörkun meðferðar þegar þeir hafa e.t.v. enga hugmynd um vilja þess sem lífið á.
Umræðan er sannarlega viðkvæm en krefst engu að síður opinskárrar umfjöllunar bæði á opinberum vettvangi og einstaklingslega.
Er sparnaður í hættu?
20.3.2008 | 20:32
Skammtímaáhrif niðursveiflu krónunnar hefur hvað mest áhrif á þá sem hafa verið að taka erlend lán eða kaupa erlendar vörur. Ef ástandið verður langvarandi eru langtímaáhrifin víðtækari og líkleg til að hafa áhrif á flesta þá sem hér búa. Eins og staðan er í dag virðast hvorki lærðir né leikmenn treysta sér til að spá fyrir um hve lengi ástandið kann að vara.
Sá hópur sem hefur verið að leggja fyrir og spara hugsar eðlilega nú hvort sparnaður þeirra haldi. Við þessar aðstæður er sparifé gjarnan ótryggt. Á meðan hrópað er eftir lækkun stýrivaxta er ekki ósennilegt að þetta fólk óttist að með slíkri aðgerð verði gengið á sparifé þeirra.
Það er í raun ekki erfitt að skilja þessar áhyggjur eins og staðan er í dag.
Peningamál | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook
Bloggið er öflugt og spennandi leikfang sem við erum í óða önn að læra á
16.3.2008 | 11:25
Það eru ýmsir áhugaverðir punktar sem koma fram í viðtalinu við þá Egil Helgason og Össur Skarphéðinsson en þeir ræða um Miðil augnabliksins í Mbl. í tilefni þess að mbl.is er 10 ára.
Það líður satt að segja ekki sá dagur að blogg eða bloggarar eru ekki meðal þess sem rætt er milli manna. Þetta fyrirbæri sem við köllum blogg hefur sannarlega blásið út og tekið sér bólfestu í tilverunni og er jafnvel hægt og sígandi að þoka einhverjum öðrum miðlum til hliðar.
Það eru þó ekki allir hrifnir. Til er sá hópur sem vill ekkert með blogg hafa, segist hvorki fara inn á bloggsíður né kæmi þeim til hugar að blogga. Þeir segja þetta hreina tímasóun, hugsanlega ávanabindandi og á blogginu sé að finna æði mikið af lélegu efni.
Það kann vel að vera margt til í þessu og verður hver og einn að hafa sinn háttinn á. Þó hef ég nú hvatt þá sem tala með þessum hætti að leyfa sér að kíkja inn á bloggið og vera einfaldlega duglegir við að vinsa úr efni, sortera frá það sem þeim þykir lélegt og kanna hvort ekki sé eitthvað að finna sem höfðar til þeirra.
Að lesa bloggsíður er bara eitt af mörgu sem hægt er að velja og hafna.
Áhugaverður punktur í viðtalinu við Egil er þegar hann segir að bloggið sé fyrir fljótfæra einstaklinga, hættulegur miðill. Þetta er alveg rétt hjá honum að mínu mati. Ég er þeirrar skoðunar að margir sem hafa stundað það að blogga að einhverju marki hafi einhvern tímann bloggað í fljótfærni og af hvatvísi, efni sem þeir e.t.v. síðar skammast sín fyrir og óska að það hefði aldrei verið birt á blogginu undir þeirra nafni.
Hér er ég ekkert endilega að tala um einstaklinga sem eru hvatvísir í eðli sínu. Þetta getur allt eins hent fólk sem er þekkt fyrir yfirvegun og nákvæmni. Það sem gerist er að einhver umræða eða frétt hefur á viðkomandi gríðarleg tilfinningarleg áhrif, kannski vegna þess að umræðan snertir hann persónulega eða kemur við kaunin á siðferðis- og réttlætiskennd, trú,- eða stjórnmálaskoðun viðkomandi. Tilfinningarlegt uppnám grípur um sig og áður en náð er að gefa sér tíma til að hugsa málið frekar eða sanka að sér ýtarlegri upplýsingum hefur texti verið birtur sem bloggarinn e.t.v. síðar meir, þegar tilfinningaröldurnar hafa lægt og vitsmunirnir náð yfirhöndinni á ný, sér eftir.
