Fokið í flest skjól í borginni
28.11.2018 | 15:35
Það er nú fokið í flest skjól þegar meirihlutinn getur ekki samþykkt tillögu Flokks fólksins að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa segir í bókun sem lögð var fram á fundi borgarstjórnar í nótt.
Einnig segir í bókuninni:
Látið er að því liggja að notendasamráð sé í fullri virkni enda nefnt 9 sinnum í sáttmála meirihlutans. Meirihlutinn getur ekki samþykkt sína eigin stefnu? Borgarfulltrúi Flokks fólksins hélt í barnaskap sínum að þessi tillaga, ef einhver, myndi vera fagnað af meirihlutanum enda mikilvægt að skerpa á svo mikilvægum hlut sem notendasamráð er. Notendasamráð er sannarlega í orði en staðreyndin er að það er enn sem komið er, ekki nema að hluta til á borði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna nýlegar upplýsingar frá notendum þjónustu sem segja að áherslur notenda nái oft illa fram að ganga og að enn skorti á raunverulegt samráð þótt vissulega sé það stundum viðhaft á einhverju stigi máls. Hér hefði verið kjörið tækifæri fyrir meiri- og minnihlutann að sameinast um enn frekari skuldbindingu þess efnis að Reykjavíkurborg hefði notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hagsmuni og hag hópa og almennings.
Hér er tillagan í heild sinni
Lagt er til að Reykjavíkurborg hafi notendasamráð í öllum sínum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings.
Notendasamráð er skilgreint sem aðferð þar sem notandi kemur að mótun sinnar eigin þjónustu í samráði við þjónustuaðila og byggir á valdeflingu og þátttöku notenda. Nú þegar er þetta í starfsáætlunum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og er mjög mikilvægt að haldið verði áfram að auka vægi hlutdeildar notenda á öllum sviðum borgarinnar. Notendasamráð á rætur sínar að rekja til aukinnar áherslu á félagslegt réttlæti og mannréttindi. Notendasamráð styrkir vald og þátttöku notenda.
Notendasamráð hefur vakið áhuga háskólanema sem hafa rannsakað það m.a. í
lokaverkefnum og haldnir hafa verið opnir fundir um notendasamráð. Breytingar hafa verið gerðar á lögum um félagsþjónustu sem fela í sér auknar skyldur fyrir Reykjavíkurborg um samráð við notendur um framkvæmd þjónustu fyrir fatlað fólk.
Greinargerð:
Að hafa samráð við notendur um þá þjónustu sem þeim er ætlað eru bæði sjálfsögð og eðlileg mannréttindi. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fá að vera þátttakandi í eigin lífi og taka sjálfur þátt í ákvörðunum sem varða eigin hag, líðan og almennar aðstæður. Engu að síður er notendasamráð tiltölulega nýtt í umræðunni og ekki síst í framkvæmdinni. Ekki er vitað hversu víðtækt notendasamráð er haft við notendur hjá Reykjavíkurborg. Til þess að notendasamráð tvinnist inn í menningu og samfélag þarf hugmyndafræðin að vera greipt í námsefni fagaðila og verða hluti að fagþekkingu og reynslu. Öðruvísi mun ekki takast að innleiða hugmyndafræði notendasamráðs með markvissum hætti. Lagt er til hér að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg ákveði að hafa notendasamráð í öllum verkefnum og ákvörðunum sem varða hag og hagsmuni einstakra hópa og almennings. Notendur einir geta upplýst um það hvort notendasamráð sé viðhaft og virkt alls staðar þar sem verið er að ákveða og þróa þjónustu og ólíkar aðstæður fyrir fólk. Þess vegna er mikilvægt að spyrja notendur reglulega með þar til gerðum spurningakönnunum. Grunnur notendasamráðs er að stjórnvöld hlusti á hvað notandinn er að segja þegar verið er að skipuleggja eða þróa þjónustu. Vinna á með fólki en ekki með fólk. Það er notandinn sem á að kenna fagaðilum og stjórnvöldum hvernig hægt er að mæta þörfum hans sem best. Notandinn
er sérfræðingur í eigin lífi. Mikilvægt er að notandinn sé með frá byrjun ekki bara á seinni stigum.
Fulltrúi Pírata fékk það hlutverk að slá þessa tillögu út af borðinu með "rökum". Henni var í kjölfarið vísað frá af meirihlutanum
Kötturinn flotti! 4.4 milljónir
26.11.2018 | 11:29
Gaman væri að vita hvað jólaskreytingar kosta í borginni og hvernig þær skiptast eftir hverfum. Um þetta hefur verið spurt og munu eftirfarandi fyrirspurnir verða lagðar fram á fundi borgarráðs á fimmtudaginn:
Óskað er eftir upplýsingum um sundurliðaðan heildarkostnað við jólaskreytingar Reykjavíkurborgar fyrir jólin 2018. Jafnframt er óskað eftir sundurliðun á kostnaði eftir hverfum ef hann liggur fyrir.
Fyrir liggur kostnaður jólakattarins á Lækjartorgi, en ekki hver tók ákvörðun um kaup á honum og staðsetningu. Veit ekki hvort fólki finnst að það eigi bara að liggja milli hluta?
Spurning um ímynd borgarstjóra
22.11.2018 | 17:33
Móttökuveislur borgarinnar 2018
18.11.2018 | 13:23
Af hverju mátti þessi blettur ekki fá að vera í friði?
9.11.2018 | 11:55
Málefni Víkurgarðs hafa verið í umræðunni upp á síðkastið. Á þessum bletti skal rísa enn eitt hótelið.
Flokkur fólksins leggst gegn því að byggt verði hótel á þessu svæði. Víkurgarður og nánasta svæði þar í kring hefði átt að fá að vera í friði enda svæði sem er mörgum kært. Gróðavon og stundarhagsmunir er það sem virðist ráða för hér á kostnað staðar sem er helgur og hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga. Af hverju mátti þessi litli blettur ekki fá að vera í friði og þeir sem þar hvíldu, hvíla þar í friði? Fjarlægðar hafa verið minjar í þessum tilgangi og þykir Flokki fólksins að sá gjörningur hafi verið mistök og allt og langt gengið enda ekki skortur á byggingarsvæði. Flokkur fólksins tekur undir og styður áskorun frú Vigdísar Finnbogadóttur og þriggja heiðursborgara sem mótmæla þessari framkvæmd og skora á borgina og byggingaraðila að láta af áformum um byggingu hótels á þessum bletti.
Hávaðamengun Reykjavíkurborgar
8.11.2018 | 14:24
Á fundi borgaráðs í morgun var lögð fram tillaga af Flokki fólksins þess efnis að borgin tryggi að eftirlit með framkvæmd reglugerðar sem fjallar um hávaðamengun í borginni verði fylgt til hins ýtrasta og hafa þá í huga:
a) Leyfisveitingar þurfa að fylgja reglugerð um hljóðvist og hávaðamörk. https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/724-2008Oftar en ekki eru leyfi samþykkt umfram tíma sem tengist næturró, sem gildir frá klukkan 11pm til 7am, samkvæmt reglugerð. Einnig er áberandi að hávaðamörkum fyrir þann tíma er ekki fylgt. Til dæmis fær Airwaves tónlistarhátíðin leyfi til klukkan 2am föstudag og laugardag fyrir útitónleika í þaklausu porti Listasafns Reykjavíkur. Lýðheilsa íbúanna og friðhelgi einkalífs eru neðarlega á lista þeirra sem samþykkja slík leyfi hávaðaafla, sem halda vöku fyrir íbúum og hótelgestum, í boði Reykjavíkurborgar.
b) Mikilvægt er að beita viðurlögum, sektum og leyfissviftingum þegar leyfishafi brýtur lög og reglur um hljóðvist og hávaðamengun. í dag eru leyfi veitt ár eftir ár þrátt fyrir brot á reglugerð, sem hefur bein áhrif á lýðheilsu íbúanna.
c) Íbúalýðræði, grenndarkynningar og samstarf við íbúasamtök þarf að vera virkt og lausnarmiðað með hag íbúa miðborgar í huga.
d) Gera þarf skýran greinarmun á vínveitingaleyfi og hávaðaleyfi sem tengist reglugerð um hljóðvist og hávaðamengun.
e) Hátalarar utan á húsum skemmtistaða og veitingastaða miðborgar verði fjarlægðir.
f)Samstarf lögreglueftirlits og íbúa þarf að vera skýrt, og hávaðamælar í farsímum ætti að vera hluti af vinnuaðferð lögreglunnar. Í dag berast kvartanir og ábendingar til lögreglunnar ekki inn á borð stjórnenda Reykjavíkurborgar.
g) Styrk hávaðans mældur í desíbelum
h) Tónhæð hávaðans.
i) Hvort hávaðinn er stöðugur eða breytilegur
j) Dagleg tímalengd hávaðans
k) Hvenær tíma sólarhringsins hávaðinn varir
l) Heildartímabil, sem ætla má að hávaðinn vari (dagar/vikur).