Fyrir okkur bloggara þá er bloggið öflugt og spennandi leikfang sem við erum í óða önn að læra á.
Fleiri punkta er að finna í þessu spjalli við Egil t.d. hve margir stjórnmálamenn nýttu sér bloggið og blogguðu af krafti fyrir síðustu kosningar bæði til að kynna sjálfan sig og málstað sinn. Fljótlega eftir kosningarnar hurfu sumir þessara stjórnmálamanna af vettvangi og frá einstaka þeirra hefur lítið heyrst síðan hvorki á blogginu né annars staðar ef því er að skipta.
Að blogga getur skapað álag og streitu.
Það getur verið talsvert álag að blogga og tengist það m.a. því hversu erfitt það getur verið að fá ómálefnalegar athugasemdir, sendar í árásarskyni á þann sem heldur úti bloggsíðunni og sem beinlínis eru ætlaðar til að rægja og svívirða síðuhaldarann.
Þeir sem hafa bloggað í einhvern tíma og blogga um umdeild málefni t.d. eins og stjórnmál kannast margir við að hafa fengið framan í sig einhvern skít oftar en ekki frá nafnlausum bloggurum. Eins og Egill segir þá dæma þessir aðilar sig sjálfa úr leik. Það er þó alveg ljóst að slíkar bloggfærslur höfða til einhverra sem finna greinilega í þessu persónulega næringu.
Dæmin eru fjölmörg þar sem hraunað hefur verið yfir þekkta sem óþekkta einstaklinga.
Þetta tel ég m.a. vera ástæða fyrir því að sumt fólk sem svo gjarnan vildi halda úti bloggsíðu treystir sér hreinlega ekki til þess. Aðrir hafa gripið til þess ráðs að nota stillingar bloggsins til að getað síað frá óþverrann og ómálefnalegar athugasemdir og enn aðrir bjóða alls ekki upp á að hægt sé að skrá athugasemdir inn á síðuna.
Að lokum vil ég bara óska mbl.is til hamingju með afmælið.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook
Komnar úr eggjaeign.
13.3.2008 | 20:06
Það hefur fjölgað í hópi ellilífeyrisþega í Breiðholtinu.
Hænurnar okkar eru orðnar aldraðar og líkast til á leið úr eggjaeign.
Elli kerling heimsækir okkur öll fyrr en síðar og gildir þá einu um hvers lags lífveru er að ræða.
Það er að byrja að fjara undan mínum elskulegu. Þær eru mikið til hættar að verpa. Egg í varpkassa telst frekar til undantekningar en reglu.
Það færir okkur gleði að hugsa um að þessar góðu hænur hafa átt gott líf. Það hefur verið séð vel um þær og tvö síðastliðin sumur hafa þær farið í sveitina þar sem þær hafa fengið að valsa um sælar og glaðar.
Þessar elskur hafa verið örlátar á afurðirnar og eiga sannarlega skilið að eiga friðsælt ævikvöld.
Félagið París bíður þá sem búa einir/eru einhleypir velkomna
11.3.2008 | 22:28
Hvort sem þú býrð ein(n) af eigin vali, í kjölfar skilnaðar eða makamissis og langar til að mynda ný vinakynni og tengsl, átt þú þess kost að ganga í félagið París.
Þetta félag hefur starfað í fimm ár og hefur það að markmiði að skapa skemmtilegan vettvang í kringum áhugamál þeirra sem eru einir eins og segir í dagbók Morgunblaðsins frá því um helgina.
Starfið byggir á hópastarfi. Um er að ræða bíóhóp, spjallhóp, gönguhóp, út að borða hóp, menningarhóp og ferðahóp svo fátt eitt sé nefnt.
Formaður félagsins, Sigrún Höskuldsdóttir leggur áherslu á að taka vel á móti nýjum félagsmönnum og segir að það hafi sýnt sig að mikil þörf sé fyrir vettvang af þessu tagi.
Útí samfélaginu er án efa fullt af fólki sem langar til að mynda ný kynni en hefur ekki löngun til að sækja skemmtistaði í því skyni. Félagið París er sannarlega fýsilegur valkostur fyrir þennan hóp til að hitta annað fólk og eiga með því gefandi samverustundir.
Á slóðinni www.paris.is má finna upplýsingar um hið fjölbreytilega hópastarf.
Á hvaða mið skal róa?
Mitt í ólgandi sjó.
Einhliða evra eða ESBé.
Sáttir sumir við hverslags fé,
sem bjóðast þeim til handa.
Miðla sem á markaði sterkari standa.
Krónan gamla úrelt er,
Kauphöll hana vill kveðja.
Hvort evran sigur úr bítum ber.
Karpið og kveinið í eyrun sker
Á krónuna fáeinir veðja.
Hvernig svo sem það allt fer.
Krónan okkar kæra,
komin að tímamótum.
Óstöðug stendur á eigin brauðfótum.
Kollvarpar peningastefnu,
kúvendir verðlagi, skapar þenslu
Um miðilinn gjaldfallna skorta menn kennslu.
Gengið mönnum er tíðrætt um,
gamanið farið að grána
Trúin að tapast, hvað er til ráða?
Verðbólgumarkmið skjálfa!
vaxtastefnunni ógna.
Nú fylkjum liði og leitum lána
Var sko að horfa á Spaugstofuna
Peningamál | Breytt 10.3.2008 kl. 20:55 | Slóð | Facebook
Þvagleggsmálið og horngrýtis kjaftæði
6.3.2008 | 19:35
Með þessari reglugerð eru verklagsreglur skýrðar vegna töku sýna þegar grunur leikur á um að ekið hafi verið undir áhrifum.
Frábært!
Hins vegar er ekki eins skemmtilegt til þess að vita að hann Árni Johnsen vísi til umræðunnar um krónu og evru sem hvimleiða og leggur til að við hættum þessu horngrýtis kjaftæði eins og hann orðaði það.
Vonandi áttar Árni sig á því fyrr en seinna að það er engin lausn fólgin í því að þagga mál í hel.
Öll umræða er bráðnauðsynleg og bara af hinu góða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook
Milljónatap
6.3.2008 | 10:23
Þeir sem hafa verið virkir á hlutabréfamarkaðinum undanfarin ár hafa þurft að horfa á eftir milljónum ef ekki milljörðum hreinlega gufa upp. Hvort eitthvað af þessu tapi skilar sér aftur að hluta til eða að öllu leyti getur enginn spáð fyrir með neinni vissu. Eina færa leiðin er bara að bíða og vona að markaðurinn taki við sér af einhverri alvöru. Þeir sem telja sig hafa gott vit á þessum málum spá þó því að ekki vænkist hagur næsta árið í það minnsta.
Í svona aðstæðum er þess vegna best að huga að hvað gefur lífinu raunverulegt gildi og ekki skal gleyma því að veraldleg gæði ná bara visst langt þ.e. þar til dauðinn bankar upp á.
Tap
Til hvers að syrgja tapað fé,
týnda hluti eða hulið hnoss.
Gröfinni allslaus ert gefinn á vald.
Holdið þú nauðugur kveður,
Himni þú vonglaður heilsar.
Veraldleg gæði þér gagnast ei meir.
Peningamál | Slóð | Facebook
Lestarkerfi í Reykjavík
3.3.2008 | 20:34
Ég fagna því hversu mikill kraftur hefur færst í umræðuna um lestarkerfi í Reykjavík og vísa í því tilefni til færslunnar Reykjavíkurlestin sem birtist hér á bloggsíðunni 2. febrúar s.l.
Í gær var grein í Mbl. sem bar titilinn Reykjavíkur-metró. Í henni segir að léttlestir séu lakari kostur en Strætó og að metró og skutlubússar séu það eina sem vit er í.