Fram kemur í greinargerð með tillögunni að kvartanir yfir hávaða m.a. vegna Airwaves, Inni/Úti púkans og fleiri útihátíða hafa borist frá þeim íbúum sem búa í nágrenninu. Svo virðist sem íbúar séu ekkert spurðir álits þegar verið er að skipuleggja hátíðar á borð við þessa sem er vís til að mynda hávaða. Minnt er á að til er reglugerði um þetta og hvað varðar aðra hljóðmengun þá er ekki séð að eftirlit sem framfylgja á í samræmi við reglugerðina sé virkt. Í reglugerð er kveðið á um ákveðin hávaðamörk og tímasetningar. Fjölgun hefur orðið á alls kyns viðburðum sem margir hverjir mynda hávaða, ekki síst þegar hljómsveitir eru að spila. Á tímabilum er gegndarlaus hávaði í miðborgin og erfitt fyrir fólk sem í nágrenninu að ná hvíld. Hér er um lýðheilsumál og friðhelgi einkalífs að ræða.
Margt fólk hefur kvartað í lýðræðisgáttina en ekki fengið nein svör, eða ef fengið svör, þá eru þau bæði loðin og óljós.
Þeir sem bent hafa á þetta segja að svo virðist sem ábendingar séu hunsaðar og að ábendingavefur borgarinnar sé bara upp á punt. Látið er í það skína að hlustað sé á kvartanir en ekkert er gert. Svo virðist sem deildir og svið borgarinnar starfi ekki saman í það minnsta er eitthvað djúpstætt samskiptaleysi í gangi.
Vínveitingaleyfi í borginni hafa margfaldast og er miðborgin að verða einn stór partýstaður. Minnt er á að í borginni býr fólk, fjölskyldur með börn.
Íbúum miðborgarinnar er sýnd afar lítil tillitssemi og er gild ástæða til þess að vekja athygli á þeirri staðreynd í tengslum við hina grænu áherslu Reykjavíkurborgar að hávaðamengun er líka mengun.
Húrra! Gegnsæi og rekjanleiki eykst í borginni
7.11.2018 | 09:52
Mig langar að segja frá því að tillaga Flokks fólksins er varðar að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál borgarfulltrúa og birtir á vef borgarinnar er nú komin í fjárhagsáætlun borgarinnar sem lögð var fram í gær á fundi borgarstjórnar. Þetta má sjá í kaflanum Ný upplýsingarkerfi sem er fylgiskjal í fjárhagsáætluninni.
Þessi tillagan var lögð fyrir af Flokki fólksins á fundi borgarráðs 16. ágúst sl. og hljóðaði svona:
Lagt er til að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál eftir því hverjir eru málshefjendur þeirra til að auka gagnsæi og rakningu mála. Um er að ræða yfirlit yfir tillögur, fyrirspurnir og önnur mál sem borgarfulltrúar leggja fram í borgarráði, borgarstjórn eða á nefndarfundum. Í yfirlitinu skal tiltekið á hvaða stigi málið er eða hvernig afgreiðslu það hefur fengið. Yfirlitið skal birt á ytri vef borgarinnar.
Rýmkun hlutverks fagráðs kirkjunnar
4.11.2018 | 12:28
Í gær var minn fyrsti dagur á kirkjuþingi 2018 sem kirkjuþingsfulltrúi. Ég er framsögumaður þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að kirkjuþing samþykki að rýmka hlutverk fagráðsins. Í stað þess að fagráðið taki einungis á málum er varða meint kynferðisbrot gætu allir, ef ályktunin yrði samþykkt, sem starfa á vegum kirkjunnar eða eiga þar hagsmuna að gæta vísað þar tilgreindum málum sínum til fagráðsins. Þetta næði t.d. yfir mál er litu að hvers lags ofbeldi svo sem einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi. Lagt er til að skipuð verði nefnd sem hefði það hlutverk að móta starfsreglur, verklag og stjórnkerfi, sem og yfirfara skilgreiningar í tengslum við þær breytingar sem lagðar eru til.