Mér finnst þessi umræða mjög spennandi.
Það hlýtur að vera mikilvægt að greina á milli í umræðunni lestir sem eru á eigin spori og lokaðar frá annarri umferð og síðan sporvagnakerfi þar sem lestarvagnarnir eru á sömu götum og bílarnir.
Það síðarnefnda mun varla henta hérna. Þegar talað er um ,,léttlestir" lítur stundum út sem verið sé að tala um sporvagnakerfi.
Maður skyldi halda að það sé eðlilegt að setja lest í stokk (metró) þar sem ekki er pláss fyrir hana ofanjarðar. Ef litið er til nágrannaborga má sjá að í þéttbýli, þar sem ekki er pláss fyrir teina eru lestar settar neðanjarðar en að öðrum kosti eru þær á yfirborðinu. Ef við lítum til borga eins og London og Kaupmannahafnar má sjá þetta fyrirkomulag. Lestir eru neðanjarðar í miðbæjunum þar sem ekki er pláss fyrir þær ofanjarðar en annars eru teinarnir lagðir ofanjarðar.
Ef til lestarsamgangna kæmi hér á landi má vel gera ráð fyrir að sama lögmál myndi gilda um miðbæ Reykjavíkur og um miðbæi nágrannaþjóða okkar. Hægt að sjá fyrir metró undir Þingholtunum og í Kvosinni en síðan t.d. ofanjarðarteina á eyjunni milli akreina meðfram Miklubraut og austur borgina og víðar er fjær dregur.
Jafnvel neðanjarðarlestir (metró) eru ódýrari kostur en umferðarmannvirki með mislægum gatnamótum auk þess sem þær taka miklu minna pláss. Bílagöng eru dýr og án efa mun dýrari en lestargöng. Bílagöng eru bæði stærri og þurfa loftræstingu og lýsingu langt umfram lestargöng.
Þetta allt þarf virkilega að íhuga vel og vandlega ef á annað borð á að skoða möguleikann á lestarsamgöngum í Reykjavík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2008 kl. 22:15 | Slóð | Facebook
Blogg er ekki eintal
27.2.2008 | 09:31
Í tilefni fyrsta meiðyrðadómsins sem nú er nýfallinn vegna skrifa á bloggsíðu.
Það er óhætt að segja að almennt séð hefur það tíðkast talsvert að finna megi meiðyrði af öllu tagi á Netinu: níð, rógburð, rætnar athugasemdir þar sem sá aðili sem meiðyrðin beinast að er nafngreindur.
Skrif sem þessi eiga sér alls kyns upphaf. Stundum koma þau í kjölfar beinna samskipta aðila á blogginu eða annars staðar, deilna eða skoðanaskipta. Einnig eru dæmi um að slík skrif beinist að einstaklingum sem þekkja ekkert til þess sem lætur hin neikvæðu ummæli falla og hafa aldrei átti í neinum samskiptum við viðkomandi níðskrifara.
Hvernig svo sem tengslum er háttað milli aðila eða hver hvatinn er að meiðyrðaskrifunum þá er þessi dómur héraðsdóms vandarhögg á bloggheiminn og áminning til okkar allra að ganga varlega um þessar dyr.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook
Pókervinningurinn skattskyldur eða hvað?
21.2.2008 | 15:40
Birkir Jón þingmaður Framsóknarflokksins tók þátt í skipulögðu fjárhættuspili í Reykjavík eins og orðað er í Fréttablaðinu í dag.
Birkir athugar vonandi hvort hann hljóti ekki að verða gefa vinninginn (sem sagður er stór) upp til skatts nema að hann láti hann renna til góðgerðarmála.
Birkir Jón, eins og annað fullorðið fólk getur í sjálfu sér gert hvað sem er svo framarlega sem það skaðar ekki aðra og varðar ekki við lög. Eins og hann sjálfur segir að þar sem hann stundar þetta ekki sér til framfærslu eða hefur starfa af þessu (hann er jú þingmaður) þá er ekki um lögbrot að ræða. Samt segir í frétt um þetta að lögreglan hafi nokkrum sinnum haft afskipti af skipulögðu pókerspili eins og því sem Birkir Jón tók þátt í.
Einhver mótsögn virðist því nú vera í þessu þ.e. ekki lögbrot en samt er lögreglan að hafa afskipti af þessu. Líklega er þetta á gráu svæði, alla vega er einhver vandræðagangur með þetta sem sannarlega er vert fyrir löggjafann að skoða.
Í kjölfarið skiptir það nú Framsóknarþingmennina miklu máli að löggjafinn fari yfir þetta mál með lagabreytingar í huga. Þetta þarf að skoða að mati Birkis Jóns og þá einna helst í tengslum við félagsleg vandamál sem af spilamennskunni kunna að leiða.
Við eigum þátttöku Birkis Jóns í skipulögðu fjárhættuspili því að þakka að Framsóknarmenn eru vaknaðir til meðvitundar um málefnið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.2.2008 kl. 12:12 | Slóð | Facebook
Sundagöng í Gufunesi óhagstæð þeim sem búa í Grafarvogi og Mosfellsbæ
17.2.2008 | 10:52
Ef skoðaðar eru myndrænt, annars vegar þá tillögu að byggja hábrú yfir Elliðavoginn með stefnu á Hallsveg og hins vegar þá tillögu að Sundabraut verði lögð í göng frá Laugarnesi í Gufunes, kemur í ljós að sú síðari hlýtur að vera öllu óhagstæðari þeim sem búa í Grafarvogi og Mosfellsbæ.
Báðar tillögurnar eru vissulega hannaðar með það markmið í huga að létta á gríðarlegum umferðarþunga og þá ekki hvað síst á Vesturlandsvegi og Miklubraut.
Fyrir þessa íbúa skiptir máli hvar leiðin yfir Kleppsvík liggur. Tillagan sem borgarráð hefur nú samþykkt leiðir til þess að margir vegfarendur þurfa að taka á sig krók aftur til norðurs ætli þeir inn í Sundagöng. Verði þessi tillaga að veruleika eins og nú lítur út fyrir myndi það ekki koma á óvart að þessir ökumenn veldu frekar að halda áfram að aka Vesturlandsveginn og Miklubraut sem þýðir einfaldlega að umferðarþungi á þeim vegum minnkar lítið.
Hugmyndin um brú yfir Elliðavoginn með stefnu á Hallsveg hlýtur því að hafa hugnast Grafarvogsbúum og íbúum Mosfellsbæjar mun betur en þessi sem nú liggur á borðinu. Þess utan finnst mörgum svona, ef séð út frá fagurfræðilegu sjónarmiði að brú hefði vinninginn yfir göng, alla vega í þessu umhverfi.
Ef af hverju var hætt við hábrú yfir Elliðavoginn?
Eins og fram hefur komið eru margir kostir þess að setja Sundabraut í göng og hefur í því sambandi verið nefndir þættir eins og umferðaröryggi, hávaðamengun og betri stjórnun svifryksmengunar.
En vegna lykkju eða króks sem vegfarendur þurfa að taka, ætli þeir sér inn í Sundagöngin í Gufunesi má allt eins búast við því að umferðarþungi haldi áfram að vera mikill um Vesturlandsveg og Miklubraut. Ef sú verður raunin er markmiðinu líklegast aðeins náð að hluta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook
Áhrif auglýsinga, ólíkar upplifanir.
13.2.2008 | 19:33
Áhrifin sem auglýsingar hafa okkur eru eflaust mjög fjölbreytileg.
Þær auglýsingar sem nú er verið að sýna um mjólk sem dæmi, finnst mér persónulega alveg ómögulegar. Ég drekk ekki mikla mjólk öllu jafnan en eftir að hafa horft á auglýsingu frá mjólkurframleiðendum (Muuu) sem nú ganga kvöld eftir kvöld um mjólk, langar mig síst af öllu í mjólk. Þær hafa einfaldlega neikvæð áhrif á mig .