Endalausar móttökur hjá borginni
25.10.2018 | 20:11
Bókunin:
Spilað með fé borgarbúa
19.10.2018 | 10:19
Mathöll, Laugavegi 107, fóru langt fram úr kostnaðaráætlunum. Framkvæmdir við húsnæði Mathallarinnar á Hlemmi eru enn annar stórskandall af þessum toga hjá borginni. Margt kom á óvart í verkinu sem olli því að kostnaður varð þrefalt meiri en áætlað var. Þetta mál verður að skoða ofan í kjölinn. Öldur mun ekki lægja fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Svona getur þetta ekki haldið áfram í borginni. Finna þarf leiðir til að tryggja að áætlanir haldi í verkefnum sem þessum. Það er ekki hægt að bjóða borgarbúum upp á svona vinnubrögð þar sem farið er með fé þeirra eins og verið væri að spila fjárhættuspil. Þegar vísbendingar eru um að verk sé að fara fram úr áætlun þarf nauðsynlega að liggja fyrir einhver viðbragðsáætlun. Hversu skemmtilegur staður Mathöllin er skiptir bara ekki máli í þessu sambandi. Lífsgleði og lífshamingja sem Mathöllin er sögð veita mörgum eru ekki neinar sárabætur, alla vega ekki fyrir alla borgarbúa.
Hvorki hengja bakara né smið
13.10.2018 | 14:47
Þegar upp er staðið hlýtur aðeins einn að vera ábyrgur fyrir framúrkeyrslunni við endurbyggingu braggans og það er borgarstjóri. Hann er framkvæmdastjóri borgarinnar. Hverjir unnu verkið eru varla ábyrgir. Við megum hvorki hengja bakara né smið.
Ég er ekki tilbúin til að samþykkja eitthvað pukur þegar kemur að braggamálinu nú þegar rannsókn á uppbyggingarferlinu er að hefjast. Allar ákvarðanir og hverjir tóku þær þurfa að koma fram í dagsljósið. Borgarbúar eiga rétt á að fá að vita hvernig ákvörðunum var háttað og á hvaða stigi þær voru teknar.
Nú er sagt við okkur borgarfulltrúa að við dreifingu gagna að rannsóknarhagsmunir skerðist fari þau í almenna og opinbera birtingu meðan á rannsókn stendur. Það kann að vera rétt.
En hvernig á hinn almenni borgari að geta verið viss um allt komist upp á borðið? Þetta er spurning um traust og því hefði verið betri að fá ekki einungis óháðan aðila i verkið heldur einhvern utan Ráðhússins.
Flokkur fólksins hefur mótmælt því að Innri endurskoðun rannsaki málið vegna þessa að Innri endurskoðun þekkir þetta mál frá upphafi og hefur án efa setið fundi þar sem ákvarðanir voru teknar í sambandi við endurgerð braggans. Sem eftirlitsaðili kom Innri endurskoðun ekki með athugasemdir eða ábendingar þá. Hvað svo sem niðurstöður leiða í ljós er aðeins einn ábyrgur þegar upp er staðið og það er borgarstjóri.
Ekki sama hvar þú býrð og heldur ekki hvar þú vinnur
12.10.2018 | 13:43
Borgarmeirihlutinn er á hraðri leið með að útrýma einkabílnum úr borginni. Liður í mótmælum gegn því er tillaga Flokks fólksins sem lögð var fyrir fyrir margt löngu þess efnis að borgarfulltrúar og starfsmenn Ráðhússins fengju frí bílastæði. Minna má á að borgarstjóri er með einkabílstjóra og margir borgarfulltrúar búa miðsvæðis. En það á ekki við um alla. Þessi tillaga var loks á dagskrá i morgun á fundi forsætisnefndar og sjá má svar borgarmeirihlutans í fundargerð. Hér er bókun Flokks fólksins sem gerð var þegar tillaga var felld:
"Í umræðunni um kostnað við frí bílastæði fyrir borgarfulltrúa og starfsfólks Ráðhúss, en tillaga þess efnis hefur nú verið felld, vill borgarfulltrúi minna á margs konar óráðsíu í fjármálum borgarinnar t.d. við rekstur skrifstofu borgarstjóra sem kostar um 800 milljónir á ári. Eins virðist vera hægt að henda fé í alls kyns hégómleg verkefni eins og bragga sem frægt er orðið og mathöll. En þegar kemur að gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir borgarfulltrúa og starfsfólk borgarinnar er ekki til fjármagn.
Hvað varðar starfskostnað, (sem notaður er sem rök til að fella tillöguna) sem á að vera til að dekka bílastæðagjöld, þá er hann sá sami án tillits til búsetu. Borgarfulltrúa finnst það ekki réttlátt að starfskostnaður sé sá sami fyrir þann sem t.d. býr í efri byggðum borgarinnar og þann sem býr í miðbæ eða vesturbæ.
Það er mjög kostnaðarsamt fyrir þann sem kemur langt til starfa sinna að greiða allt að 1500 krónur og jafnvel meira fyrir vinnudag að ekki sé minnst á tímann sem tekur að komast til vinnu í þeirri umferðarteppu sem einkennir Reykjavík. Hvað varðar borgarfulltrúana má minna á að Alþingismenn hafa frí bílastæði þótt það skipti vissulega engu máli í þessu sambandi"
Mótmæli að Innri endurskoðun ráðist í heildarúttekt á braggabullinu
11.10.2018 | 13:28
Því var mótmælt í morgun á fundi borgarráðs að Innri endurskoðun verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér.
Eftirfarandi bókun var gerð af borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Innri endurskoðun hér eftir vísað í sem IE getur varla talist óháð í þetta verkefni vegna ákveðinna tengsla og þeirra upplýsinga sem hún hefur haft allan tímann um framvindu endurbyggingar braggans. Í því ljósi munu niðurstöður heildarúttektar IE, þegar þær liggja fyrir varla álitnar áreiðanlegar. Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að koma með ábendingar í ferlinu jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á svig við vandaða stjórnsýsluhætti. Að IE ætli nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti er þar að leiðandi óraunhæft að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og mun varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna.
Fulltrúi frá Innri endurskoðun var þessu ekki sammála og til að gæta alls réttlætis birtist hér viðbrögð IE:
Hér er enn og aftur misskilningur á hlutverki IE.
Við höfum gjarnan skilgreint innra eftirlit upp í þrjár varnarlínur. Gróflega er það svo að í fyrstu línu eru framkvæmdirnar, annarri línu þeir sem bera ábyrgð á verklaginu og gerð verkferla. Í þriðju línu er Innri endurskoðun sem hefur það hlutverk að meta virkni innra eftirlits á hverjum tíma. Það er það sem Innri endurskoðun hefur haft að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Til þess að halda óhæði okkar er mikilvægt að tryggja að við séum utan við framkvæmd stjórnkerfisins. Við höfum í gegnum tíðina gert úttektir á sviði innkaupa, útboða og stjórnsýslu til að meta og sannreyna virkni innra eftirlits og höfum komið ábendingum á framfæri m.a. við borgarráð. Það er ekki á ábyrgð né hlutverk Innri endurskoðunar að vera þátttakandi í framkvæmdum.
Rannsakaði dúnmel í 15 ár
11.10.2018 | 07:06
Það er ótrúlegt að sækja þetta til Danmerkur þegar tegundin er til víða hér á landi, segir Jón Guðmundsson plöntulífeðlisfræðingur í samtali við Fréttablaðið. Strá sem gróðursett voru fyrir utan braggann í Nauthólsvík, sem fór hraustlega fram úr kostnaðaráætlun, kostuðu Reykjavíkurborg 757 þúsund krónur. DV greindi fyrst frá því.
Stöð 2 greindi svo frá því í kvöld að keyptar hafi verið 800 plöntur á 950 krónur stykkið. Kostnaður við gróðursetningu hafi numið 400 þúsund krónum til viðbótar. Heildarkostnaðurinn við stráin, sem heita Dúnmelur á íslensku, var því 1.157 þúsund krónur.