Talandi um aðrar auglýsingar þá langar mig að nefna auglýsingar frá Umferðarstofu. Þær ganga reyndar út á allt annað en mat og drykk heldur eru að minna á aðgát og varkárni í umferðinni. Auglýsingar frá Umferðastofu hafa mér oftast nær þótt vera mjög góðar. Þær hitta einhvern veginn í mark, fá mig og vonandi sem flesta til að hugsa um mikilvægi aðgátar í umferðinni og mögulegar afleiðingar glæfra,- og ölvunaraksturs sem dæmi.
Auglýsingar almennt séð eru sannarlega stór hluti af lífi okkar. Við sjáum þær daglega í öllum blöðum og horfum á fjölmargar í sjónvarpinu á hverju kvöldi. Ég er þess fullviss að mikið er lagt í hugmyndavinnu og gerð þeirra og markmiðið er ávalt að ná til neytandans/hlustandans.
En stundum, alla vega hjá sumum, virka þær þveröfugt.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook
Að standa við gerða samninga
10.2.2008 | 14:44
Ég hef verið að reyna að setja mig inn í þetta mál með Laufás í Eyjafirði. En þar standa leikar þannig að sonur fyrrverandi prests, séra Péturs Þórarinssonar heitins vill ekki standa við gerðan samning sem kveður á um að hann geti stundað búskap á Laufási þar til faðir hans léti af prestskap.
Í fréttinni segir að eftir að séra Pétur lést óskar sonur hans eftir því að búa áfram á jörðinni. Kirkjuráð samþykkti hins vegar, til að koma á móts við hann, að beina þeim tilmælum til stjórnar prestssetra að honum yrði boðinn fjögurra ára leigusamningur án hlunninda en jafnframt var þess krafist að hann myndi flytja húsið af jörðinni eins og áður hafði verið um samið.
Húsið hafði hann fengið leyfi til að byggja fyrir sig og fjölskyldu sína sem er óvenjulegt sbr. reglur sem kveða á um að þegar prestskipti verða á prestssetrum taki nýr prestur við allri jörðinni og hlunnindum sem henni fylgja. Þess vegna hafði húsið verið byggt þannig að auðvelt er að flytja það.
Án þess að vilja gera lítið úr tilfinningarlegu gildi og umfangi búskapar sonar Péturs og fjölskyldu hans þá samþykkti hann á sínum tíma með undirskrift sinni að flytja sig og hús sitt af jörðinni þegar faðir hans hætti prestskap.
Nú hins vegar vill hann ekki framfylgja samningnum og segir (sjá frétt í Mbl. í dag) að hann líti svo á að fyrst kirkjan sé tilbúin til að leigja honum jörðina áfram til búskapar geti það ekki skipt öllu máli þó húsið fái að vera áfram á jörðinni auk þess sem hann telur að fjögurra ára leigusamningur sé of stuttur?
Samningur er samningur en svo virðist sem að þrátt fyrir skýrt orðalag og sameiginlegan skilning samningsaðila við undirritun sé samt hægt síðar meir þegar á samninginn reynir, að umsnúa innihaldinu þannig að allt annar skilningur rati upp á dekk.
Óbætanlegt tjón
10.2.2008 | 10:00
Sjö listamenn urðu fyrir gríðarlegu tjóni þegar vinnusvæði þeirra í kjallara Korpúlfsstaða fylltist af vatni í óveðrinu sem reið yfir í fyrradag. Nú er þetta fólk búið að missa atvinnu sína, atvinnutæki, efni til listmunagerðar auk fjölmargra listaverka sem ekki verða metin til fjár.
Í svona tilviki þyrfti að vera til ábyrgðarsjóður sem hægt væri að úthluta úr. Sumt verður vissulega ekki bætt með peningum en með fjárstyrk gætu þessir listamenn hafist handa við að endurbyggja og endurnýja aðstöðu og tækjabúnað.
Þessir listamenn eiga alla mína samúð svo mikið er víst.