Sjá einnig: Borgarstjóri segir braggamál kalla á skýringar
Jón segir að hann hafi rannsakað dúnmel á árunum 1990 til 2005 en þess má geta að hann er eiginmaður Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins. Hann hafi plantað nokkrum fræjum í Rangárvallasýslum. Þessi planta er búin að vera til á landinu í 60 til 70 ár. Hann segist undrandi á því að þessar upplýsingar séu ekki á allra vitorði sem að svona málum koma.
Dúnmelur er náskyldur melgresi, sem vex mjög víða á Íslandi. Hann má að sögn Jóns meðal annars finna við Hafnarfjörð. Það eru breiður af þessu við Hvaleyrarvatn, segir hann og heldur áfram. Ég var sjálfur beðinn um þessa tegund af fyrirtæki í bænum. Ég fór bara í reit í nágrenninu og færði þeim nokkur eintök, útskýrir hann.
Til gamans má geta að þegar leitað er að orðinu dúnmelur á Wikipediakoma fram upplýsingar um útbreiðslu á Íslandi. Honum hefur verið sáð á Íslandi til að græða upp foksanda. Vísað er í þrjár heimildir.
Dýraníð ZERO TOLERANCE!!!!
8.10.2018 | 17:34
Það er fátt sem veldur mér eins miklum viðbjóði og andlegri vanlíðan og dýraníð. Ég get ekki horft á myndir af slíku en bregði fyrir frétt af dýraníði er dagurinn ónýtur hjá mér og oftast nær nóttin á eftir líka. Ég verð algerlega miður mín, fyllist brjálaðri reiði, fer að gráta, mér verður óglatt, get ekki um annað hugsað en get ekkert gert í stöðunni. Ég spyr mig stöðugt hvers konar mannvera getur gert svona? Hver hefur það í sér að pynta sér til gamans ómálga, varnarlausar lífverur sem eiga allt undir okkur mannskepnunni? Um orsakir? Það eitt tel ég víst að sá fullorðinn einstaklingur sem þetta gerir er ýmist alvarlega andlega sjúkur eða illur nema hvort tveggja sé. Þeir sem gera svona af barnaskap, í fíflagangi eða af því þeir eru áhrifagjarnir eiga eftir að líða illa þegar þeir hafa fengið ögn meiri þroska. Sé um að ræða börn má telja víst að þeim líður hræðilega illa með sjálfa sig af einhverjum orsökum, innri og/eða ytri. Ég hef margsinnis hitt fólk sem gerði svona lagað á yngri árum og gæfi mikið til að hafa ekki gert þetta því samviskan er að drepa það. Minningin um svona viðbjóðslegar gjörðir elta jafnvel alveg fram á grafarbakkann. Við verðum að reyna að gera allt til að sporna við svona löguðu. Ef við höfum einhvern grunaðan eða verðum vitni af svona löguðu þá að reyna að ná til hans, ræða við hann, fá aðstoð fyrir hann, vakta hann..., láta Matvælastofnun eða lögreglu vita. ZERO TOLERANCE!!!!
Ískaldar kveðjur frá borgarmeirihlutanum til fyrrverandi starfsmanna
7.10.2018 | 12:11
Það er ákveðinn hópur sem situr eftir í sárum vegna óleystra eineltismála á starfsstöðvum borgarinnar. Hér er bæði um fyrrverandi og núverandi starfsmenn. Þess vegna lagði Flokkur fólksins til eftirfarandi á síðasta borgarstjórnarfundi:
Lagt er til að borgarstjórn kalli eftir ábendingum/upplýsingum frá núverandi/ fyrrverandi starfsmönnum borgarinnar sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi á starfsstöðvum borgarinnar. Lagt er til að skimað verði hvort þolendur telji að kvörtun/tilkynning hafi fengið faglega meðferð.
Lagt er til að hvert þeirra mála sem kunna að koma fram verði skoðuð að nýju í samráði við tilkynnanda og ákvörðun tekin í framhaldi af því hvort og þá hvernig skuli halda áfram með málið.
Lagt er til að mannauðsdeild verði falið að taka saman upplýsingar um fjölda starfsmanna (tímarammi ákveðinn árafjöldi aftur í tímann) sem telja sig hafa orðið fyrir einelti/kynferðislegri áreitni/kynbundnu ofbeldi í störfum sínum hjá Reykjavíkurborg.
Fram komi hversu mörg mál hafi leitt til starfsloka þolanda, hvernig tekið hafi verið á málum, hvort og hvernig gerendum í þeim málum sem einelti hafi verið staðfest hafi verið gert að taka ábyrgð.
Lagt er til að metið verði til fjár hver fjárhagslegur kostnaður/skaði borgarinnar er vegna eineltis/kynferðislegrar áreitni/ kynbundins ofbeldis á starfsstöðvum borgarinnar.
Þessi tillaga féll ekki vel í kramið hjá meirihlutanum sem vísaði henni frá þrátt fyrir að fullyrða að þau láti sig þessi mál varða fyrir alvöru með meetoo dæmið og allt það. Borgarfulltrúum Flokks fólksins og Miðflokksins þóttu þetta kaldar kveðjur og lögðu fram bókun þar sem fram kom að þessi afgreiðsla er líkleg til auka enn frekar á sársauka þeirra sem sitja með sárt ennnið vegna eineltismála hjá borginni.
Braggi fyrst og börnin svo
7.10.2018 | 10:48
Það er hægt að eyða í bragga en ekki börnin.
Hér er svar borgarmeirihlutans við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað mörg börn í Reykjavík búa undir fátæktarmörkum
Eftirfarandi bókun var gerð af borgarfulltrúa Flokks fólksins: Borgarfulltrúa finnst það æði dapurt að tæp 500 börn búi undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð í Reykjavík, í borg sem teljast má rík að flestöllu leyti. Þessar tölur eru með ólíkindum og enn sorglegra er að sjá hversu miklu munar eftir hverfum. Í Breiðholti má sjá hvernig borgarmeirihlutanum hefur mistekist þegar kemur að félagslegri blöndun en í Breiðholti er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Þessar tölur sýna að forgangsröðunin er verulega skökk í borginni þegar kemur að útdeilingu fjármagns. Um sóun og fjárhagslegt bruðl borgarmeirihlutans eru mörg nýleg dæmi og er skemmst að minnast hundruð milljóna fjárfestingu í hégómleg verkefni eins og uppbyggingu bragga í Nauthólsvík, Mathöll á Hlemmi og fleira mætti telja til.
Ég er ekki sátt við að það standi 90 íbúðir auðar hjá Félagsbústöðum
1.10.2018 | 20:20
Ég er ekki sátt að 90 íbúðir séu auðar hjá Félagsbústöðum vegna standsetningar. Á sama tíma berast fréttir um að einhverjum sé gert að búa í mygluðu húsnæði á þeirra vegum sem ekki hefur fengist lagað. Var eignum Félagsbústaða ekki haldið við árum saman? Minnumst þess einnig að 1000 einstaklingar og fjölskyldur eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík. Það er eitthvað í þessu sem ekki stenst. Þess vegna er mikilvægt að fá upplýsingar um ástæður t.d. um hvers lags viðgerðir hér um ræðir og tímalengd viðgerðanna. Á síðasta borgarráðsfundi lagði Flokkur fólksins fram eftirfarandi bókun og fyrirspurnir:
Flokki fólksins finnst furðu sæta að 90 íbúðir eru lausar vegna standsetningar
1. Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum 90 íbúðum.
2. Hvenær hófust viðgerðir?
3. Á hvaða stigi eru þær?
4. Hvenær verður þeim lokið?
5. Af hverju eru svo margar íbúðir óstandsettar?
6. Hverjar eru ástæðurnar?
Hættum að þjösnast
1.10.2018 | 20:15
Inntökuskilyrði í Klettaskóla eru of ströng. Í skólanum eru 130 nemendur en upphaflega var gert ráð fyrir að þar stunduðu innan við hundrað nemendur nám. Foreldrar sem hafa óskað eftir vist fyrir barn sitt í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla hafa orðið frá að víkja ef fyrirsjáanlegt er að barnið nær ekki þeim viðmiðunum, stundum naumlega, sem inntökuskilyrðin gera ráð fyrir. Eðli málsins samkvæmt er því enginn biðlisti í Klettaskóla að heitið geti. Nemendur með miðlungs eða væga þroskahömlun stunda öllu jafnan nám í almennum bekk, sum með stuðning og í sérkennslu. Einn þátttökubekkur er rekinn í tengslum við Klettaskóla. Hann var settur á fót 2013 og eru sömu inntökuskilyrðin í hann og Klettaskóla.
Vaxandi vanlíðan
Í ljósi vaxandi vanlíðunar barna, aukins sjálfsskaða og aukinnar tíðni sjálfsvígshugsana samkvæmt niðurstöðu sem birtist í nýlegri skýrslu Embættis landlæknis er hér um alvarlegan hlut að ræða í skólakerfi Reykjavíkur. Skóli án aðgreiningar er sú stefna sem Reykjavíkurborg rekur í skólamálum. Ef skóli án aðgreiningar á að vera fyrir öll börn þarf að fylgja honum fullnægjandi fjármagn til að hægt sé að bjóða börnum með væga og miðlungs þroskahömlun og börnum með aðrar sérþarfir þjónustu við hæfi. Um er að ræða þjónustu þroskaþjálfa, iðjuþjálfa, aðgengi að sálfræðingi, sérkennara, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðinga og náms-og félagsráðgjafa. Þetta er ekki raunveruleikinn í skólakerfi Reykjavíkurborgar.
Í Reykjavík er ekki nægjanlega hlúð að börnum með þroskahömlun í skóla án aðgreiningar. Börn með væga og miðlungs þroskahömlun eru mörg sett í ólíðandi skólaaðstæður í boði borgarinnar. Mörg eru einangruð, einmana og finna sig ekki í aðstæðunum þar sem þau geta ekki það sama og hin börnin. Þeim finnst þau vera öðruvísi og eignast ekki vini á jafningjagrunni.
Hvað segja foreldrar barna með þroskahömlun?
Kannanir hafa verið gerðar hjá Reykjavíkurborg en í engri þeirra koma fram skoðanir foreldra þroskahamlaðra barna. Rætt er um sérþarfir í könnunum sem er mjög vítt hugtak og getur vísað til alls mögulegs s.s. lesblindu, málþroskaröskun, ADHD en ekki endilega til þroskahamlana á borð við vitsmunaþroskaskerðingu.
Börn með þroskahömlun og foreldrar þeirra eru viðkvæmur hópur. Þetta er ekki háværasti hópurinn í samfélaginu. Allir foreldrar vilja það besta fyrir börn sín, að þau fái þjónustu við hæfi og séu í aðstæðum þar sem þau geta notið sín í undirbúningnum undir lífið. Margir foreldra barna með þroskahömlun bera kvíðboga fyrir börnum sínum nú og til framtíðar og svíður að hafa ekki val um skóla- og námsúrræði sem hentar þeim betur.
Hvert er stefnt?
Borgarmeirihlutinn hefur staðfest að ekki verði sett á laggirnar fleiri sérskólaúrræði með því að fella tillögur þess efnis sem lagðar voru fram í borgarstjórn. Tillögurnar voru felldar á þeim grundvelli að ekki sé þörf fyrir fleiri og fjölbreyttari sérúrræð fyrir nemendur með þroskahömlun. Þetta samræmist ekki því sem foreldrar barna með miðlungs eða væga þroskahömlun segja. Ný tillaga hefur verið lögð fram í Skóla- og frístundaráði um að rýmka inntökureglur í þátttökubekki. Til stóð upphaflega að bekkirnir yrðu fjórir en í dag er aðeins einn slíkur bekkur og er hann fullsetinn. Með því að bæta við þátttökubekk og rýmka inntökuskilyrðin svo þau nái utan um börn með væga og miðlungs þroskahömlun mun koma í ljós hver hin raunverulega þörf er. Fjölgi umsóknum í þátttökubekk ætti síðan að vera í lófa lagið að fjölga þeim eftir þörfum.
Hættum að þjösnast áfram í þessum málum og rembast við að steypa öll börn í sama mót. Skóli án aðgreiningar er rekinn af vanefnum í Reykjavík og er því ekki í þágu allra barna. Segja má að tvennt standi til boða að gera, annars vegar að gera skóla án aðgreiningar fullnægjandi fyrir öll börn eða fjölga sérúrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefnið er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt.